1Ég gerði þann sáttmála við augu mín
að líta mey ekki girndarauga.
2Hvaða hlutskipti kom að ofan, frá Guði,
erfðahluti frá Hinum almáttka frá upphæðum?
3Er það ekki glötun hins rangláta
og ófarnaður illvirkja?
4Sér hann ekki vegferð mína
og telur hann ekki öll mín spor?
5Hafi ég farið með tál
og fótur minn hraðað sér til svika,
6þá setji Guð mig á rétta vog
og hann mun viðurkenna sakleysi mitt.
7Hafi spor mín vikið af vegi,
hjarta mitt hlýtt því sem augun sáu
svo að hendur mínar flekkuðust,
8þá neyti annar þess sem ég sáði til
og það sem óx handa mér skal upprætt.
9Hafi hjarta mitt látið tælast af annars manns konu
og hafi ég legið á hleri við dyr náunga míns,
10skal kona mín mala fyrir annan
og aðrir menn leggjast með henni
11því að það væri skömm
og refsivert brot,
12það væri eldur sem gleypti allt niður að rótum
og upprætti allar eigur mínar.
13Hafi ég vanvirt rétt þræls míns og ambáttar
þegar þau deildu við mig,
14hvað gæti ég þá gert ef Guð risi upp
og yfirheyrði mig, hverju mundi ég svara?
15Var það ekki skapari minn sem skapaði þrælinn í móðurlífi,
var það ekki sá sami sem mótaði okkur í móðurkviði?
16Hafi ég synjað bón þurfandi manns
og gert augu ekkjunnar döpur,
17hafi ég borðað bitann minn einn
án þess að deila honum með munaðarleysingjanum,
18nei, frá barnæsku hef ég verið honum sem faðir
og stutt ekkjuna allt frá móðurlífi,
19hafi ég séð klæðlausan mann að dauða kominn
og snauðan mann án ábreiðu,
20hafi lendar hans ekki blessað mig
og ullin af lömbum mínum ekki haldið á honum hita,
21hafi ég slegið hendi til munaðarleysingja
þegar ég sá að ég hafði stuðning í borgarhliðinu,
22 þá losni herðablöð mín frá öxlunum
og armur minn brotni í liðnum.
23 Já, tortíming frá Guði var skelfing
og fyrir hátign hans megna ég ekkert.
24 Hafi ég sett von mína á gull
og sagt að skíragull væri stoð mín,
25 hafi ég glaðst yfir miklum auði
því að hönd mín aflaði mikils,
26 hafi ég litið skin sólarinnar
og tunglið sem óð dýrlega áfram,
27 og hafi hjarta mitt látið tælast á laun
og ég sent handkoss, [
28 þá væri það refsivert brot
af því að ég hefði afneitað Guði í upphæðum.
29 Hafi ég glaðst yfir óförum óvinar míns
og hlakkað yfir böli hans,
30 leyfði ég munni mínum ekki að syndga
með því að sækjast eftir lífi hans með formælingum.
31 Hafa íbúar tjalds míns ekki sagt:
„Hver varð ekki saddur af kjöti hans?“
32 Enginn aðkomumaður þurfti að nátta utan dyra,
ég lauk þeim upp fyrir vegfarendum.
33 Hafi ég dulið misgjörðir mínar eins og aðrir
og falið sektina í brjósti mínu
34 þar sem ég óttaðist múginn og fyrirlitning ættanna skelfdi mig,
þagði ég og fór ekki út fyrir dyr.
35 Ó, að einhver hlustaði á mig.
Hér er undirskrift mín, Hinn almáttki svari mér.
Hefði andstæðingur minn skrifað ákæru
36 setti ég hana á öxl mér
og bæri hana eins og blómsveig.
37 Ég mundi gera honum grein fyrir hverju spori mínu
og ganga fram fyrir hann sem höfðingi.
38 Hafi akurland mitt hrópað gegn mér
og öll plógför þess grátið í einu,
39 hafi ég neytt uppskerunnar án endurgjalds
og svipt réttan eiganda þess lífi,
40 skal það bera þyrna í stað hveitis,
illgresi fyrir bygg.