VII.

En þá hann hafði lyktað sína ræðu fyrir fólkinu gekk hann inn í Kapernaum. [ En þjón eins hundraðshöfðingja lá dauðvona hver eð honum var geðfelldur. [ Og er hann heyrði af Jesú sendi hann menn af öldungum Gyðinga til hans og bað hann að koma og gjöra sinn þjón heilbrigðan. En er þeir komu til Jesú, þeir grátbæntu hann og sögðu: „Verður er hann þess að þú veitir honum það því að hann elskar vora þjóð og hefir uppbyggt fyrir oss vort samkunduhús.“ En Jesús gekk með þeim þaðan.

Og þá er þeir voru eigi langt frá húsinu sendi höfðinginn vini til hans og sagði: „Herra, þjáið yður eigi því að eg em ei verður að þú gangir inn undir mitt þak. Þar fyrir hefi eg og eigi reiknað sjálfan mig verðugan til þín að koma heldur mæl þú orð og þá verður minn þjón heill. Því að eg em maður valdinu undirgefinn, hafandi undir mér hernaðarmenn og ef eg segi þessum: Far, þá fer hann og öðrum: Kom, so kemur hann, og þjón mínum: Gjör þetta, og þá gjörir hann það.“ En er Jesús heyrði það undraðist hann og snerist við og sagði til fólksins sem honum fylgdi eftir: „Sannlega segi eg yður að eg hefi eigi fundið þvílíka trú í Ísrael.“ Og er þeir sem út voru sendir komu aftur til hússins fundu þeir þann þjón er sjúkur hafði verið heilbrigðan.

Það skeði og eftir það að Jesús gekk til þeirrar borgar sem hét Naim og margir hans lærisveinar fylgdu honum og fjöldi annars fólks. [ En er hann nálgaðist borgarhliðið, sjá, að framliðinn maður var borinn út, einkasonur sinnar móður, og hún var ekkja. Og mikill borgarmúgur gekk út með henni. Og er Drottinn leit hana hrærðist hann miskunnar og sagði til hennar: „Æptu eigi.“ Og hann gekk þar að og áhrærði börurnar en þeir eð báru stóðu við. Hann sagði: „Ungmenni, eg segi þér: Rís upp.“ Og sá reistist upp við er framliðinn var og tók að mæla. Og hann fékk hann aftur sinni móður. En yfir alla þá kom ótti, lofuðu Guð og sögðu: „Spámaður mikill er á meðal vor upp risinn og Guð hefur vitjað síns lýðs.“ Og þessi saga barst út af honum um allt Judeam og um öll nálæg héröð.

Og allt þetta kunngjörðu Johanni hans lærisveinar. [ Og Jóhannes kallaði tvo af sínum lærisveinum til sín og sendi þá til Jesú og lét segja honum: [ „Ertu sá eð koma mun eða eigu vær annars að bíða?“ En er þeir menn komu til hans sögðu þeir: [ „Jóhannes baptista sendi okkur til þín og lét segja þér: Ert þú sá er koma mun eða eigu vær annars að bíða?“ En á þeirri stundu læknaði hann marga af sóttum sínum og meinum og af óhreinum aundum og mörgum blindum gaf hann sýn. Og Jesús svaraði og sagði til þeirra: „Gangið og kunngjörið Johanni hvað þér hafið heyrt og séð, það blindir sjá, haltir ganga, líkþráir hreinsast, daufir fá heyrn, dauðir rísa upp, fátækum boðast evangelium og sæll er sá sem eigi skammfyllir sig á mér.“

En er sendiboðar Johannis voru burtgengnir hóf Jesús að segja til fólksins af Johanne: [ „Hvar til fóru þér út í eyðimörkina? Eða fóru þér að sjá reyrvönd af vindi skekinn? Eða vildu þér heldur út fara að sjá mann í mjúkum klæðum prýddan? Sjáið, að þeir sem dýrmæt klæði bera og af fýsn lifa eru í konungsgörðum. Eða hvað fóru þér að sjá? Vildu þér sjá spámann? En eg kann yður að segja: Framar en spámann. Þessi er sá af hverjum skrifað er: [ Sjá, eg sendi minn engil fyrir þínu augliti, sá er tilreiða skal veginn fyrir þér. Því að eg segi yður að á meðal þeirra sem að konu eru fæddir er enginn spámanna meiri en Jóhannes baptista en sá minni er í Guðs ríki er honum meiri.“

Og allt það fólkið er tilheyrði og líka tollheimtumenn réttlættu Guð og létu sig skíra með skírn Johanis en Pharisei og lögspekingar forsmáðu Guðs ráð í stríð við sjálfa sig og létu eigi skírast af honum. [

En Drottinn sagði: „Við hvað skal eg jafna mönnum þessarar kynslóðar? Hverju eru þeir líkir? Börnum þeim eru þeir líkir sem sitja á torgi og klakar hver til annars og segja: vær pípuðum fyrir yður og þér dönsuðuð eigi, vær sungum fyrir yður vor harmakvæði og þér æptuð eigi. Því að Jóhannes baptista er kominn, át eigi brauð né drakk vín, þó segi þér hann hafi djöful. Mannsins son er og kominn, át og drakk og þér segið: Sjáið etarann og víndrykkjumanninn, vininn tollheimtumanna og bersyndugra. Og spekin hlýtur so að réttlætast af sínum sonum öllum.“

En nokkur af Pharisei bað hann að hann æti með honum. [ Og hann gekk inn í farísearans hús og settist til borðs. Og sjá, að kona var sú í borginni að bersyndug var. Og er hún vissi að Jesús sat til borðs í farísearans húsi hafði hún þangað smyrslabuðk og fór á baki honum til fóta hans og tók að væta hans fætur með tárum og að þurrka meður lokkum síns höfuðs, kyssti á hans fætur og reið á smyrslum.

En þá sá phariseus sá það sem honum bauð inn mælti hann með sér og sagði: „Ef að þessi væri spámaður þá vissi hann hvör og hvílík væri sú kona er á honum tekur því að hún er ein bersyndug kona.“ Jesús svaraði og sagði til hans: „Símon, eg hefi nokkuð þér að segja.“ En hann sagði: „Seg þú, meistari.“ „Tveir skuldamenn voru nokkurs akurkallar. Einn var honum skyldugur fimm hundruð peninga en annar fimmtígi. Og er þeir höfðu eigi að gjalda gaf hann þeim til báðum. Því seg nú, hvor þeirra er hann elskar meir.“ Símon svaraði og sagði: „Eg meina að sá sem hann gaf meira til.“ En hann sagði til hans: „Það úrskurðar þú rétt.“

Og hann sneri sér til konunnar og sagði til Símonar: „Sér þú þessa konu? Eg gekk inn í þitt hús og þú gafst eigi vatn mínum fótum. En þessi vætti mína fætur með tárum og þurrkaði með sínum höfuðlokkum. Koss gafstu mér öngvan en þessi síðan hún gekk hér inn hefir hún eigi linnt að kyssa mínar fætur. Mitt höfuð smurðir þú eigi viðsmjöri en þessi reið á mínar fætur smyrslum. Fyrir það segi eg þér að henni fyrirgefast margar syndir því að hún elskaði mikið. En þeim sem minna fyrirgefst hann elskar miður.“

Og hann sagði til hennar: „Þér eru þínar syndir fyrirgefnar.“ Og þeir tóku að segja sem við borðið sátu með sjálfum sér: „Hver er þessi sá er einnin fyrirgefur syndir?“ En hann sagði til konunnar: [ „Þín trúa gjörði þig hólpna. Far í friði.“