X.

Þá hún hafði nú endað sína bæn stóð hún upp og kallaði á sína ambátt Abra og gekk ofan í húsið, lagði af sér sekkinn og afklæddist sínum ekkjubúnaði, laugaði sig og smurði sig með dýrlegu vatni, fléttaði sitt hár og setti eina húfu sér á höfuð og íklæddist sínum kostulegum klæðum og prýddi sig með sínum fegurðarbúnaði og setti upp allt sitt skart. Og Drottinn gaf henni náð að hún var fríð ásýndar því að hún skartaði ekki af girnd heldur Guði til lofs. Og hún fékk sinni ambátt einn bikaðan leðurbelg fullan af víni og eina viðsmjörskrús og einn sekk þar eð hún hafði í fíkjur, mjöl og brauð þeim til matar. Og hún gekk af stað.

Og hún fann Osiam og öldungana í portdyrunum so sem sagt var. Og þá undraði hennar fríðleiki. Þó spurðu þeir hana ekki hvað hún ætlaði sér heldur létu þeir hana fara og sögðu: „Guð vorra forfeðra gefi þér náð og láti þitt áform lukkast so að Ísrael megi gleðjast af þér og að þitt nafn verði reiknað á meðal þeirra inu heilögu.“ Og allir þeir sem þar voru sögðu: „Amen, amen.“ En Júdít gjörði sína bæn og gekk áleiðis með sinni ambátt Abra.

Og sem hún gekk árla morguns ofan af fjallinu þá mættu henni varðhaldsmenn þeirra Assyriis. Þeir tóku hana höndum og spurðu hana hvaðan hún kæmi og hvert hún vildi. Og hún svaraði: „Eg er ein ebresk kvinna og eg flýði frá þeim því að eg veit að þeir munu koma í yðar hendur af því að þeir fyrirlitu yður og vildu ekki leita náðar og gefa sig velviljuglega undir yður. Þar fyrir hefi eg í sinni að koma til höfðingjans Holofernes og opinbera honum þeirra leyndarmál og skýra honum frá hvernin hann kunni þá auðveldlega yfir að vinna so að hann skal ekki þurfa að missa einn mann.“

Á meðan hún var þetta að tala horfðu þeir á hana og undruðust stórlega hennar vænleika og sögðu: „Það má þér til hjálpar verða að þú hefur so góða fyrirhugsun að þú vilt koma til vors herra. Því að nær þú kemur fyrir hans auglit þá mun hann verða þér náðigur og þú munt þóknast honum af hjarta.“ Og þeir leiddu hana burt að landtjaldi Holofernis og sögðu honum frá henni. Og þá hún kom fyrir hann þá brann hann jafnsnart af hennar ást. Og hans þénarar sögðu sín á milli: „Það ebreska fólk er á öngva leið forsmáanda með því það hefur so fríðar kvinnur. Skyldu menn ekki berjast vegna so fríðra kvenna?“ Þegar eð Júdít sá nú Holofernem sitjandi í sínu tjaldi hvert eð forkostulega var gjört með purpura og gulli og smaragdus og með mörgum gimsteinum prýtt þá féll hún niður og laut honum. Og Holofernes bauð að reisa hana upp aftur.