Ísak og Abímelek

1 Nú varð hallæri í landinu, annað en hið fyrra sem varð á dögum Abrahams, og fór Ísak til Abímeleks, konungs Filistea í Gerar.
2 Drottinn hafði birst honum og sagt: „Far þú ekki suður til Egyptalands. Dvel þú í landinu sem ég segi þér. 3 Dvel þú þar sem aðkomumaður og mun ég vera með þér og blessa þig því að þér og niðjum þínum gef ég öll þessi lönd og hef þannig haldið eiðinn sem ég sór Abraham, föður þínum. 4 Ég geri niðja þína svo marga sem stjörnur himins og gef þeim öll þessi lönd. Allar þjóðir heims munu blessun hljóta af afkvæmi þínu 5 vegna þess að Abraham hlýddi rödd minni og gætti tilskipana minna, fyrirmæla, boða og kenninga.“
6 Og Ísak var um kyrrt í Gerar.
7 Þegar menn spurðu hann um konu hans svaraði hann af ótta við að kalla hana konu sína: „Hún er systir mín,“ og hugsaði með sér: „Annars myrða þeir mig vegna Rebekku því að hún er fögur sýnum.“
8 Nú bar svo við þegar hann hafði dvalist þar um allnokkurt skeið að Abímelek, konungi Filistea, varð litið út um gluggann og sá hann þá hvar Ísak lét vel að Rebekku, konu sinni. 9 Kallaði Abímelek þá Ísak fyrir sig og sagði: „Svo hún er þá konan þín. Hví sagðir þú: Hún er systir mín?“
Ísak svaraði honum: „Vegna þess að ég hugsaði með mér: Annars læt ég lífið hennar vegna.“
10 Abímelek mælti: „Veistu hvað þú hefur gert okkur? Hæglega hefði einhver getað lagst með konu þinni og þá hefðir þú leitt yfir okkur sekt.“ 11 Og Abímelek gaf fólkinu svohljóðandi fyrirmæli: „Hver sá sem áreitir þennan mann eða konu hans skal tekinn af lífi.“
12 Ísak sáði í þessu landi og uppskar á því ári hundraðfalt. Þannig blessaði Drottinn hann. 13 Og hann efldist og auðgaðist æ meir uns hann var orðinn vellauðugur. 14 Hann eignaðist sauðahjarðir, nautahjarðir og fjölda hjúa svo að Filistear tóku að öfunda hann. 15 Þá byrgðu Filistear alla þá brunna sem húskarlar föður Ísaks höfðu grafið á dögum Abrahams, föður hans, og fylltu af mold.
16 Abímelek sagði við Ísak: „Farðu frá okkur því að þú ert orðinn miklu voldugri en við.“
17 Ísak fór þaðan og sló upp tjöldum sínum í Gerardal og settist þar að. 18 Hann lét grafa þá brunna að nýju sem grafnir höfðu verið á dögum Abrahams, föður hans, en Filistear höfðu byrgt eftir dauða Abrahams, og gaf brunnunum sömu nöfn og faðir hans hafði gefið þeim.
19 En húskarlar Ísaks fundu lind með fersku vatni þegar þeir grófu í dalnum. 20 Þá tróðu hjarðmennirnir í Gerar illsakir við hjarðmenn Ísaks og sögðu: „Við eigum þetta vatn.“ Ísak nefndi brunninn Esek af því að þeir höfðu þráttað við hann. 21 Þá grófu þeir annan brunn en þráttuðu einnig um hann. Því nefndi hann brunninn Sítna. 22 Þeir tóku sig upp þaðan og grófu annan brunn en þráttuðu ekki um hann og nefndi Ísak brunninn Rehóbót, „því að,“ sagði hann, „Drottinn hefur rýmkað um okkur svo að nú getur okkur fjölgað í landinu“.

Ísak í Beerseba

23 Ísak hélt nú ofar í landið, til Beerseba. 24 Þá birtist Drottinn honum á þeirri sömu nóttu og mælti: „Ég er Guð Abrahams, föður þíns. Óttast þú ekki því að ég er með þér. Ég mun blessa þig og gera niðja þína fjölmenna vegna Abrahams, þjóns míns.“
25 Þar reisti Ísak altari og ákallaði nafn Drottins. Hann sló þar upp tjöldum sínum og húskarlar hans grófu þar brunn. 26 Þá kom Abímelek til hans frá Gerar ásamt Akúsat, vini sínum, og Píkól, hershöfðingja sínum.
27 Ísak mælti til þeirra: „Hví komið þið til mín? Þið hatið mig og rákuð mig burt frá ykkur.“
28 Þeir svöruðu: „Við höfum séð þess ótvíræð merki að Drottinn er með þér og við teljum að eiðsvarinn sáttmáli þurfi að vera milli beggja, milli okkar og þín, og viljum því gera við þig sáttmála. 29 Þú skalt ekki gera okkur neitt mein, svo sem við höfum ekki beitt þig neinu ofbeldi og svo sem við höfum ekki gert þér nema gott eitt og leyft þér að fara frá okkur í friði. Þú ert nú blessaður af Drottni.“
30 Og Ísak hélt þeim veislu og þeir átu og drukku. 31 Árla morguninn eftir sóru þeir hver öðrum eiða. Ísak leyfði þeim að fara og héldu þeir heim í friði.
32 Sama dag bar svo við að húskarlar Ísaks komu og skýrðu honum frá brunninum sem þeir höfðu grafið og sögðu: „Við höfum fundið vatn.“ 33 Og hann nefndi brunninn Seba. Þess vegna er nafn borgarinnar Beerseba allt til þessa dags. 34 Esaú var orðinn fjörutíu ára. Gekk hann þá að eiga þær Júdít, dóttur Hetítans Beerí, og Basmat, dóttur Hetítans Elons, 35 en þær urðu þeim Ísak og Rebekku hin sárasta skapraun.