1 Ég, Nebúkadnesar, lifði í makindum í húsi mínu og átti góða daga í höll minni. 2 En mig dreymdi draum sem skelfdi mig og hugsanirnar í rekkju minni og sýnirnar, sem fyrir mig bar, ollu mér kvíða. 3 Ég lét því birta tilskipun um að færa skyldi á minn fund alla vitringa í Babýlon til að segja mér merkingu draumsins. 4 Og spásagnamenn, særingamenn, Kaldear og galdramenn komu og ég sagði þeim drauminn en þeir gátu ekki ráðið hann fyrir mig. 5 Þá kom til mín Daníel sem kallaður er Beltsasar eftir nafni guðs míns. Með honum er andi hinna heilögu guða og ég sagði honum draum minn:
6 Beltsasar, fremstur allra spásagnamanna. Ég veit að andi hinna heilögu guða er með þér og enginn leyndardómur er skilningi þínum ofviða. Segðu mér sýnirnar sem mér birtust og hvað þær merkja.
7 Þetta eru sýnirnar sem fyrir mig bar í rekkju minni:
Ég þóttist sjá feikihátt tré standa á jörðinni miðri. 8 Tréð tók að vaxa og varð geysistórt, svo hátt að það nam við himin 9 og mátti sjá það allt frá endimörkum jarðar. Lauf þess var fagurt og ávöxturinn ríkulegur svo að þar var fæða öllum nóg. Dýr vallarins hvíldu í forsælu þess, fuglar himinsins sátu á greinum þess og af því gátu allar skepnur nært sig.
10 Í þessari hugsýn í rekkju minni þóttist ég sjá heilagan vörð stíga niður af himni. 11 Hann kallaði hárri röddu og sagði: Höggvið tréð, sníðið af greinarnar! Slítið burt laufið og tvístrið ávöxtunum! Dýr vallarins flýi undan því og fuglar himinsins af greinum þess! 12 En látið bolinn með rótum sínum vera kyrran í moldinni, bundinn járn- og eirfjötrum í grasi vallarins. Megi hann þiggja vætu af dögg himinsins og deila grösum merkurinnar með dýrunum. 13 Hjarta hans skal breytast, í honum verður ekki framar mannshjarta heldur mun hann hljóta dýrshjarta og sjö tíðir skal hann þreyja. 14 Þessa ákvörðun hafa verðirnir tekið og þessi er úrskurður hinna heilögu svo að hver lífvera sjái að Hinn æðsti er alvaldur yfir ríki mannanna; að hann fær ríkið hverjum sem hann vill og getur jafnvel sett yfir það hinn lítilmótlegasta meðal manna.
15 Þennan draum dreymdi mig, Nebúkadnesar konung. Þú, Beltsasar, segðu mér hver merking hans er því að enginn vitringur í ríki mínu getur ráðið hann fyrir mig. En þú getur það því að í þér býr andi hinna heilögu guða.“

Daníel ræður drauminn

16 Daníel, sem kallaður var Beltsasar, varð þá agndofa um stund og honum stóð ógn af hugsunum sínum. En konungur sagði: „Beltsasar! Láttu hvorki drauminn né ráðningu hans hræða þig.“ Beltsasar svaraði: „Þess vildi ég óska, herra, að draumur þessi rættist á óvinum þínum og merking hans gengi eftir á andstæðingum þínum. 17 Tréð, sem þú sást vaxa og verða bæði mikið og sterkt og svo hátt að til himins tók og sjá mátti um alla jörðina, 18 var fagurlaufgað, ávöxturinn ríkulegur og öllum nægur til fæðu. Dýr vallarins höfðust við undir því og fuglar himinsins hreiðruðu um sig í greinum þess. 19 Þetta ert þú, konungur, sem ert orðinn mikill og voldugur, tign þín svo mikil orðin að hún nær til himins og veldi þitt til endimarka jarðar. 20 En þú, konungur, sást heilagan vörð stíga niður af himni og segja: Höggvið tréð og eyðið því en látið bolinn með rótum sínum vera kyrran í moldinni, bundinn járn- og eirfjötrum í grasi vallarins. Megi hann þiggja vætu af dögg himinsins og deila grösum merkurinnar með dýrunum og sjö tíðir skal hann þreyja.
21 Ráðningin er því þessi, konungur, og það er ákvörðun Hins æðsta um herra minn, konunginn, sem nú er komin fram. 22 Þú verður hrakinn burt úr samfélagi manna til dvalar með dýrum merkurinnar. Þér verður fengið gras til matar eins og nautpeningi, dögg himinsins mun væta þig og sjö tíðir hlýturðu að þreyja uns þú sérð að Hinn æðsti ræður yfir konungdómi mannanna og getur fengið hann hverjum sem hann kýs. 23 En jafnframt var sagt að bolur trésins og rætur skyldu verða eftir og merkir það því að þú munt halda ríki þínu er þér verður ljóst að allt vald er á himnum. 24 Megi þér því þóknast ráð mitt, konungur: Bættu fyrir syndir þínar með góðum verkum og fyrir ranglæti þitt með miskunnarverkum við fátæka. Þá má vænta að hamingja þín verði langærri.“
25 Allt þetta rættist á Nebúkadnesari konungi.
26 Tólf mánuðum síðar var konungur einhverju sinni á gangi í konungshöllinni í Babýlon. 27 Tók hann þá til máls og sagði: „Er þetta ekki Babýlon hin mikla sem ég hef gert að konungssetri með veldisstyrk mínum til dýrðar hátign minni?“
28 Áður en konungur hafði sleppt orðinu heyrðist rödd af himni: „Dómur er fallinn yfir þér, Nebúkadnesar konungur: Þú hefur verið sviptur konungdómi, 29 þú verður hrakinn úr samfélagi manna og munt dveljast meðal dýra merkurinnar. Þér verður gefið gras eins og nautpeningi og sjö tíðir hlýturðu að þreyja uns þér verður ljóst að Hinn æðsti ræður yfir konungdómi manna og getur fengið hann hverjum sem hann kýs.“
30 Þessi orð rættust samstundis á Nebúkadnesari. Hann var hrakinn úr samfélagi manna, át gras eins og nautfé, líkami hans vöknaði af dögg himinsins uns hár hans varð sem arnarfjaðrir og neglurnar sem fuglsklær.
31 „Að þessum tíma liðnum hóf ég, Nebúkadnesar, augu mín til himins og fékk þá aftur fullt ráð og rænu. Ég lofaði Hinn æðsta og vegsamaði og lofsöng Hinn eilífa því að veldi hans er eilíft veldi og ríki hans varir frá kyni til kyns. 32 Jarðarbúar allir eru ekkert á við hann, sem stýrir herskara himnanna og íbúum jarðar eins og hann sjálfur kýs. Enginn getur hamlað hendi hans eða spurt: Hvað hefurðu gert?
33 Á sömu stundu fékk ég vit mitt aftur og aftur hlotnaðist mér tign og vegsemd ríki mínu til sæmdar. Ráðgjafar mínir og stórmenni leituðu mín, ég var settur yfir konungsríki mitt að nýju og enn var aukið á tign mína.
34 Ég, Nebúkadnesar, lofa nú, tigna og vegsama konung himnanna því að öll verk hans eru sannleikur, vegir hans réttlæti og hann megnar að auðmýkja þá sem hreykja sér hrokafullir.“