1 Elísa svaraði: „Heyrið orð Drottins. Svo segir Drottinn: Um þetta leyti á morgun mun ein sea af hveiti aðeins kosta einn sikil á markaði í hliði Samaríu og tvær seur af byggi munu aðeins kosta einn sikil.“ 2 Liðsforingi sá er konungur studdist við svaraði guðsmanninum og sagði: „Þó að Drottinn setti raufar á himininn gæti þetta ekki orðið.“ En Elísa sagði: „Þú skalt sjá þetta með eigin augum en sjálfur skaltu einskis af því neyta.“

Samaríu bjargað úr umsátrinu

3 Fjórir holdsveikir menn voru úti fyrir borgarhliðinu. Þeir sögðu hver við annan: „Hvers vegna ættum við að sitja hér og bíða dauðans? 4 Ef við ákveðum að fara inn í borgina þar sem hungursneyð ríkir munum við deyja þar og ef við sitjum hér áfram munum við einnig deyja. Komum því héðan og förum yfir í herbúðir Aramea. Ef þeir láta okkur lifa lifum við og ef þeir drepa okkur deyjum við.“
5 Þeir lögðu síðan af stað í rökkrinu og héldu til herbúða Aramea. Þegar þeir komu að útjaðri herbúðanna var þar enginn. 6 En Drottinn hafði látið hermönnum Aramea berast til eyrna vagnskrölt, hófadyn og hávaða frá miklum her svo að þeir sögðu hver við annan: „Ísraelskonungur hefur leigt konunga Hetíta og Egypta til þess að ráðast á okkur.“ 7 Þeir spruttu upp í rökkrinu og flýðu en létu eftir tjöld sín, hesta og asna, herbúðirnar eins og þær voru. Þeir flýðu til að bjarga lífi sínu.
8 Þegar holdsveiku mennirnir komu að útjaðri herbúðanna fóru þeir inn í eitt tjaldið, fengu sér þar að eta og drekka og höfðu að því búnu á brott með sér þaðan silfur, gull og fatnað og földu. Síðan sneru þeir aftur og fóru inn í annað tjald, tóku það sem þeir fundu, höfðu á brott með sér og földu.
9 Síðan sögðu þeir hver við annan: „Þetta er ekki rétt af okkur. Þessi dagur er dagur gleðitíðinda en við þegjum. Ef við bíðum dögunar verðum við fundnir sekir. Komið nú, höldum heim og segjum frá þessu í húsi konungsins.“ 10 Er þeir komu heim hrópuðu þeir til borgarvarðanna: „Við komum í herbúðir Aramea en þar sást hvorki né heyrðist í nokkrum lifandi manni. Hestar og asnar voru tjóðraðir og öll tjöldin óhreyfð.“ 11 Verðirnir hrópuðu hvað gerst hafði og frá því var skýrt í húsi konungs.
12 Konungur fór á fætur um nóttina og sagði við hirðmenn sína: „Ég skal segja ykkur hvað Aramearnir ætla að gera okkur. Þeir vita að við sveltum, þess vegna hafa þeir farið út úr herbúðunum, falið sig úti á víðavangi og hugsa með sér: Þegar Ísraelsmenn fara út úr borginni grípum við þá lifandi. Eftir það getum við farið inn í borgina.“ 13 Einn af hirðmönnum hans svaraði og sagði: „Þú skalt láta einhverja manna þinna taka fimm af hestunum sem eftir eru. Annaðhvort fer fyrir þeim eins og þeim fjölda Ísraelsmanna sem hefur bjargast og er hér eða eins og þeim fjölda Ísraelsmanna sem hefur verið felldur. Við skulum senda þá af stað og sjá hvað setur.“ 14 Þeir tóku þá tvo hestvagna og konungur sendi þá á eftir her Aramea og sagði: „Farið af stað og hafið augun hjá ykkur.“
15 Þeir fóru á eftir þeim allt til Jórdanar og sáu sér til undrunar að vegurinn var þakinn klæðum og vopnum sem Aramearnir höfðu fleygt frá sér er þeir flýðu í ofboði. Sendimennirnir sneru þá aftur og sögðu konungi frá þessu.
16 Þá ruddust borgarbúar út og rændu herbúðir Aramea. Nú kostaði ein sea af hveiti aðeins einn sikil og sömuleiðis tvær seur af byggi einn sikil eins og Drottinn hafði sagt.
17 Konungur hafði falið liðsforingja þeim sem hann treysti best umsjón með hliðinu. En fólkið tróð hann undir í hliðinu. Lét hann þar lífið eins og guðsmaðurinn hafði sagt fyrir um þegar konungur fór á hans fund. 18 Guðsmaðurinn hafði sagt við konunginn: „Um þetta leyti á morgun munu tvær seur af byggi aðeins kosta einn sikil og ein sea af hveiti mun einnig kosta einn sikil á markaði í borgarhliði Samaríu.“ 19 Þessu hafði liðsforinginn svarað þannig: „Þó að Drottinn gerði raufar á himininn gæti þetta ekki átt sér stað.“ En Elísa hafði sagt: „Þú skalt sjá þetta með eigin augum en sjálfur skaltu einskis af því neyta.“ 20 Og þannig fór fyrir honum að fólkið tróð hann undir í borgarhliðinu og lét hann þar lífið.