Ranglátir dómarar

1Vei þeim sem setja ranglát lög
og skjalfesta skaðleg ákvæði
2til að halda umkomulausum frá dómstólum
og ræna þá snauðu meðal þjóðar minnar rétti sínum,
til að féfletta ekkjur
og ræna munaðarlausa.
3Hvað ætlið þér að gera á degi uppgjörsins
þegar illviðrið kemur úr fjarska?
Hjá hverjum ætlið þér að leita ásjár,
hvar ætlið þér að geyma auðæfi yðar?
4Þeir munu hnipra sig saman innan um fanga,
liggja meðal hinna vegnu.
Samt sefaðist reiði Drottins ekki,
hönd hans er enn upp reidd.

Gegn Assýríukonungi

5Vei Assúr, vendi reiði minnar.
Kylfa heiftar minnar er í hendi hans.
6Ég sendi hann gegn guðlausri þjóð,
skipa honum gegn fólki sem ég reiðist,
til að taka herfang og ræna
og traðka fólkið niður eins og for á stræti.
7En þetta er ekki það sem hann ætlar sér,
hann hyggur ekki á þetta.
Hann hefur aðeins eyðingu í huga,
að afmá fjölmargar þjóðir.
8Því að hann hefur sagt:
„Eru ekki allir höfðingjar mínir konungar?
9Fór ekki fyrir Kalne eins og Karkemis,
Hamat eins og Arpad,
fyrir Samaríu eins og Damaskus?
10Hönd mín náði til ríkja þessara skurðgoða
þótt líkneski þeirra væru fleiri
en í Jerúsalem og Samaríu.
11Get ég ekki farið með Jerúsalem og skurðgoðin þar
eins og ég fór með Samaríu og hjáguðina þar?“
12En þegar Drottinn hefur lokið öllu starfi sínu
á Síonarfjalli og í Jerúsalem segir hann:
„Ég mun refsa Assýríukonungi
fyrir ávöxtinn af hroka hans
og drembilegt oflæti augna hans.
13Því að hann segir:
Með afli eigin handar gerði ég þetta
og með eigin skynsemi því að ég er vitur.
Ég færði landamæri þjóða úr stað
og rændi fjársjóðum þeirra
og sem hetja hratt ég konungum þeirra af stóli.
14Líkt og þegar seilst er í hreiður
greip hönd mín í auðæfi þjóðanna.
Eins og yfirgefnum eggjum er safnað
safnaði ég öllum heimsins löndum,
enginn blakaði væng,
lauk upp nefi eða tísti.“
15Hefur öxin sig yfir þann
sem heggur með henni,
hreykir sögin sér yfir þann
sem sagar með henni?
Það væri eins og stafur veifaði þeim
sem lyftir honum
eða kylfa sveiflaði þeim sem ekki er úr tré.
16Þess vegna mun Drottinn, Drottinn allsherjar,
senda uppdráttarsýki í þróttmikla hermenn hans.
Undir dýrð hans mun eldur loga
eins og brennandi bál.
17Ljós Ísraels verður að eldi
og Hinn heilagi Ísraels að loga
sem kveikir í og gleypir þyrna hans og þistla
á einum og sama degi.
18Gróskumiklir skógar hans og aldingarðar
verða upprættir með öllu
eins og sjúklingur sem veslast upp.
19Skógartrén, sem verða eftir, reynast svo auðtalin
að drenghnokki getur skráð þau.

Þeir sem bjargast snúa aftur

20Á þeim degi munu þeir
sem eftir verða af Ísrael
og þeir af ætt Jakobs sem komust af
ekki lengur reiða sig á þann sem sló þá.
Þeir munu reiða sig á Drottin,
Hinn heilaga Ísraels, í trúfesti.
21Leifar munu snúa aftur,
leifar Jakobs, til hins máttuga Guðs.
22 Enda þótt fólksfjöldi þinn, Ísrael,
yrði sem sjávarsandur
munu aðeins leifar snúa aftur:
Eyðing er fastráðin,
réttlætið mun streyma fram.
23 Því að Drottinn, Drottinn allsherjar, mun framkvæma
þá eyðingu sem er fastráðin um alla jörð.
24 Þess vegna segir Drottinn, Drottinn allsherjar:
Þjóð mín, sem býrð á Síon,
óttastu ekki Assúr
sem slær þig með barefli
og reiðir að þér staf sinn eins og Egyptar forðum.
25 Því að eftir skamma hríð er reiði mín á enda
og heift mín mun beinast að eyðingu þeirra.
26 Þá mun Drottinn allsherjar láta svipuna ríða á þeim
eins og þegar hann sigraði Midían hjá Órebkletti.
Hann réttir staf sinn út yfir hafið
eins og í Egyptalandi forðum.
27 Á þeim degi verður byrði hans [ létt af herðum þínum
og oki hans af hálsi þínum
því að okið brestur undan ofurfitu.

Herför gegn Jerúsalem

28 Assúr heldur gegn Ajat,
fer um Mígron,
skilur eftir farangurinn í Mikmas.
29 Þeir fara um skarðið og segja:
„Geba er gististaður vor.“
Rama skelfist, Gíbea Sáls leggur á flótta.
30 Hljóða þú hástöfum, dóttirin Gallím.
Hlustaðu Lejsa,
svaraðu Anatót,
31 Madmena leggur á flótta,
íbúar Gebím sluppu.
32 Í dag er hann í Nób,
hann bendir á fjall dótturinnar Síonar, Jerúsalemhæð.
33 Drottinn, Drottinn allsherjar,
mun höggva laufkrónuna af með ógnarafli,
hæstu tré verða höggvin
og þau sem gnæfa hátt munu lægð.
34 Skógarþykknið verður rutt með öxi
og Líbanon fellur fyrir Hinum volduga.