Og Drottinn vitjaði Saru sem hann hafði lofað og fullkomnaði það hann hafði til hennar sagt. [ Og Sara varð ólétt og fæddi Abraham einn son í elli sinni, í þeim sama tíma sem Guð hafði sagt henni. Og Abraham kallaði sinn son þann honum var fæddur Ísak, hvern eð Sara fæddi honum. Og hann umskar hann á áttunda degi so sem Guð hafði boðið honum. Abraham var hundrað ára gamall þá hans son Ísak var honum fæddur. [

Þá sagði Sara: „Guð hefur gjört mér einn hlátur, því að hver þetta heyrir hann mun hlæja með mér.“ Og hún sagði: „Hver mundi hafa þorað að segja Abraham að Sara hefði barn á brjósti og hefði fætt honum einn son í sinni elli?“ Og barnið óx upp og varð afvanið. En Abraham gjörði eitt mikið gestaboð þann dag þá Ísak var afvaninn.

Og þá Sara sá son Agar hinnar egypsku hvern hún hafði fætt Abraham að hann var einn spottari þá mælti hún til Abrahams: „Rek þessa ambátt á burt og hennar son, því ei skal þessi ambáttarsonur arf taka með mínum syni Ísak.“ [ Þetta orð misþóknaðist Abraham mjög sökum síns sonar. En Guð sagði til hans: „Lát þér ekki mislíka vegna sveinsins og ambáttarinnar, heldur gjör þú allt það sem Sara sagði þér. Því að í Ísak skal þér nefnast það sæði. [ Eg vil og gjöra ambáttarinnar son að þjóð því að hann er þitt sæði.“

Þá stóð Abraham upp árla morguns og tók brauð og einn legil með vatn og lagði hann á herðar Agar og so barnið með og lét hana fara. Hún fór burt og villtist á eyðimörkinni hjá Ber-Saba. Og sem þau höfðu útdrukkið vatnið af leglinum þá setti hún barnið niður undir eina eik, gekk í burtu og settist niður þar gagnvart so sem eitt aurskot þar frá, því hún sagði: „Eigi get eg séð uppá að barnið deyr.“ Og hún settist niður gagnvart barninu og upphóf sína raust og grét.

Þá bænheyrði Guð sveinsins grát. Og Guðs engill kallaði af himni til Agar og sagði til hennar: „Hvað er þér Agar? Hræðst þú ekki, því Guð bænheyrði sveinsins grát þar sem hann liggur. Satt upp, tak sveininn og leið hann þér við hönd því eg vil gjöra hann að mikilli þjóð.“ Og Guð upplauk hennar augum og hún sá einn brunn. Hún gekk þangað að og fyllti sinn legil með vatn og gaf sveininum að drekka. Og Guð var með honum. Hann óx upp og bjó í eyðimörku og varð einn góður skotmaður og bjó í þeirri eyðimörku Paran. Og hans móðir tók honum til handa eina eiginkvinnu af Egyptalandi.

Á þeim tíma talaði Abímelek og Píkól hans hershöfðingi til Abrahams og sagði: „Guð er með þér í öllum þínum gjörningum. Því vil eg þú vinnir mér eið við Guð að þú viljir ekki gjöra mér, mínum börnum eða mínum barnabörnum nokkurt grand, heldur að þú viljir veita miskunnsemi mér og mínu landi í hverju þú ert einn útlendingur, líka sem eg veitta þér.“ [ Þá svaraði Abraham: „Eg vil sverja.“

Og Abraham ávítaði Abímelek fyrir þann vatsbrunn sem Abímeleks þénarar höfðu tekið með ofríki. Þá svaraði Abímelek: „Eigi var mér vitanlegt hver það gjörði, eigi hefur þú heldur sagt mér það, ekki hefi eg heldur heyrt það fyrr en í dag.“

Þá tók Abraham naut og sauði og gaf Abímelek. Og þeir gjörðu eitt samband með sér. Og Abraham tók sjö lömb og lét þau afsíðis. Þá mælti Abímelek til Abrahams: „Hvað skulu þau sjö lömb sem þú lætur þar afsíðis?“ Hann svaraði: „Þú skalt nú taka sjö lömb af minni hendi og þau skulu vera mér til vitnis að eg hefi grafið þennan brunn.“ Þar fyrir kallast þessi sami staður [ Ber-Saba því að þeir sóru þar báðir eiða. Og þeir gjörðu so þar báðir samband í Ber-Saba.

Þá tók Abímelek sig upp og Píkól hans hershöfðingi og sneru aftur í land þeirra Filisteis. En Abraham plantaði einn lund í Ber-Saba og prédikaði þar út af nafni Drottins þess eilífa Guðs. Og hann var útlendingur í landi Philistinorum í langa tíma.