XXV.

Sálmur Davíðs

Til þín, Drottinn, forlengir mig.

Minn Guð, á þig treysti eg, lát mig ekki til skammar verða so að óvinir mínir gleðji sig ekki yfir mér.

Því að enginn verður sá til skammar sem þín bíður en til skammar hljóta að verða þeir hinir [ fánýtu forsmánarar.

Drottinn, vísa þú mér þína vegu og lær mig þína forstigu.

Leið þú mig í þínum sannleika og lær mig því að þú ert Guð, minn frelsari, daglegana vona eg á þig.

Minnstu, Drottinn, þinna miskunnsemda og þinnar gæsku sem verið hefur frá upphafi veraldar.

Minnst þú ekki á syndir minnar æsku og á mínar misgjörðir heldur minnst þú mín eftir miskunnsemi þinni og fyrir þinnar góðgirndar sakir.

Drottinn er góður og réttferðugur, þar fyrir leiðréttir hann hina syndugu á veginum.

Hann leiðir hina fáráðu rétt og lærir þá voluðu sína vegu.

Vegir Drottins eru ekki utan miskunnsemd og sannleikur þeim eð hans sáttmála og vitnisburði geyma.

Fyrir þíns nafns sakir, Drottinn, vert líknsamur synd minni því að hún er mikil.

Hver er sá hann óttast Drottin? Þeim hinum sama mun hann vísa þann besta veg.

Sála hans mun hvílast í góðu og hans sæði mun landið erfa.

Leyndir dómar Drottins eru meðal þeirra sem hann óttast og sinn sáttmála lætur hann þá vita.

Mín augu líta jafnan til Drottins því hann mun mína fætur útleysa af snörunni.

Snú þér til mín og vert mér miskunnsamur því að eg em einmana og fáráður.

Kvöl míns hjarta er mikil, leið þú mig burt úr mínum nauðum.

Líttu á mína eymd og armæðu og fyrirgef þú mér allar mínar syndir.

Lít þú á það að mínir óvinir eru svo margir og þeir hata mig út af rangri illgirni.

Varðveit þú mína sálu og frels mig, lát mig ekki til skammar verða því að eg treysti á þig.

Sakleysið og réttvísin varðveiti mig því að þín bíð eg.

Guð, frelsa þú Ísrael af öllum sínum mótgangi.