Og Drottinn talaði öll þessi orð: „Ég er Drottinn þinn Guð sem útleiddi þig af Egyptalandi, út af því þrældóms húsi. [ Þú skalt ekki hafa annarlega guði fyrir mér. Þú skalt engin bílæti gjöra þér eður nokkra líking eftir því sem er á himnum uppi eða á jörðu niðri eða því sem er í vötnunum undir jörðunni. Þú skalt ekki tilbiðja þau og eigi þjóna þeim, því ég er Drottinn þinn Guð, eirn vandlætandi Guð, vitjandi ranglætis feðranna á sonunum í þriðju og fjórðu ættkvísl þeirra sem mig hata, en gjörandi miskunnsemdir í þúsund liðu þeim sem mig elska og mín boðorð varðveita.

Þú skalt ekki leggja Drottins þíns Guðs nafn við hégóma, því ekki mun Drottinn óhegndan vera láta þann sem misbrúkar hans nafn.

Minnst þú á sabbatsdaginn að þú helgir hann. Sex daga skaltu erfiða og vinna alla þína vinnu, en sá sjöundi dagur er Drottins þíns Guðs sabbatsdagur. Þá skalt þú ekkert verk vinna, hvorki þinn sonur, eigi heldur þín dóttir, eigi þinn þræll, eigi þín ambátt, eigi þitt kvikfé, eigi heldur nokkur útlenskur sem er innan þinna borgarhliða. Því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð og sjóinn og allt það sem þar inni er og hann hvíldist þann sjöunda dag. Þar fyrir blessaði Drottinn sabbatsdaginn og helgaði hann.

Þú skalt heiðra þinn föður og þína móður svo að þú langlífur verðir í því landi sem Drottinn Guð þinn gefur þér.

Þú skalt ekki í hel slá.[

Þú skalt ekki hórdóm drýgja.

Þú skalt ekki stela.

Þú skalt ekki bera falskan vitnisburð móti þínum náunga.

Þú skalt ekki girnast þíns náunga hús.

Þú skalt ekki girnast þíns náunga kvinnu, eigi hans þræl, eigi hans ambátt, eigi uxa eður asna eða nokkuð það sem hann á.“

Og allt fólkið sá reiðarþrumur og eldingarnar og hljóð lúðursins og fjallið rjúkanda. [ Og sem þeir sáu þetta þá flýðu þeir og stóðu langt í burtu og sögðu til Mósen: „Tala þú við oss, vér viljum vera þér hlýðugir og lát Guð ekki tala við oss so að vér deyjum ekki.“ Móses sagði til fólksins: „Óttist ekki, því Guð er kominn til þess að hann vill reyna yður og að hans ótti sé fyrir yðrum augum so þér syndgist ekki.“ Og fólkið stóð langt í burtu frá. En Móses gekk til þokunnar í hverri Guð var.

Og Drottinn sagði til hans: „So skaltu segja til Ísraelssona: Þér hafið séð að ég hefi talað við yður af himnum. Þar fyrir skulu þér öngva guði af silfri eður gulli gjöra yður fyrir mér. Þú skalt gjöra mér eitt altari af jörðu og þar uppá skaltu offra þinni brennifórn og þakklætisfórn af þínum nautum og sauðum. [ Því í hverjum stað ég skikka að vera skuli minning míns nafns, þangað vil ég koma til þín og blessa þig. Viljir þú gjöra mér altari af steini þá skaltu ekki byggja það af höggnum steini. [ Því látir þú kníf koma yfir það þá saurgar þú það. Þú skalt ekki ganga upp að tröppum til míns altaris so að þinn ljótleiki opinberist þar ekki.