Síðustu orð Davíðs

1 Síðustu orð Davíðs hljóða svo:
Svo segir Davíð, sonur Ísaí,
þannig mælir maðurinn sem hátt var settur,
hinn smurði Guðs Jakobs
sem lofaður var í ljóðum Ísraels:
2Andi Drottins talaði af munni mínum,
orð hans var mér á tungu.
3Guð Ísraels talaði,
klettur Ísraels sagði við mig:
„Sá sem ríkir í réttlæti,
sá sem ríkir með lotningu fyrir Drottni,
4hann er eins og dagsbirtan
þegar sólin rís á heiðum morgni,
þegar grængresið sprettur eftir regnskúr.“
5Er ekki ætt mín studd af Guði?
Því að hann hefur gert við mig ævarandi sáttmála
þar sem allt er í föstum skorðum.
Já, allt sem var mér til heilla,
allt sem ég óskaði,
lét hann dafna.
6En illmennin eru öll eins og þyrnar
sem kastað er út
því að enginn tekur á þeim með hendinni.
7Ef einhver ætlar að snerta þau
vopnast hann sverði og spjóti,
þau verða brennd í eldi.

Hetjur Davíðs

8 Þetta eru nöfnin á hetjum Davíðs: Ísbaal Hakmóníti var foringi hinna þriggja. Það var hann sem sveiflaði spjóti sínu og felldi átta hundruð menn í einu. 9 Næstur honum á meðal hinna þriggja hetja var Eleasar, sonur Dódó frá Akía. Hann var með Davíð í Pas Dammím þegar Filistear söfnuðust þar saman til bardaga. Þegar Ísraelsmenn 10 hörfuðu stóð hann fastur fyrir og hjó Filisteana niður þar til hann þreyttist í hendinni og hönd hans var kreppt föst um sverðið. Þann dag veitti Drottinn mikinn sigur. Herinn sneri aftur með honum, þó aðeins til að taka herfang.
11 Næstur honum var Samma Hararíti, sonur Age. Einhverju sinni höfðu Filistear safnast saman við Lekí. Þar var akurspilda alsprottin linsubaunum. Þegar herinn flýði fyrir Filisteum 12 nam hann staðar á miðjum akrinum og varði hann og hjó Filisteana niður. Þannig veitti Drottinn mikinn sigur.
13 Einu sinni fóru þrír af hinum þrjátíu í byrjun uppskerunnar niður eftir til Davíðs í Adúllamhelli. Flokkur Filistea var þá í herbúðum í Refaímdal, 14 Davíð í fjallavirkinu en framvarðarsveit Filistea í Betlehem. 15 Þá varð Davíð mjög þyrstur og spurði: „Hver vill sækja mér vatn úr brunninum við borgarhliðið í Betlehem?“ 16 Þá brutust kapparnir þrír inn í herbúðir Filistea og sóttu vatn í brunninn við borgarhliðið í Betlehem. Þeir tóku það með sér og færðu Davíð en hann vildi ekki drekka heldur dreypti því í dreypifórn handa Drottni 17 og sagði: „Drottinn, það sé fjarri mér að gera slíkt. Á ég að drekka blóð þessara manna sem hættu lífi sínu til að sækja það?“ Þess vegna vildi hann ekki drekka það. Þetta afrek unnu kapparnir þrír.
18 Abísaí Serújuson, bróðir Jóabs, var foringi hinna þrjátíu. Hann sveiflaði spjóti sínu og felldi þrjú hundruð menn. Hann var virtur af hinum þremur köppum. 19 Hann var mikils metinn af þeim þrjátíu og varð foringi þeirra en hann jafnaðist ekki á við hina þrjá. 20 Benaja Jójadason frá Kabseel var hraustur maður sem vann mörg afreksverk. Hann drap báða syni Aríels frá Móab. Eitt sinn, þegar snjóað hafði, fór hann niður í gryfju og drap þar ljón. 21 Hann drap einnig risavaxinn Egypta. Egyptinn hafði spjót í hendi en Benaja fór á móti honum með staf, reif spjótið úr hendi Egyptans og drap hann með hans eigin spjóti. 22 Þessi afrek vann Benaja Jójadason og var virtur af köppunum þremur. 23 Hann var mikils metinn af þeim þrjátíu en hann jafnaðist ekki á við hetjurnar þrjár. Davíð setti hann yfir lífvörð sinn.
24 Asael, bróðir Jóabs, var einn hinna þrjátíu,
enn fremur Elkanan, sonur Dódós frá Betlehem,
25 Samma frá Haród,
Elíka frá Haród,
26 Heles frá Pelet,
Íra, sonur Íkkess frá Tekóa,
27 Abíeser frá Anatót,
Mebúnaí frá Húsa,
28 Salmón frá Ahó,
Maharaí frá Netófa,
29 Heled frá Netófa, sonur Baana,
Íttaí Ríbaíson frá Gíbeu í Benjamín,
30 Benaja frá Píraton,
Híddaí frá Nahale-Gaas,
31 Abi Albon frá Bet Araba,
Asmavet frá Bahúrím,
32 Eljahba frá Saalbón,
Jasen frá Nún,[
33 Jónatan, sonur Samma frá Harar,
Ahíam, sonur Sarars frá Arar,
34 Elífelet, sonur Ahasbaí frá Maaka,
Elíam, sonur Akítófels frá Gíló,
35 Hesró frá Karmel,
Paaraí frá Arak,
36 Jígal, sonur Natans frá Sóba,
Baní frá Gað,
37 Selek frá Ammón,
Naharaí frá Beerót, hann var skjaldsveinn Jóabs, sonar Serúju,
38 Íra frá Jattír,
Gareb frá Jattír,
39 Úría Hetíti.
Þeir voru alls þrjátíu og sjö.