1 En þú, mannssonur, spáðu gegn Góg og segðu: Svo segir Drottinn Guð: Nú held ég gegn þér, Góg, stórfursti í Mesek og Túbal. 2 Ég sný þér við, leiði þig og sendi frá hinum norðlægustu löndum upp í fjalllendi Ísraels. 3 Ég mun slá bogann úr vinstri hendi þinni og láta örvarnar falla úr þeirri hægri. 4 Sjálfur munt þú falla á fjöllum Ísraels ásamt öllum hersveitum þínum og þjóðunum sem fylgja þér. Ég mun fá þig ránfuglum og öðrum vængjuðum skepnum ásamt dýrum merkurinnar að bráð. 5 Þú munt falla á víðavangi. Ég hef talað, segir Drottinn Guð.
6 Ég mun senda eld gegn Magóg og hinum áhyggjulausu eyjarskeggjum. Þá munu þeir skilja að ég er Drottinn. 7 Og ég mun kunngjöra mitt heilaga nafn meðal lýðs míns, Ísraels, og ég mun aldrei framar vanhelga mitt heilaga nafn. Þannig munu þjóðirnar skilja að ég er Drottinn, Hinn heilagi í Ísrael. 8 Þetta kemur fram og verður, segir Drottinn Guð. Þetta er dagurinn sem ég talaði um.
9 Íbúar borganna í Ísrael munu fara út og kveikja bál. Þeir munu kveikja í herklæðum sínum, litlum skjöldum og stórum, bogum og örvum, kastspjótum og lensum. Þeir munu halda bálinu logandi í sjö ár með þessu. 10 Þeir munu hvorki safna viði á víðavangi né fella tré í skógunum, heldur munu þeir kynda bálið með herbúnaðinum. Þeir munu ræna þá menn sem rændu þá og taka herfang af þeim sem af þeim tóku herfang, segir Drottinn Guð.
11 Á þeim degi fæ ég Góg legstað í Ísrael, í Óberím austan hafsins. Gröfin mun loka veginum fyrir þeim sem þar fara um því að Góg verður grafinn þar og allar hersveitir hans og staðurinn mun nefndur Hamón Góg. 12 Ísraelsmenn munu grafa þá til að hreinsa landið. Það mun taka sjö mánuði 13 og allt fólkið í landinu mun taka þátt í greftruninni. Það skal verða þeim álitsauki daginn sem ég birti dýrð mína, segir Drottinn Guð. 14 Velja skal sérstaka menn sem sífellt skulu ferðast um landið og grafa þá sem eftir liggja á víðavangi til að hreinsa landið. Eftir sjö mánuði skulu þeir kanna landið rækilega 15 og finni einhver leitarmannanna mannabein skal hann hlaða vörðu hjá þeim þar til grafararnir hafa grafið það í Hamón Góg. 16 Hamóna er einnig nafn borgar. Þannig skulu þeir hreinsa landið.
17 En þú, mannssonur, svo segir Drottinn Guð: Ávarpa fuglana, öll vængjuð dýr og öll villidýr merkurinnar: Safnist saman og komið. Komið saman úr öllum áttum. Ég færi mikla sláturfórn fyrir ykkur á fjöllum Ísraels. Þið skuluð fá kjöt að eta og blóð að drekka. 18 Þið munuð fá kjöt af köppum að eta og blóð úr þjóðhöfðingjum jarðar að drekka, þetta eru hrútar, lömb, geithafrar og naut, allt alidýr frá Basan. 19 Þið skuluð eta fylli ykkar af feitu kjöti og drekka ykkur drukkna af blóði sláturfórnarinnar sem ég færi fyrir ykkur. 20 Við borð mitt skuluð þið fá fylli ykkar af hestum og riddurum, köppum og alls kyns hermönnum.

Endurreisn Ísraels

21 Ég birti dýrð mína á meðal þjóðanna. Allar þjóðir skulu sjá hvernig ég fullnægi refsidómi mínum og sjá hönd mína sem ég legg á þá. 22 Frá þeim degi og um alla framtíð munu Ísraelsmenn skilja að ég er Drottinn, Guð þeirra. 23 Þjóðirnar munu skilja að Ísraelsmenn fóru í útlegð vegna sektar sinnar. Ég huldi auglit mitt fyrir þeim, af því að þeir sviku mig, og seldi þá í hendur fjandmanna þeirra svo að þeir féllu allir fyrir sverði. 24 Ég fór með þá eins og þeir áttu skilið vegna saurgunar sinnar og afbrota.
25 Þess vegna segir Drottinn Guð svo: Nú sný ég högum Jakobs og sýni öllum Ísraelsmönnum miskunn og ég er fullur af ákafri afbrýði vegna míns heilaga nafns. 26 Þeir verða að bera smán sína og öll sín svik við mig þegar þeir eru sestir að óhultir í landi sínu og enginn hrekur þá burt. 27 Þegar ég hef leitt þá frá framandi þjóðum og safnað þeim saman úr löndum fjandmanna þeirra mun ég birta heilagleika minn á þeim fyrir augum fjölmargra þjóða. 28 Þá munu þeir skilja að ég er Drottinn, Guð þeirra því að eftir að ég hafði látið flytja þá til framandi þjóða í útlegð safnaði ég þeim saman aftur í þeirra eigin landi og skildi engan eftir. 29 Ég mun aldrei framar hylja auglit mitt fyrir þeim þegar ég hef úthellt anda mínum yfir Ísraelsmenn, segir Drottinn Guð.