1Betri er þurr brauðbiti í næði
en veisla í húsi fullu af deilum.
2Hygginn þræll mun drottna yfir spilltum syni
og taka erfðahlut með bræðrunum.
3Deiglan er fyrir silfrið og bræðsluofninn fyrir gullið
en Drottinn prófar hjörtun.
4Illmennið ljær illmælginni eyra,
lygarinn hlýðir á róginn.
5Sá sem hæðir fátækling óvirðir skapara hans,
sá sem hlakkar yfir ógæfu mun svara til saka.
6Barnabörnin eru kóróna öldunganna
og foreldrarnir eru sæmd barnanna. [
7Ekki hæfa heimskum manni stóryrði
og lygin hæfir enn síður göfugum manni.
8Mútan er sem töfragripur þeim er hana þiggur,
hvarvetna kemur hann sínu fram.
9Sá sem breiðir yfir bresti annars leitar vinfengis
en sá sem bregst trúnaði veldur vinaskilnaði.
10Ávítur fá meira á hygginn mann
en hundrað högg á heimskingja.
11Illvirkinn hyggur á uppreisn
en óvæginn sendiboði verður sendur gegn honum.
12Betra er að mæta birnu sem svipt er húnum sínum
en heimskingja í flónsku hans.
13Launi maður gott með illu
víkur ógæfan aldrei frá húsi hans.
14Þegar deila kviknar er sem tekin sé úr stífla,
láttu hana því niður falla áður en sennan hefst.
15Að sýkna sekan og sakfella saklausan,
hvort tveggja er Drottni andstyggð.
16Hvað stoða peningar í hendi heimskingjans
til þess að kaupa speki þar sem vitið er ekkert?
17Vinur lætur aldrei af vináttu sinni,
í andstreymi reynist hann sem bróðir.
18Fávís er sá sem handsalar fyrir náunga sinn
og gengur í ábyrgð fyrir hann.
19Sá sem ann þrætum sækir í yfirsjón,
sá sem gerir þröskuld sinn háan hnýtur um hann.
20Hinn meinfýsni öðlast enga gæfu
og sá sem fer með lygar ratar í vanda.
21Það er mæða að geta af sér heimskingja
og faðir glópsins fagnar ekki.
22 Glatt hjarta veitir góða heilsubót
en dapurt geð tærir beinin.
23 Hinn rangláti dregur fram mútur á laun
til að halla réttinum.
24 Hygginn maður hefur viskuna fyrir augum sér
en augu heimskingjans rása með himinskautum.
25 Heimskur sonur er föður sínum til ama
og angur konunni sem ól hann.
26 Að refsa saklausum er ekki lofsvert,
né heldur að berja á göfugmennum.
27 Hygginn maður er orðvar
og skynsamur maður er fáorður.
28 Jafnvel heimskinginn virðist vitur, þegi hann,
og skynsamur, loki hann vörum sínum.