Lokaræða Jobs

1 Job hélt áfram ræðu sinni og sagði:
2Ég vildi að ég væri eins og áður fyrr
þegar Guð verndaði mig,
3þegar hann lét lampa sinn lýsa yfir höfði mér
og ég gekk við ljós hans í myrkri.
4Eins og þegar ég var á besta aldri,
þegar Guð skýldi tjaldi mínu
5og Hinn almáttki var enn með mér
og börnin mín voru í kringum mig,
6þegar ég þvoði fætur mína í mjólk
og ólífuolían streymdi til mín úr klettunum.
7Þegar ég gekk um hlið mitt til borgarinnar
og settist í sæti mitt á torginu
8drógu æskumenn sig í hlé þegar þeir sáu mig
og öldungar risu á fætur og stóðu kyrrir,
9höfðingjar gættu tungu sinnar
og lögðu hönd á munn sér,
10tignarmenn lækkuðu róminn
og tunga þeirra loddi við góminn.
11Sá sem hlustaði á mig lofaði mig,
hver sem sá mig hældi mér
12því að ég bjargaði snauðum sem hrópaði á hjálp
og munaðarlausum sem enginn liðsinnti.
13Sá sem var hætt kominn blessaði mig
og ég fyllti hjarta ekkjunnar fögnuði.
14Ég klæddist réttlæti,
ráðvendni mín fór mér vel eins og kápa og vefjarhöttur.
15Ég varð blindum augu
og lömuðum fætur.
16Ég varð snauðum faðir,
kannaði deilur mér óþekktra manna,
17braut kjálka illmennis
og reif bráðina úr tönnum þess.
18Ég sagði: „Ég mun farast í hreiðri mínu
og lifa lengi eins og fuglinn Fönix.
19Rót mín nær til vatns
og limið er döggvað um nætur.
20Æran endurnýjast mér sífellt
og boginn yngist í hendi mér.“
21Menn hlustuðu á mig og biðu
og hlýddu þegjandi á ráð mitt.
22 Þegar ég hafði talað tók enginn til máls,
orð mín drupu á þá,
23 þeir biðu mín eins og regns,
opnuðu munninn og vonuðust eftir vorskúr.
24 Brosti ég við þeim fengu þeir kjark,
ef andlit mitt ljómaði voru þeir ekki lengur niðurlútir.
25 Ég ákvað þeim leið, sat í höfðingjasætinu,
dvaldist sem konungur meðal hersveitanna,
eins og sá sem huggar sorgmædda.