Kornfórn

1 Þegar einhver ætlar að færa Drottni kornfórn á gjöf hans að vera fínt mjöl. Hann skal hella olíu yfir það og leggja reykelsi ofan á. 2 Þá skal hann færa það sonum Arons, prestunum. Presturinn skal þá taka handfylli af mjölinu og olíunni ásamt öllu reykelsinu. Því næst skal presturinn láta minningarhluta fórnarinnar líða upp í reyk af altarinu.
Þetta er eldfórn, Drottni þekkur ilmur.
3 Það sem eftir er af kornfórninni fá Aron og synir hans. Það er háheilagur hluti af eldfórnum Drottins.
4 Þegar þú færir kornfórn, brauð bakað í ofni, skal hún vera úr fínu mjöli. Það skulu vera ósýrðar, kringlóttar kökur blandaðar olíu eða ósýrt flatbrauð smurt olíu.
5 Sé gjöf þín brauð bakað á pönnu skal hún vera ósýrt brauð úr fínu mjöli blönduðu olíu. 6 Þú skalt brjóta það í mola og hella olíu yfir. Það er kornfórn.
7 Sé gjöf þín kornfórn úr suðupotti skal hún gerð úr fínu mjöli og olíu.
8 Þú skalt færa Drottni kornfórn með fyrrgreindum hætti. Þú skalt færa hana prestinum og hann ber hana að altarinu. 9 Presturinn skal taka minningarhluta kornfórnarinnar og láta hann líða upp í reyk af altarinu.
Þetta er eldfórn, Drottni þekkur ilmur.
10 Það sem eftir er af kornfórninni fá Aron og synir hans. Það er háheilagur hluti af eldfórnum Drottins.
11 Enga kornfórn, sem þið færið Drottni, má gera úr súrdegi því að þið megið hvorki láta súrdeig né hunang líða upp í reyk sem eldfórn til Drottins. 12 Þið getið fært Drottni það sem gjöf af frumgróða en ekki má hefja það upp á altarið sem þekkan ilm.
13 Sérhverja kornfórnargjöf þína skaltu salta. Þú skalt ekki láta salt sáttmála Guðs þíns vanta í þá kornfórn sem þú færir. Sérhverja gjöf þína skaltu færa fram til fórnar með salti.
14 Ætlir þú að færa Drottni kornfórn af frumgróða skaltu færa frumgróðafórn af ferskum kornöxum, ristuðum yfir eldi, og af muldu fersku korni. 15 Þú skalt hella olíu yfir og leggja reykelsi ofan á það. Þetta er kornfórn.
16 Presturinn skal láta minningarhluta kornsins og olíunnar líða upp í reyk ásamt öllu reykelsinu.
Þetta er eldfórn handa Drottni.