Þá minntist Guð á Nóa og á öll dýr og á öll þau kvikindi sem voru með honum í örkinni. Og hann lét vind koma á jörðina og vötnin minnkuðu. Og uppsprettur undirdjúpanna luktust aftur, sömuleiðis [ himnaraufarnar, og regninu af himnum var hamlað. Og vatnið minnkaði á jörðunni meir og meir og þverraði eftir hundrað og fimmtígir daga.

Á þeim seytjánda degi þess sjöunda mánaðar nam örkin staðar á fjallinu [ Ararat. Og vatnið minnkaði og þverraði allt til hins tíunda mánaðar. Á fyrsta degi hins tíunda mánaðar skaut upp þeim hæstu fjallatindum.

Og fjörutígir dögum þar eftir lauk Nói upp glugganum á örkinni sem hann hafði gjört og lét einn hrafn útfljúga og hann fló í sífellu aftur og fram þar til að vatnið minnkaði af jörðunni. [ Eftir það lét hann eina dúfu útfljúga frá sér til að vita hvert vatnið minnkaði ekki á jörðunni. [ Og sem dúfan fann ekki so nokkurn þurran stað að hún mætti hvíla sinn fót uppá kom hún til hans aftur í örkina, því að vatnið var þá enn yfir allri jörðunni. So útrétti hann sína hönd og tók hana til sín inn aftur í örkina.

Og hann beið þá enn í aðra sjö daga og að þeim liðnum lét hann dúfuna fljúga í annað sinn af örkinni. Og hún kom aftur til hans að kveldi. Og sjáðu: Hún hafði í munni sér einn kvist af [ viðsmjörstré, grænan og laufivaxinn. Þá skildi Nói að vatnið var þverrað á jörðinni. En hann beið þá enn aðra sjö daga og lét þá enn dúfuna útfljúga og kom hún þá ekki til hans aftur.

Og þá Nói var sexhundruð ára gamall og eins árs betur, á þann fyrsta dag hins fyrsta mánaðar burt þornaði vatnið á jörðinni. Og þá tók Nói yfirrjáfrið af örkinni, leit út og sá að jörðin var orðin þurr. Og so var jörðin öllungis þurr á þeim sjöunda og tuttugasta degi í þeim öðrum mánuði.

Þá talaði Guð með Nóa og sagði: „Far þú út af örkinni, þú og þín kvinna, þínir synir og þínar sonarkonur með þér. Allsháttuð kvikindi sem eru hjá þér af öllu holdi, af fuglum og fénaði og af allra handa skriðkvikindum jarðarinnar skulu fara út með þér, og hrærið yður á jörðunni, vaxið og margfaldist á jörðunni.“ Svo gekk Nói út með sínum sonum og með sinni kvinnu og með sínum sonar konum, so og allra handa dýr og allra handa skriðkvikindi, allra handa fuglar og allt það sem á jörðinni hrærist, það gekk út af örkinni, hvert til síns líka.

Og Nói byggði Drottni eitt altari og tók af allsháttuðum hreinum kvikindum og af allra handa hreinum fuglum og offraði brennioffur á altarið. [ Og Drottinn lyktaði þann sætleiks ilm og sagði í sínu hjarta:

„Eg vil nú ekki hér eftir bölva jörðunni fyrir mannsins skuld því að [ hugskot mannlegs hjarta er illt í frá ungdómi. Og hér eftir vil eg ekki meir slá allt það sem lifir so sem eg hefi nú gjört. Og so lengi sem jörðin stendur þá skal ekki þrjóta sáð og kornskurð, frost og hita, sumar og vetur, dag og nótt.“