Blessun í Kristi Jesú

1 Óskynsömu Galatar! Hver hefur töfrað ykkur? Þið hafið þó fengið skýra mynd af Jesú Kristi á krossinum málaða fyrir augum ykkar. 2 Um þetta eitt vil ég fræðast af ykkur: Öðluðust þið andann vegna lögmálsverka eða við að hlýða á fagnaðarerindið og trúa? 3 Eruð þið svo óskynsamir að byrja í heilögum anda og ætla svo að fullna það í eigin mætti? 4 Hafið þið til einskis reynt svo mikið? – ef það þá er til einskis. 5 Veitir Guð ykkur andann og lætur máttarverk gerast meðal ykkar vegna þess að þið haldið lögmálið eða vegna þess að þið heyrið og trúið? 6 Svo var og um Abraham, „hann trúði Guði og það var honum til réttlætis reiknað“.
7 Vitið því að sannir niðjar Abrahams eru þeir sem treysta Guði. 8 Ritningin sá það fyrir að Guð mundi réttlæta heiðingjana fyrir trú. Því boðaði hún Abraham fyrir fram þann fagnaðarboðskap: „Af þér skulu allar þjóðir blessun hljóta.“ 9 Þannig blessar Guð alla þá sem treysta honum með hinum trúaða Abraham.
10 En bölvun hvílir yfir öllum þeim sem reyna að hlýða Guði með því að fara eftir lögmálinu því að ritað er: „Bölvaður er hver sá sem ekki virðir öll ákvæði þessara laga og breytir eftir þeim.“ 11 En það er augljóst að fyrir Guði réttlætist enginn með lögmáli því að „hinn réttláti mun lifa fyrir trú“.[ 12 En lögmálið spyr ekki um trú. Það segir: „Sá sem breytir eftir boðum þess mun lifa þeirra vegna.“
13 Kristur keypti okkur undan bölvun lögmálsins með því að taka á sig bölvun þess fyrir okkur því að ritað er: „Bölvaður er hver sá sem á tré hangir.“ 14 Þannig varð Jesús Kristur til þess að allar þjóðir fengju blessunina sem Abraham var heitið og við öll, sem trúum, fengjum andann sem Guð gaf fyrirheit um.

Lögmál og fyrirheit

15 Bræður mínir og systur,[ ég tek dæmi úr mannlegu lífi: Enginn ónýtir eða eykur við staðfesta arfleiðsluskrá enda þótt hún sé aðeins af manni gerð. 16 Nú voru fyrirheitin gefin Abraham og niðja hans. Þar stendur ekki „og niðjum“ eins og margir ættu í hlut heldur „og niðja þínum“ eins og þegar um einn er að ræða og það er Kristur. 17 Með þessu vildi ég sagt hafa: Sáttmála, sem Guð hafði áður staðfest, getur lögmálið, sem kom fjögur hundruð og þrjátíu árum síðar, ekki ónýtt og fellt fyrirheitið úr gildi. 18 Ef við þurfum að hlýða lögmáli til þess að fá arfinn, þá fæst hann ekki framar vegna fyrirheits en Guð sýndi Abraham náð og efndi það sem hann gaf honum fyrirheit um.
19 Hvað er þá lögmálið? Því var bætt við til þess að afbrotin kæmu í ljós. Það átti að gilda þar til niðjinn kæmi sem fyrirheitið hljóðaði um. Englar sáu um að semja það með liðsinni meðalgangara. 20 En meðalgangara gerist ekki þörf þar sem einn á í hlut en Guð er einn.

Erfingjar eftir fyrirheiti

21 Er þá lögmálið gegn fyrirheitum Guðs? Fjarri fer því. Ef við hefðum fengið lögmál sem veitt gæti líf þá fengist réttlætið vissulega með lögmáli. 22 En Ritningin segir að allt sé hneppt undir vald syndarinnar til þess að trúuðum veitist fyrirheitið með því að treysta því sem Guð lét Jesú Krist gera.
23 Áður en þessi leið var fær vorum við innilokuð í gæslu lögmálsins þangað til trúin, sem í vændum var, opinberaðist. 24 Þannig hefur lögmálið orðið tyftari okkar þangað til Kristur kom til þess að við réttlættumst af trú. 25 En nú, eftir að trúin er komin, erum við ekki lengur undir tyftara.
26 Með því að trúa á Krist Jesú eruð þið öll Guðs börn. 27 Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi. 28 Hér er hvorki Gyðingur né annarrar þjóðar maður,[ þræll né frjáls maður, karl né kona. Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú. 29 Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið.