XVII.

Og Akítófel sagði til Absalom: [ „Eg vil útvelja tólf þúsund manna og taka mig upp og fara eftir Davíð á þessari nóttu og eg vil yfirfalla hann af því hann er mæddur og lúinn. Eg vil skelfa hann so að allt fólkið sem er hjá honum flýi frá honum. Þá vil eg slá kónginn þegar hann er einn eftir en leiða allt fólkið aftur til þín. Og þá hver einn og einn maður er kominn til þín eftir því sem þú vilt þá verður allt fólkið með friði.“ Þetta ráð þóknaðist vel Absalom og öllum þeim elstu í Ísrael.

Og Absalom sagði: „Kallið Húsaí þann Arachiter og heyrum vér hvað hann segir hér til.“ Og sem Húsaí kom fyrir Absalom þá sagði Absalom til hans: „Svoddan hefur Akítófel talað. Seg þú fram, skulum vér þetta gjöra eða ekki?“

Þá sagði Húsaí til Absalom: „Eigi er þetta gott ráð sem Akítófel hefur útgefið að þessu sinni.“ Og Húsaí sagði framar meir: „Þú þekkir þinn föður vel og so hans menn að þeir eru sterkir og með beiskum hug so sem ein birna í skógi þá hún er rænd sínum húnum. So og veist þú að þinn faðir er hinn mesti kappi og forsómar sig ekki með sínu fólki. Sjá, ske má að hann hafi falist í einhverju hreysi eða fengið sér nokkurn samastað. Og ef so sker að þetta tekst illa með fyrsta þá mun þegar hver öðrum segja: Það skeði eitt slag á meðal þess fólks sem Absalom eftirfylgdi, og mun þá þegar felmtra hverjum manni þó áður sé fullhugaður og hafi hjarta sem león. Því veit allt Ísraelsfólk að þinn faðir er sterkur og hinir hraustustu hermenn þeir sem með honum eru.

En það ráðlegg eg að þú safnir að þér öllum Ísrael frá Dan og allt til Berseba, svo marga sem sandur á sjávarströndu, og að þú farir sjálfur fyrir þeim. Svo viljum vér falla yfir hann hvar sem vér finnum hann og vér viljum koma yfir hann svo sem þá dögg fellur á jörðu svo vér látum ekki einn lifa eftir af þeim öllum mönnum sem með honum eru. [ En ef hann flýr í nokkra borg þá skal allur Ísraelsmúgur bera reip um þá borg og draga hana í díki svo þar skal ekki finnast einn steinn eftir.“ Þá svaraði Absalom og hver maður í Ísrael: „Ráð Húsaí Arachiter er betra en Akítófels ráð.“ En Drottinn lét það svo ske að Akítófels ráð þau inu góðu urðu hindruð so að Drottinn léti koma ólukku yfir Absalom.

Og Húsaí mælti til Sadók og Abjatar kennimanna og sagði þeim: „Svo og so ráðlagði Akítófel Absalom og þeir inu elstu af Ísrael en eg hefi so og svo ráðlagt. Þar fyrir sendið nú sem skjótast af stað og látið Davíð vita af þessu og látið so segja honum: Vert þú ekki á þessari nóttu á völlum eyðimerkur heldur far þú yfir um so að kóngurinn skuli ekki uppsvelgjast og so allt fólkið sem er hjá honum.“ Jónatan og Akímas stóðu hjá þeim brunni Rógel. [ Og ein ambátt gekk þangað og sagði þeim þetta. En þeir jafnsnart fóru og kunngjörðu þetta Davíð því þeir þorðu ekki að láta sjá sig að þeir væri í borginni.

En það skeði að einn smásveinn sá þá og hann undirvísaði það Absalom. En þeir gengu báðir sem skjótast í burt og komu í eins manns hús í Bahúrím. Hann hafði einn brunn í sínum garði og þar stigu þeir ofan í hann. En ein kvinna tók klæði og breiddi það yfir munnann á brunninum og dreifði grjónum þar yfir svo ei skyldi merkja. En sem Absalons menn komu til kvinnunnar í húsið þá spurðu þeir: „Hvar er Akímas og Jónatan?“ Kvinnan sagði til þeirra: „Þeir gengu héðan og yfir um vaðið á vatninu.“ En þá þeir höfðu leitað og ekki fundið þá fóru þeir aftur til Jerúsalem.

En að þeim burtgengnum þá stigu þeir upp af brunninum, gengu í burt og kunngjörðu þetta Davíð kóngi og sögðu til Davíðs: „takið yður upp án allri dvöl og farið yfir um vatnið. Því Akítófel hefur svo og svo gefið út ráð um yður.“ Þá reis Davíð upp og allt það fólk sem var hjá honum og gengu yfir Jórdan áður lýsti af degi og gengu allir yfir um Jórdan so þar varð ekki einn eftir.

En sem Akítófel sá það að hans ráð höfðu öngvan framgang þá söðlaði hann sinn asna og bjó sig og fór heim í sinn stað og skipaði til allra hluta í sínu húsi og hengdi sig sjálfur til dauða og var jarðaður í síns föðurs gröf. [

Davíð kom til Mahanaím og Absalom dró yfir Jórdan og allir Ísraelsmenn með honum. Absalom hafði sett Amasa í stað Jóab yfir herinn. En Amasa var þess manns son sem hét Jetra, einn Ísraelíti sem lá með Abigail dóttur Nahas, systir Serúja, sem var móðir Jóab. Og Ísraelslýður og Absalom settu sínar herbúðir í Gíleað.

Og sem Davíð var kominn í Mahanaím þá færði Sóbí son Nahas af sonum Ammón af Rabbat og Makír son Ammíel af Lódabar og Barsillaí Giliaditer af Róglím, (þeir færðu) sængarklæði, munnlaugar, leirpotta, hveiti, bygg, mjöl, steikt ax, baunir, ertur, grjón, hunang, smjör, naut og sauði og osta til Davíðs og til þess fólks sem með honum var, honum og því til fæðslu. [ Því þeir hugsuðu að fólkið mundi líða hungurmæðu og þosta í eyðimörku.