(Hann)

1Ég hef komið í garð minn, systir mín, brúður,
og tínt mér myrru og ilmjurtir,
neytt hunangs og hunangsköku,
drukkið vín mitt og mjólk.

(Kór)

Etið, vinir, drekkið,
gerist ölvaðir af ást.

(Hún)

2Ég sef en hjarta mitt vakir.
Elskhugi minn knýr dyra.
„Ljúktu upp fyrir mér, systir mín,
ástin mín, dúfan mín lýtalausa.
Höfuð mitt er alvott af dögg,
hárlokkarnir af dropum næturinnar.“
3Ég er komin úr kyrtlinum,
ætti ég að fara í hann aftur?
Ég hef þvegið fæturna,
ætti ég að óhreinka þá?
4Elskhugi minn réttir höndina inn
og hjarta mitt ólgar af þrá.
5Ég stend upp til að opna fyrir elskhuga mínum,
myrra drýpur af höndum mínum,
rennandi myrra af fingrum mínum
á handfang lokunnar.
6Ég lýk upp fyrir elskhuga mínum
en elskhugi minn er farinn, horfinn.
Ég verð frávita er hann hverfur.
Ég leita hans en finn hann ekki,
kalla á hann en hann svarar ekki.
7Ég hitti verðina
sem ganga um borgina.
Þeir slá mig, þeir særa mig,
möttlinum svipta þeir af mér,
verðir múranna.
8Ég særi yður, Jerúsalemdætur.
Ef þér finnið elskhuga minn, segið honum þá
að ég sé sjúk af ást.

(Kór)

9Hvað hefur elskhugi þinn fram yfir aðra,
þú, fegurst kvenna?
Hvað hefur elskhugi þinn fram yfir aðra,
að þú særir oss svo?

(Hún)

10Elskhugi minn er bjartur og rjóður
og ber af tíu þúsundum.
11Höfuð hans er skíragull,
lokkar hans hrafnsvartir döðluklasar.
12Augu hans eins og dúfur við læki,
baðaðar í mjólk við bakkafullar tjarnir,
13kinnar hans sem ilmreitir
og kryddjurtabeð,
varirnar liljur
sem myrra drýpur af,
14hendur hans gullkefli,
lögð dýrum steinum,
kviður hans fílabein,
alsett safírsteinum,
15fótleggir hans eru sem marmarasúlur
á stalli úr skíragulli,
ásýndum er hann sem Líbanonsfjall,
tígulegur sem sedrustré,
16munnur hans ljúffengur
og allur er hann yndislegur.
Þetta er vinur minn, Jerúsalemdætur,
þetta er ástvinur minn.