Samúel og Sál

Krafa um konung

1 Þegar Samúel var orðinn gamall gerði hann syni sína að dómurum í Ísrael. 2 Frumgetinn sonur hans hét Jóel en sá næsti Abía. Þeir voru dómarar í Beerseba. 3 En synir hans fetuðu ekki í fótspor hans. Þeir voru ágjarnir, þágu mútur og hölluðu þar með réttinum.
4 Þá söfnuðust allir öldungar Ísraels saman, komu til Samúels í Rama 5 og sögðu við hann: „Þú ert orðinn gamall og synir þínir feta ekki í fótspor þín. Þú skalt því setja okkur konung eins og allar aðrar þjóðir hafa.“
6 En Samúel mislíkaði að þeir sögðu: „Fáðu okkur konung sem ríki yfir okkur.“ Samúel bað því til Drottins 7 og Drottinn svaraði honum: „Hlýddu kröfu fólksins og gerðu allt sem það biður um. Þjóðin hefur ekki hafnað þér heldur hefur hún hafnað mér sem konungi sínum. 8 Hún er söm við sig. Allt frá þeim degi er ég leiddi þjóðina frá Egyptalandi og til þessa dags hefur hún sífellt snúið við mér baki og þjónað öðrum guðum. Eins ferst henni nú við þig. 9 En þú skalt verða við kröfu hennar. Fyrst skaltu vara hana alvarlega við og kynna henni réttindi konungsins sem skal ríkja yfir henni.“
10 Því næst greindi Samúel fólkinu, sem hafði krafist konungs af honum, frá öllum orðum Drottins 11 og bætti við: „Konungurinn, sem á að ríkja yfir ykkur, hefur þennan rétt: Hann sækir syni ykkar, setur þá á stríðsvagna sína og hesta og þeir hlaupa á undan vagni hans. 12 Hann gerir syni ykkar að liðsforingjum yfir þúsund mönnum eða flokksforingjum yfir fimmtíu. Hann lætur þá plægja akra sína, vinna við uppskeruna, smíða vopn sín og búnað stríðsvagna sinna. 13 Hann sækir dætur ykkar til að búa til smyrsl, elda og baka. 14 Hann tekur af ykkur bestu landspildurnar, víngarðana og olíulundina og fær hirðmönnum sínum. 15 Hann tekur tíund af afrakstri kornakra ykkar og víngarða og fær hirðmönnum sínum og höfðingjum. 16 Hann sækir þræla ykkar og ambáttir, bestu uxa ykkar[ og asna og tekur til sinna nota. 17 Hann tekur tíund af fénaði ykkar og þið verðið þrælar hans. 18 Þá munuð þið kveina undan þeim konungi sem þið hafið kosið en Drottinn mun ekki bænheyra ykkur.“
19 Fólkið vildi ekki hlusta á það sem Samúel sagði. Þvert á móti sagði það: „Nei, við viljum hafa konung yfir okkur. 20 Við viljum vera eins og allar aðrar þjóðir. Konungurinn skal ríkja yfir okkur og hann skal fara fyrir okkur og heyja stríð okkar.“
21 Samúel hlustaði á allt sem fólkið sagði og skýrði Drottni frá því. 22 Drottinn svaraði Samúel: „Hlýddu kröfu fólksins og fáðu því konung.“ Þá sagði Samúel við Ísraelsmenn: „Farið heim, hver til sinnar borgar.“