1 En Drottinn lét það koma fram sem hann hafði mælt gegn oss og dómurum vorum sem stjórnuðu Ísrael og gegn konungum vorum, höfðingjum og þjóð Ísraels og Júda. 2 Aldrei hefur nein slík ógæfa orðið undir öllum himninum sem sú sem hann lét koma yfir Jerúsalem eins og fyrir var sagt í lögmáli Móse. 3 Vér urðum að eta hold sona vorra og dætra. 4 Drottinn seldi þjóðina á vald öllum konungsríkjum í grennd við oss og gerði hana að háði og spotti meðal þeirra þjóða þar sem hann tvístraði þeim. 5 Í stað upphefðar var hún niðurlægð vegna þess að vér höfum syndgað gegn Drottni Guði vorum og ekki hlýtt á raust hans.
6 Drottinn Guð er réttlátur en vér og allir feður vorir megum bera kinnroða af blygðun allt til þessa dags. 7 Öll sú ógæfa sem Drottinn hafði sagt fyrir að mundi henda oss er yfir oss komin. 8 Samt leituðum vér ekki á náðir Drottins og báðum hann að snúa hjörtum vorum frá illri breytni. 9 Þess vegna lét Drottinn ógæfuna, sem hann hafði vald yfir, koma yfir oss enda allt réttlátt sem Drottinn boðaði eins og öll hans verk. 10 En vér hlýddum ekki á raust hans og fórum ekki að fyrirmælum þeim sem Drottinn lagði fyrir oss.

Bæn um frelsi

11 En nú, Drottinn, Ísraels Guð, þú sem leiddir lýð þinn út úr Egyptalandi með máttugri hendi þinni og með táknum, undrum og miklum mætti og upplyftum armi. Þú hefur gert nafn þitt kunnugt fram á þennan dag. 12 Vér höfum syndgað, vér höfum lifað óguðlega og breytt ranglátlega, Drottinn Guð, og gegn öllum réttlátum boðum þínum. 13 Snú þú reiði þinni frá oss því að vér erum einungis fáir eftir meðal þjóðanna sem þú tvístraðir oss á meðal. 14 Heyr, Drottinn, bæn vora og ákall og frelsa oss sjálfs þín vegna og lát oss hljóta velvild þeirra sem fluttu oss í útlegð. 15 Þá mun heimur allur komast að raun um að þú ert Drottinn, Guð vor því að Ísrael og niðjar hans eru kenndir við þig.
16 Drottinn, lít niður úr þínum heilaga bústað og hugsa til vor. Hneig eyra þitt að oss og hlýð á, Drottinn. 17 Ljúk upp augum þínum og horfðu á. Þeir sem dánir eru í helju og andinn hefur verið numinn úr brjóstinu á geta ekki tignað Drottin og réttlæti hans. 18 Nei, það er sá sem er sárhryggur og gengur beygður og vanmegna, það eru depruð augu og sál sem hungrar sem vegsama þig og réttlæti þitt, Drottinn.
19 Það er sannarlega ekki vegna verðleika feðra vorra eða konunga að vér komum fram fyrir ásjónu þína og biðjum um miskunn, Drottinn Guð. 20 Þú hefur leitt reiði þína og gremju yfir oss svo sem þú lést þjóna þína, spámennina, segja fyrir um við oss: 21 „Svo segir Drottinn: Beygið háls yðar undir ok Babýloníukonungs og þjónið honum. Þá fáið þér að vera kyrrir í landinu sem ég gaf feðrum yðar. 22 En ef þér óhlýðnist raust minni og þjónið Babýloníukonungi ekki 23 þá læt ég öll gleði- og fagnaðarlæti þagna og rödd brúðguma og brúðar í borgum Júda og á strætum Jerúsalem hljóðna og landið allt skal verða auðn og óbyggð.“
24 En vér óhlýðnuðumst raust þinni og þjónuðum Babýloníukonungi ekki og þú lést það koma fram sem þú hafðir sagt fyrir munn þjóna þinna, spámannanna, að bein feðra vorra og konunga yrðu tekin úr gröfum þeirra. 25 Þeim hefur verið varpað út og mega þola hita dags og kulda nætur. Feður vorir dóu hörmulega þjakaðir af hungri, fyrir sverði og úr drepsóttum. 26 Og sakir illsku íbúa Ísraels og Júda lést þú húsið, sem ber nafn þitt, verða það sem það er orðið.
27 En samt hefur þú, Drottinn Guð, auðsýnt oss alla þína mildi og miklu miskunnsemi 28 eins og þú sagðir í orði Móse, þjóns þíns, þegar þú bauðst honum að rita lögmál þitt frammi fyrir Ísraelsmönnum og sagðir: 29 „Ef þér hlýðið ekki raust minni þá mun þessi háværi aragrúi manna sannarlega skreppa saman í lítinn hóp hjá þjóðunum sem ég mun dreifa þeim á meðal. 30 En ég veit að þeir munu ekki hlýða á mig þar sem þeir eru harðsvíraður lýður. En í útlegðarlandi sínu munu þeir sjá að sér 31 og viðurkenna að ég er Drottinn, Guð þeirra. Ég mun gefa þeim hlýðið hjarta og eyru sem heyra. 32 Þá munu þeir lofa mig í útlegðarlandi sínu og minnast nafns míns 33 og láta af þvermóðsku sinni og vondum verkum er þeir minnast þess hvernig fór fyrir feðrum þeirra sem syndguðu gegn Drottni. 34 Þá mun ég leiða þá aftur til landsins sem ég sór að gefa feðrum þeirra, Abraham, Ísak og Jakobi, og þeir skulu ríkja þar. Síðan mun ég fjölga þeim og þeim mun aldrei fækka. 35 Ég mun gera eilífan sáttmála við þá og verða Guð þeirra og þeir munu verða mín þjóð. Aldrei mun ég framar flytja lýð minn, Ísrael, frá landinu sem ég gaf honum.“