Andstaða gegn musterisbyggingunni

1 Þegar andstæðingar Júda og Benjamíns fréttu að þeir sem voru komnir heim úr útlegðinni væru að reisa Drottni, Guði Ísraels, musteri, 2 fóru þeir til Serúbabels og ættarhöfðingjanna og sögðu við þá: „Við viljum byggja með ykkur því að við leitum til Guðs ykkar eins og þið. Við höfum fært honum fórnir frá tíma Asarhaddons Assýríukonungs sem flutti okkur hingað.“
3 Serúbabel, Jesúa og aðrir ættarhöfðingjar Ísraels svöruðu: „Þið getið ekki verið með okkur um að reisa Guði okkar hús. Við ætlum einir að reisa Drottni, Guði Ísraels, hús eins og Kýrus Persakonungur hefur lagt fyrir okkur.“
4 Þá drógu þeir sem bjuggu á landsbyggðinni kjarkinn úr Júdamönnum og hræddu þá frá því að byggja. 5 Þeir mútuðu ráðgjöfum til að vinna gegn þeim og ónýta fyrirætlanir þeirra. Á þessu gekk alla stjórnartíð Kýrusar Persakonungs þar til Daríus varð konungur Persíu. 6 Við upphaf stjórnartíðar Xerxesar rituðu þeir ákæru gegn íbúum Júda og Jerúsalem. 7 Á stjórnartíma Artaxerxesar skrifuðu þeir í samráði við Mítredat, Tabeel og aðra félaga sína Artaxerxesi Persakonungi. Bréfið var þýtt á arameísku og skrifað með arameísku letri.
8 Rehúm hershöfðingi og Simsaí ritari skrifuðu Artaxerxesi konungi eftirfarandi bréf gegn Jerúsalembúum. 9 Sendendur: Rehúm hershöfðingi, Simsaí ritari og aðrir félagar þeirra, dómarar, sendimenn, eftirlitsmenn, persneskir embættismenn, menn frá Erek, Babýlon og Súsa, það er Elamítar, 10 og aðrar þær þjóðir sem hinn mikli og víðfrægi Asenappar flutti burt og lét setjast að í borgum Samaríu og á öðrum landsvæðum handan við fljótið. 11 Afrit bréfsins, sem þeir sendu Artaxerxesi, hljóðar svo:
„Til Artaxerxesar konungs frá þrælum þínum, fólkinu handan fljótsins. 12 Hér með tilkynnist konungi að Gyðingarnir, sem komu frá þér hingað upp eftir, eru komnir til Jerúsalem. Þeir eru að endurreisa þessa uppreisnargjörnu og illu borg. Þeir eru að ljúka við að endurreisa múrana og gera við grunninn. 13 Hér með er athygli konungs vakin á því að Gyðingar munu hvorki greiða skatta, gjöld né tolla verði þessi borg endurreist og múrar hennar fullgerðir. Konungur minn mun því skaðast. 14 Þar sem við erum í þjónustu konungs sæmir ekki að við horfum aðgerðalausir á konung niðurlægðan. Þess vegna höfum við sent þetta bréf til að vekja athygli konungs á því 15 að leita ætti í annálum forfeðra þinna. Í annálunum munt þú komast að raun um að þessi borg er uppreisnargjörn borg sem hefur skaðað konunga og skattlönd og í henni hafa verið gerðar uppreisnir frá alda öðli. Þess vegna var þessari borg eytt. 16 Við bendum konungi á að verði borgin endurreist og að fullu gert við múra hennar, verða ítök þín handan fljóts úr sögunni.“
17 Konungur sendi svohljóðandi svar: „Ég sendi kveðju Rehúm hershöfðingja, Simsaí ritara og öllum félögum þeirra sem búa í Samaríu og öðrum héruðum handan fljóts. 18 Bréfið, sem þið senduð okkur, hefur verið lesið fyrir mig í þýðingu. 19 Því næst var leitað í annálum samkvæmt skipun minni og þetta fannst: Þessi borg hefur frá fornu fari margsinnis risið gegn konungum og þar hafa orðið óeirðir og uppreisnir. 20 Voldugir konungar hafa ríkt í Jerúsalem og stjórnað öllu landsvæðinu handan fljóts. Þeim voru greiddir skattar, gjöld og tollar. 21 Gefið því skipun um að stöðva þessa menn. Þessi borg verður ekki endurreist fyrr en ég skipa svo fyrir. 22 Gætið þess að láta þetta ekki sitja á hakanum, annars gæti konungdæmið orðið fyrir miklu tjóni.“ 23 Jafnskjótt og afrit af svarbréfi Artaxerxesar konungs hafði verið lesið fyrir Rehúm, Simsaí ritara og aðra félaga þeirra hröðuðu þeir sér til Jerúsalem, til Gyðinganna, og neyddu þá með hervaldi til að hætta framkvæmdum.
24 Þá lagðist vinna við hús Guðs í Jerúsalem niður og lá niðri fram á annað stjórnarár Daríusar Persakonungs.