Manna og lynghænur

1 Því næst lögðu þeir af stað frá Elím. Allur söfnuður Ísraelsmanna kom inn í Síneyðimörkina, sem er milli Elím og Sínaí, á fimmtánda degi annars mánaðarins eftir brottför þeirra úr Egyptalandi. 2 Þá möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna gegn Móse og Aroni í eyðimörkinni 3 og sagði við þá: „Betra væri okkur að við hefðum fallið fyrir hendi Drottins í Egyptalandi þegar við sátum við kjötkatlana, þegar við átum okkur södd af brauði. En þið hafið leitt okkur út í þessa eyðimörk til þess að láta allan þennan söfnuð farast úr hungri.“
4 Þá sagði Drottinn við Móse: „Nú ætla ég að láta brauði rigna af himni handa ykkur. Fólkið á að ganga út og safna saman dag hvern því sem það þarf fyrir daginn. Þannig get ég reynt það og séð hvort það fylgir lögum mínum eða ekki. 5 En þegar þeir mæla það sem þeir koma með heim á sjötta degi verður það helmingi meira en það sem þeir safna hina dagana.“
6 Þá sögðu Móse og Aron við alla Ísraelsmenn: „Í kvöld munuð þið skilja að það var Drottinn sem leiddi ykkur út úr Egyptalandi 7 og á morgun fáið þið að sjá dýrð Drottins af því að hann hefur hlustað á mögl ykkar gegn Drottni. En hverjir erum við úr því að þið möglið gegn okkur?“ 8 Og Móse hélt áfram: „Þegar Drottinn gefur ykkur kjöt að eta í kvöld og brauð að seðja ykkur á að morgni er það af því að Drottinn hefur hlustað á mögl ykkar gegn honum. Hverjir erum við? Þið möglið ekki gegn okkur heldur Drottni.“
9 Þá sagði Móse við Aron: „Segðu við allan söfnuð Ísraelsmanna: Gangið fram fyrir auglit Drottins því að hann hefur hlustað á mögl ykkar.“ 10 Á meðan Aron talaði til alls safnaðar Ísraelsmanna sneru þeir sér í áttina að eyðimörkinni. Þá birtist þeim skyndilega dýrð Drottins í skýi. 11 Drottinn ávarpaði Móse og sagði: 12 „Ég hef heyrt mögl Ísraelsmanna. Talaðu til þeirra og segðu: Ísraelsmenn, áður en dimmt er orðið munuð þið fá kjöt til matar og á morgun seðjist þið af brauði. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn, Guð ykkar.“
13 Um kvöldið komu lynghænsn og þöktu búðirnar en morguninn eftir hafði dögg fallið umhverfis búðirnar. 14 Þegar döggin þornaði lá eitthvað fínkornótt yfir eyðimörkinni líkt og héla. 15 Þegar Ísraelsmenn sáu það spurðu þeir hver annan: „Hvað er þetta?“ því að þeir vissu ekki hvað það var. Þá sagði Móse við þá: „Þetta er brauð sem Drottinn hefur gefið ykkur til matar. 16 Fyrirmælin, sem Drottinn hefur gefið, eru þessi: Safnið því sem hver þarf til matar, einum gómer á mann og skal hver um sig safna í samræmi við þann fjölda sem býr í tjaldi hans.“ 17 Þetta gerðu Ísraelsmenn og söfnuðu sumir miklu en aðrir litlu. 18 Þegar þeir mældu það í gómermáli gekk ekkert af hjá þeim sem miklu safnaði og þann sem litlu safnaði skorti ekkert. Sérhver hafði safnað því sem hann þurfti til matar. 19 Þá sagði Móse við þá: „Enginn má leifa neinu til morguns.“ 20 Þeir hlustuðu ekki á Móse og nokkrir leifðu dálitlu til næsta morguns. En það maðkaði og fúlnaði og Móse reiddist þeim.
21 Þeir söfnuðu morgun eftir morgun því sem hver þurfti til matar en það bráðnaði þegar sólskinið varð sem heitast.
22 Sjötta daginn söfnuðu þeir helmingi meira en hina dagana, tveimur gómerum á mann. Þegar allir leiðtogar fólksins komu og tjáðu Móse það 23 sagði hann við þá: „Þetta er það sem Drottinn sagði: Á morgun er hvíld, heilagur hvíldardagur fyrir Drottin. Bakið það sem þið þurfið að baka og sjóðið það sem þið þurfið að sjóða. En allt sem eftir verður skuluð þið leggja til hliðar og geyma til næsta morguns.“ 24 Þeir lögðu það til hliðar til næsta morguns eins og Móse hafði skipað og það fúlnaði hvorki né skriðu í það maðkar. 25 Þá sagði Móse: „Etið það í dag því að í dag er hvíldardagur fyrir Drottin. Í dag finnið þið þetta ekki úti á víðavangi. 26 Í sex daga skuluð þið safna því saman en sjöunda daginn er hvíldardagur, þá finnið þið ekkert.“
27 Sjöunda daginn gengu samt nokkrir út til að safna en fundu ekkert.
28 Drottinn sagði við Móse: „Hve lengi ætlið þið að neita að halda fyrirmæli mín og lög? 29 Reynið að skilja að Drottinn hefur gefið ykkur hvíldardaginn og þess vegna gefur hann ykkur brauð til tveggja daga sjötta daginn. Haldið kyrru fyrir, hver á sínum stað. Enginn má fara að heiman sjöunda daginn.“ 30 Þannig hélt fólkið hvíldardaginn sjöunda daginn.
31 Ísraelsmenn nefndu þetta manna. Það var hvítt eins og kóríanderfræ og eins og hunangskaka á bragðið.
32 Móse sagði: „Þetta er það sem Drottinn hefur boðið: Fullt gómermál af þessu skal varðveitt fyrir komandi kynslóðir svo að þær geti séð brauðið sem ég gaf ykkur að eta í eyðimörkinni þegar ég leiddi ykkur út úr Egyptalandi.“ 33 Síðan sagði Móse við Aron: „Taktu krukku, fylltu hana með einum gómer af manna og settu hana fyrir auglit Drottins. Hún skal varðveitt fyrir komandi kynslóðir.“ 34 Aron setti krukkuna fyrir framan sáttmálstáknið [ til varðveislu, eins og Drottinn hafði boðið Móse.
35 Ísraelsmenn átu manna í fjörutíu ár, þar til þeir komu í byggt land. Þeir átu manna þar til þeir komu að landamærum Kanaanslands.
36 Einn gómer er tíundi hluti úr efu.