Letrið á veggnum

1 Belsassar konungur hélt fyrirmönnum sínum mikla veislu, þúsund mönnum alls, og drakk vín sitt með þeim. 2 Er vínið tók að svífa á Belsassar skipaði hann að sótt skyldu gull- og silfurkerin sem Nebúkadnesar, faðir hans, hafði haft á burt með sér úr musterinu í Jerúsalem svo að konungurinn, hefðarmenn hans, konur hans og hjákonur gætu drukkið úr þeim. 3 Þá voru gullkerin sótt, sem tekin höfðu verið úr musterinu, húsi Guðs í Jerúsalem, og konungurinn, hefðarmenn hans, konur hans og hjákonur drukku úr þeim. 4 Þau drukku vín og lofuðu guði sína, guði úr gulli, silfri, eir, járni, tré og steini.
5 En þá birtust fingur á mannshendi og rituðu þeir á kalkið á veggnum í konungshöllinni, gegnt ljósastikunni, svo að konungurinn sá höndina rita. 6 Konungur brá litum og varð svo óttasleginn að fætur hans kiknuðu og hnén skulfu. 7 Konungur kallaði háum rómi að sækja skyldi særingamennina, Kaldea og spásagnamennina. Og konungur tók til máls og sagði við vitringana í Babýlon: „Hver sem les þetta letur og segir mér hvað það merkir skal hljóta purpuraklæði, hálsfesti úr gulli og skipa þriðja æðsta tignarsess í ríkinu.“ 8 Allir vitringar konungs komu en þeir gátu hvorki lesið letrið né ráðið það fyrir konung. 9 Belsassar konungur varð þá afar skelfdur og fölnaði en uggur greip um sig meðal hefðarmanna hans.
10 Þegar drottning heyrði orðaskipti konungs og hefðarmanna hans gekk hún í veislusalinn og tók til máls: „Konungur, megir þú lifa að eilífu. Láttu ekki hugsanir þínar hræða þig svo að þú fölnir. 11 Í ríki þínu er maður nokkur sem andi hinna heilögu guða býr í og á dögum föður þíns reyndu menn hann að visku, þekkingu og speki, líkri speki guðanna. Nebúkadnesar konungur, faðir þinn, skipaði hann yfirmann spásagnamannanna, særingamannanna, Kaldea og galdramannanna. 12 Þessi maður, Daníel, sem konungurinn kallaði Beltsasar, bjó yfir frábæru innsæi, þekkingu og kunnáttu við að ráða drauma og gátur og greiða úr vandamálum. Láttu því kalla á Daníel svo að hann geti sagt hvað þetta merkir.“

Daníel ræður rúnirnar á veggnum

13 Þá var komið með Daníel inn til konungs. Konungur sagði við hann: „Ert þú Daníel, einn af Gyðingunum sem konungurinn, faðir minn, herleiddi frá Júda? 14 Ég hef heyrt að andi guðanna búi í þér og að þú sért gæddur visku, þekkingu og dæmafárri speki. 15 Nú hef ég látið sækja vitringa og særingamenn til þess að lesa þetta letur og ráða það fyrir mig en þeir geta ekki sagt mér hvað þessi orð merkja. 16 En um þig hef ég frétt að þú kunnir bæði að ráða í tákn og greiða úr vandamálum. Getir þú lesið þetta letur og sagt mér hvað það merkir skaltu hljóta að launum purpuraklæði, hálsfesti úr gulli og teljast hinn þriðji að tign í ríkinu öllu.“
17 Daníel sagði þá við konung: „Haltu sjálfur þeirri umbun og gefðu einhverjum öðrum gjafir þínar en letrið skal ég lesa, konungur, og segja þér merkingu þess.
18 Konungur, hinn æðsti Guð veitti Nebúkadnesari föður þínum konungdæmi, vald, vegsemd og tign. 19 En vegna valdsins, sem hann hafði veitt honum, hræddust hann menn af öllum þjóðum og tungum og stóð þeim beygur af honum. Hann tók þá af lífi eftir geðþótta og lét þá lífi halda eftir geðþótta. Hann hóf þá til metorða eftir geðþótta og niðurlægði þá eftir geðþótta. 20 En hjarta hans ofmetnaðist og hrokinn náði tökum á huga hans. Og þá var hann sviptur hásæti sínu og tign. 21 Hann var hrakinn burt úr samfélagi manna og hjarta hans varð sem dýrshjarta. Hann deildi kjörum með villiösnum, honum var gefið gras að eta eins og nautpeningi og líkami hans vöknaði af dögg himinsins uns honum varð ljóst að Guð hinn æðsti ræður yfir konungdómi manna og veitir hann þeim sem hann kýs.
22 En þú, Belsassar, sonur hans, hefur ekki auðmýkt hjarta þitt þótt þú vissir þetta allt, 23 heldur hefurðu storkað Drottni himnanna, látið færa þér kerin úr húsi hans og þú og hefðarmenn þínir, konur þínar og hjákonur hafa drukkið vín úr þeim. Þú hefur vegsamað guði úr silfri, gulli, eir, járni, tré og steini sem ekkert sjá, ekkert heyra og ekkert vita. En þann Guð sem ræður lífsanda þínum og öllum vegum þínum, hann hefur þú ekki vegsamað. 24 Þess vegna lét hann höndina birtast og letra þetta. 25 Þetta er það sem ritað var: mene, mene, tekel ufarsin. 26 Merking orðanna er þessi: mene, Guð hefur talið stjórnarár þín til enda; 27 tekel, þú ert veginn á vogarskálum og léttvægur fundinn; 28 peres,[ ríki þitt er klofið og afhent Medum og Persum.“
29 Þá skipaði Belsassar að Daníel skyldi klæddur í purpura og gullfesti sett um háls honum. Jafnframt var því lýst yfir að hann skyldi teljast hinn þriðji að tign í ríkinu öllu.
30 Um nóttina var Belsassar Kaldeakonungur veginn.