Jóas Júdakonungur

1 Jóas var sjö ára þegar hann varð konungur. 2 Á sjöunda stjórnarári Jehú varð Jóas konungur og hann ríkti fjörutíu ár í Jerúsalem. Móðir hans hét Sibja og var frá Beerseba.
3 Alla ævidaga sína gerði Jóas það sem rétt var í augum Drottins því að Jójada prestur leiðbeindi honum. 4 Samt hurfu fórnarhæðirnar ekki, fólkið hélt áfram að færa sláturfórnir og reykelsisfórnir á hæðunum.
5 Jóas gaf prestunum þessi fyrirmæli: „Allt fé, sem fært er sem helgigjafir í musteri Drottins, og gjald, sem lagt er á einstakling eftir mati eða honum er gert skylt að greiða fyrir annan, sömuleiðis fé sem einhver gefur af frjálsum vilja, 6 allt það fé skulu prestarnir taka hjá þeim sem þeir eiga skipti við. Það skal notað til viðgerða á musterinu hvar sem skemmdir kunna að finnast.“ 7 En á tuttugasta og þriðja stjórnarári Jóasar konungs höfðu prestarnir ekki enn látið gera við skemmdirnar á musterinu. 8 Jóas konungur kallaði þá til sín Jójada prest og hina prestana og sagði við þá: „Hvers vegna gerið þið ekki við skemmdirnar á musterinu? Hér eftir megið þið ekki taka við fé af þeim sem þið eigið skipti við, heldur skuluð þið afhenda það og fénu skal varið til að gera við skemmdirnar á musterinu.“ 9 Prestarnir samþykktu að taka ekki við fé frá almenningi gegn því að þeim væri ekki gert að lagfæra skemmdirnar á musterinu.
10 Jójada prestur tók nú kistu, boraði gat á lokið og kom henni fyrir til hliðar við altarið hægra megin þegar gengið var í musteri Drottins. Í hana lögðu prestarnir, sem héldu vörð um innganginn, allt fé sem var fært til musteris Drottins. 11 Þegar þeir sáu að mikið fé var komið í kistuna komu ritari konungs og yfirpresturinn, söfnuðu saman öllu fé sem fannst í musteri Drottins og töldu það. 12 Þegar féð hafði verið talið afhentu þeir það verkstjórunum sem litu eftir verkinu í musteri Drottins. Þeir greiddu það síðan trésmiðum og byggingarverkamönnum, sem unnu við musterið, múrurum og steinsmiðum. 13 Þeir keyptu einnig fyrir það timbur og tilhöggna steina, sem þurfti til að gera við skemmdirnar á musteri Drottins, og notuðu til að greiða með því allan kostnað vegna viðgerðanna. 14 Hins vegar var fé, sem fært var til musteris Drottins, ekki varið til að gera silfurskálar, skarbíta, fórnarskálar eða lúðra né nein gull- eða silfuráhöld fyrir musterið. 15 Það var greitt til verkamannanna sem notuðu það til að lagfæra musteri Drottins. 16 Ekki var krafist reikningsskila af þeim mönnum, sem trúað var fyrir greiðslu til verkamannanna, því að þeim var treyst. 17 En fé, sem greitt var í sektafórnir og syndafórnir, kom ekki í hlut musterisins, það rann til prestanna.
18 Um þessar mundir hélt Hasael, konungur Arams, upp eftir í herför gegn borginni Gat og vann borgina. Hasael sneri síðan við og hélt upp til Jerúsalem. 19 Þá tók Jóas Júdakonungur allar helgigjafirnar sem Jósafat, Jóram og Ahasía, konungar Júda, forfeður hans, höfðu gefið. Auk þess tók hann sínar eigin helgigjafir, ásamt öllu gulli sem fannst í fjárhirslunum í musteri Drottins og konungshöllinni, og sendi til Hasaels, Aramskonungs. Hann hélt þá á brott frá Jerúsalem. 20 Það sem ósagt er af sögu Jóasar og verkum hans er skráð í annála Júdakonunga.
21 En hirðmenn Jóasar risu upp og gerðu samsæri gegn honum og drápu hann í Bet Milló við veginn niður til Silla. 22 Jósakar Símeatsson og Jósabad Sómersson, hirðmenn hans, hjuggu hann til bana. Hann var grafinn hjá feðrum sínum í borg Davíðs. Amasía sonur hans varð konungur eftir hann.