II.

Eg er eitt blómstur í Saron og ein rosa í dalnum. Svo sem ein lilja á meðal þyrnanna svo er mín kærasta á meðal dætranna. Líka sem eitt eplistré á milli villitrjánna so er minn vin á meðal sonanna. Eg sit undir hans skugga sem mig girnir og hans ávöxtur er sætur mínum barka.

Hann leiddi mig í sinn vínkjallara og kærleikurinn er hans merki yfir mér. Hann lífgaði mig með blómstrum og nærði mig með eplum því eg er sjúk af ástinni. Hans vinstri hönd er undir mínu höfði og hans hægri hönd umfaðmar mig.

Eg særi yður, þér dætur Jerúsalem, við geitur og hindur á mörkinni, að þér hverki uppvekið né ónáðið mína kærustu fyrr en hún sjálf vill.

Það er rödd míns kærasta, sjá þú, hann kemur stökkvandi á fjöllunum og steðjandi á hæðunum. Minn kærasti er líka sem hreindýr eða ungur hjörtur. Sjá þú, hann stendur á bak við vorn vegg og sér í gegnum gluggana og gægist út um grindurnar.

Minn vinur svarar og segir til mín: Statt upp, mín kærasta, mín in prýðilega, og kom hingað til mín. Því sjá þú, veturinn er liðinn, regnið er af og í burt horfið. Blómstrið er uppvaxið í landinu, vorið er komið og turtildúfan kvakar í voru landi. Fíkjutréð hefur fengið ávöxt, víntrén standa með blóma og gefa til sinn ilm. Stattu upp, mín kærasta, og kom, mín in prýðilega, kom hingað. Mín dúfa er í steinholunum og bjargskorunum, sýn mér þitt andlit, lát mig heyra þína raust, því þín rödd er sæt og þitt andlit er prýðilegt.

Takið fyrir oss refana, þá smárefina, þeir sem fordjarfa víngarðana, því vorir víngarðar blómgast. Minn vinur er minn og eg em hans, hann hver eð til haga heldur á meðal liljurósanna þar til dagurinn kólnar og skugginn burt líður. Kom þú aftur og vert sem hind, minn vin, eða sem ungur hjörtur á skilnaðarfjöllum.