Jóas konungur í Júda

1 Jóas var sjö ára þegar hann varð konungur og ríkti fjörutíu ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Síbja og var frá Beerseba.
2 Jóas gerði það sem rétt var í augum Drottins allan þann tíma sem Jójada lifði.[ 3 Jójada fékk honum tvær eiginkonur og hann eignaðist syni og dætur.[
4 Nokkru síðar kom Jóasi í hug að endurnýja hús Drottins. 5 Hann safnaði þá saman prestunum og Levítunum og gaf þeim þessi fyrirmæli: „Farið til borganna í Júda og safnið saman fé frá öllum Ísraelsmönnum til þess að árlega verði hægt að gera við hús Guðs ykkar. Gerið þetta þegar í stað.“ En þar sem Levítarnir fóru sér hægt 6 kallaði konungurinn Jójada æðsta prest fyrir sig og sagði við hann: „Hvers vegna hefur þú ekki krafist þess af Levítunum að þeir komi hingað með skattinn frá Júda og Jerúsalem sem Móse, þjónn Drottins, og söfnuðurinn höfðu lagt á Ísrael vegna samfundatjaldsins? 7 Atalía, sem er guðleysið holdi klætt, og fylgismenn hennar hafa látið hús Guðs hrörna. Þau hafa jafnvel notað helgigjafirnar, sem ætlaðar voru húsi Drottins, handa Baölunum.“
8 Nú lét konungur gera kistu. Var henni komið fyrir utan við hliðið að húsi Drottins. 9 Því næst var kunngjört í Júda og Jerúsalem að greiða skyldi skattinn til Drottins sem Móse, þjónn Drottins, hafði lagt á Ísrael í eyðimörkinni. 10 Allir höfðingjarnir glöddust, svo og allur landslýður. Þeir komu með framlög sín og lögðu í kistuna þar til hún fylltist. 11 Á tilteknum tíma var kistan færð til eftirlits sem konungur fól Levítunum að annast. Ef þeir sáu að mikið fé var komið í kistuna komu ritari konungs og fulltrúi yfirprestsins, tæmdu kistuna og báru hana aftur á sinn stað. Þetta gerðu þeir dag eftir dag og söfnuðu miklu fé. 12 Konungurinn og Jójada afhentu það síðan verkstjórunum sem störfuðu í húsi Drottins. Þeir réðu steinsmiði og trésmiði til að endurnýja hús Drottins og einnig meistara í járnsmíði og eirsteypu til að bæta hús Drottins. 13 Verkstjórarnir hófu nú verkið og sóttist vinnan við endurbæturnar vel undir stjórn þeirra. Þeir endurreistu hús Guðs eins og því hæfði og styrktu það. 14 Þegar þeir höfðu lokið verkinu komu þeir með það sem eftir var af fénu til konungs og Jójada. Fyrir það létu þeir gera áhöld fyrir hús Drottins, skálar til guðsþjónustunnar og brennifórnarþjónustunnar, skálar og önnur áhöld úr gulli og silfri.
Á meðan Jójada lifði voru brennifórnir færðar reglulega í húsi Drottins. 15 En Jójada varð gamall og saddur lífdaga. Hann var hundrað og þrjátíu ára þegar hann dó. 16 Hann var grafinn í borg Davíðs, hjá konungunum, því að hann hafði unnið gott verk í Ísrael fyrir Guð og hús hans.
17 Eftir andlát Jójada komu höfðingjar Júda og sýndu konungi lotningu. Konungur hlustaði á þá 18 og þeir yfirgáfu hús Drottins, Guðs feðra sinna, og tóku að þjóna Asérustólpum og öðrum skurðgoðum. Vegna þessa afbrots kom heiftarreiði yfir Júda og Jerúsalem. 19 Drottinn sendi því spámenn til þeirra til þess að snúa þeim aftur til Drottins. Spámennirnir áminntu þá en þeir hlustuðu ekki. 20 Þá kom andi Guðs yfir Sakaría,[ son Jójada prests. Hann gekk fram fyrir fólkið og sagði: „Svo segir Guð: Hvers vegna brjótið þið gegn fyrirmælum Drottins? Þannig mun ykkur ekki vel farnast því að Drottinn yfirgefur ykkur ef þið yfirgefið hann.“
21 En þeir gerðu samsæri gegn honum og grýttu hann í forgarði húss Drottins samkvæmt skipun konungs. 22 Jóas konungur minntist ekki lengur þeirrar trúmennsku sem Jójada, faðir Sakaría, hafði sýnt honum. Hann lét drepa son hans og þegar hann dó sagði hann: „Megi Drottinn sjá þetta og hefna þess.“

Innrás Aramea, Jóas deyr

23 Um áramótin hélt her Aramea gegn Jóasi. Þegar hermennirnir komu inn í Júda og Jerúsalem eyddu þeir öllum leiðtogum fólksins og sendu allt herfangið til konungsins í Damaskus. 24 Enda þótt her Aramea væri fámennur þegar hann kom seldi Drottinn mjög stóran her Júdamanna í hendur honum af því að þeir höfðu yfirgefið Drottin, Guð feðra sinna. Þannig fullnægðu Aramear refsidóminum yfir Jóasi. 25 Þegar þeir héldu í burtu skildu þeir hann eftir mjög sáran. Þá gerðu embættismenn hans samsæri gegn honum vegna blóðsektarinnar eftir son Jójada prests og drápu hann í rúmi sínu. Hann var grafinn í borg Davíðs en þó ekki í gröfum konunganna. 26 Þeir sem gerðu samsæri gegn honum voru: Sabad, sonur Símeatar frá Ammón, og Jósabad, sonur Simrítar frá Móab.
27 Frásagnir af sonum hans og af hinum mörgu orðum spámannanna gegn honum og af endurbyggingu húss Drottins eru skráðar í skýringariti við bók konunganna. Amasía, sonur hans, varð konungur eftir hann.