Postulafundurinn í Jerúsalem

1 Þá komu menn sunnan frá Júdeu og kenndu bræðrunum: „Ef þið látið ekki umskerast að sið Móse getið þið ekki frelsast.“ 2 Varð mikil misklíð og þræta milli þeirra og Páls og Barnabasar og réðu menn af að Páll og Barnabas og nokkrir þeirra aðrir færu á fund postulanna og öldunganna upp til Jerúsalem vegna þessa ágreinings.
3 Söfnuðurinn bjó síðan ferð þeirra og fóru þeir um Fönikíu og Samaríu og sögðu að einnig heiðingjar hefðu snúið sér til Guðs og vöktu mikinn fögnuð meðal allra trúaðra.[
4 Þegar þeir komu til Jerúsalem tók söfnuðurinn á móti þeim og postularnir og öldungarnir og skýrðu þeir frá hversu mikið Guð hefði látið þá gera. 5 Þá risu upp nokkrir úr flokki farísea er trú höfðu tekið og sögðu: „Þá ber að umskera og bjóða þeim að halda lögmál Móse.“
6 Postularnir og öldungarnir komu nú saman til að líta á mál þetta. 7 Eftir mikla umræðu reis Pétur upp og sagði við þá: „Bræður, þið vitið að fyrir löngu valdi Guð mig úr ykkar hópi til að boða heiðingjum fagnaðarerindið svo að þeir fengju að heyra það og taka trú. 8 Og Guð, sem hjörtun þekkir, bar þeim vitni er hann gaf þeim heilagan anda eins og okkur. 9 Engan mun gerði hann á okkur og þeim er hann hreinsaði hjörtu þeirra með trúnni. 10 Hví freistið þið nú Guðs með því að leggja þær byrðar á lærisveinana er hvorki feður vorir né við megnuðum að bera? 11 Við trúum þó því að við verðum hólpnir fyrir náð Drottins Jesú á sama hátt og þeir.“
12 Þá sló þögn á allan hópinn og menn hlýddu á Barnabas og Pál er þeir sögðu frá hve mörg tákn og undur Guð hafði leyft þeim að gera meðal heiðinna þjóða.
13 Þegar þeir höfðu lokið máli sínu sagði Jakob: „Bræður, hlýðið á mig. 14 Símon hefur skýrt frá hvernig Guð sá til þess í fyrstu að hann eignaðist lýð meðal heiðinna þjóða er bæri nafn hans. 15 Í samræmi við þetta eru orð spámannanna svo sem ritað er:
16Eftir þetta mun ég aftur koma
og endurreisa hina föllnu tjaldbúð Davíðs.
Ég mun reisa hana úr rústum
og gera hana upp aftur
17svo að mennirnir, sem eftir eru, leiti Drottins,
allir heiðingjarnir sem nafn mitt hefur helgað,
segir Drottinn, sem gerir þetta
18kunnugt frá eilífð.
19 Ég lít því svo á að eigi skuli íþyngja heiðingjum þeim sem snúa sér til Guðs 20 heldur rita þeim að þeir haldi sig frá öllu sem flekkað er af skurðgoðum, frá saurlifnaði, frá kjöti af köfnuðum dýrum og frá blóði. 21 Frá fornu fari hafa menn prédikað Móse í öllum borgum. Hann er lesinn upp í samkundunum hvern hvíldardag.“
22 Postularnir og öldungarnir, ásamt öllum söfnuðinum, samþykktu þá að kjósa menn úr sínum hópi og senda með Páli og Barnabasi til Antíokkíu. Þeir völdu þá Júdas, er kallaður var Barsabbas, og Sílas, forystumenn í söfnuðinum. 23 Þeir rituðu með þeim:
„Postularnir og öldungarnir, bræður yðar, senda kristnum mönnum[ í Antíokkíu, Sýrlandi og Kilikíu, er áður voru heiðnir, kveðju sína.
24 Vér höfum heyrt að nokkrir frá oss hafi óróað yður með orðum sínum og komið róti á hugi yðar án þess vér hefðum þeim neitt um boðið. 25 Því höfum vér einróma ályktað að kjósa menn og senda til yðar með vorum elskuðu Barnabasi og Páli, 26 mönnum er lagt hafa líf sitt í hættu vegna nafns Drottins vors Jesú Krists. 27 Vér sendum því Júdas og Sílas og boða þeir yður munnlega hið sama. 28 Það er ályktun heilags anda og vor að leggja ekki frekari byrðar á yður en þetta sem nauðsynlegt er, 29 að þér haldið yður frá kjöti, er fórnað hefur verið, skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði. Ef þér varist þetta gerið þér vel. Verið sælir.“
30 Þeir voru nú sendir af stað og komu norður til Antíokkíu, kölluðu saman söfnuðinn og afhentu bréfið. 31 Þegar menn lásu það urðu þeir glaðir yfir þessari uppörvun. 32 Júdas og Sílas, sem sjálfir voru spámenn, hvöttu bræðurna og systurnar[ með mörgum orðum og styrktu þau. 33 Þegar þeir höfðu dvalist þar um hríð kvöddu þeir þau[ og báðu þeim friðar og héldu aftur til þeirra sem höfðu sent þá.[
35 En Páll og Barnabas héldu kyrru fyrir í Antíokkíu, kenndu og boðuðu ásamt mörgum öðrum orð Drottins.

Páll og Barnabas skilja

36 Eftir nokkra daga sagði Páll við Barnabas: „Förum nú aftur og vitjum trúsystkinanna[ í hverri borg þar sem við höfum boðað orð Drottins og sjáum hvað þeim líður.“ 37 Barnabas vildi þá líka taka með Jóhannes er kallaður var Markús. 38 En Páli þótti eigi rétt að taka með þann mann er skilið hafði við þá í Pamfýlíu og ekki gengið að verki með þeim. 39 Varð þeim mjög sundurorða og skildi þar með þeim. Tók Barnabas Markús með sér og sigldi til Kýpur. 40 En Páll kaus sér Sílas og fór af stað og fól söfnuðurinn[ hann náð Drottins. 41 Fór hann um Sýrland og Kilikíu og styrkti söfnuðina.