1Sá sem hefnir sín hlýtur hefnd af Drottni
og hann mun hafa allar syndir hans hugfastar.
2 Fyrirgef öðrum yfirsjónir,
þá munu þínar fyrirgefnar þegar þú biður.
3 Einn ber óvildarhug til annars,
hvernig má slíkur leita líknar hjá Drottni?
4 Sá er sýnir sínum líkum enga miskunn,
hvernig má hann biðja fyrirgefningar eigin synda?
5 Sá sem elur á reiði og er sjálfur dauðlegur maður,
hver mun bæta fyrir syndir hans?
6 Minnstu æviloka og lát af hatri,
minnstu hverfulleikans og dauðans, haltu boðorðin.
7 Minnstu boðorðanna og hata eigi náungann,
minnstu sáttmála Hins hæsta og tak vægt á yfirsjónum.

Um illindi og deilur

8Forðastu illindi og þú munt syndga minna
því að ofsafenginn æsir upp deilur.
9 Syndugur maður spillir vináttu
og vekur upp fjandskap hjá friðsemdarmönnum.
10 Því meira brenni því meira bál,
því meiri þverúð því heitari deilur.
Því máttugri maður því öflugri heift hans
og ofsi hans vex með auknum auði.
11 Bráð reiði veldur heiftarbáli
og við bráðaátök verður blóði úthellt.
12Blásirðu að neista þá funar upp bál
en hann kulnar ef þú skyrpir á hann;
hvort um sig kemur þó af sama munni.

Um róg og slettirekur

13Bölvaður sé rógberinn og sá sem talar tungum tveim,
friði margra hefur hann spillt.
14 Fjölmarga hafa rógberar firrt sálarró,
hrakið þá á flótta land úr landi.
Víggirtar borgir hafa þeir lagt að velli
og hús höfðingja fellt í rúst.
15 Slefberar hafa hrakið dygðugar konur að heiman
og svipt þær ávexti iðju sinnar.
16 Friðlaus verður sá sem á slettireku hlýðir
og fær aldrei setið sæll að sínu.
17 Högg af svipu veldur rákum
en högg tungu brjóta beinin.
18 Margur hefur fallið fyrir sverði
en stórum fleiri hefur tungan fellt.
19 Sæll er sá maður sem hlíft er við rógi
og hefur hvorki orðið fyrir æði hans
né borið ok hans
og aldrei fjötrast af læðingi hans.
20 Því að ok rógsins er úr járni
og viðjar hans af eiri.
21 Rógur veldur vondum dauðdaga
og helja er sælli en að líða fyrir hann.
22 Rógur nær guðhræddum ekki á sitt vald,
rógseldur mun ekki brenna þá.
23 Fórnarlömb rógsins eru þeir sem víkja frá Drottni,
meðal þeirra brennur rógur og slokknar aldrei.
Honum mun sleppt lausum að þeim eins og ljóni,
líkur hlébarða rífur hann þá í sig.
24/25 Þú girðir eign þína þyrnigerði,
haf einnig hurð og slá fyrir munni þínum.
Þú býrð tryggilega um silfur og gull,
veg einnig og met þau orð er þú mælir.
26 Gæt þess að rógur valdi þér ei hrösun,
að þú fallir ekki frammi fyrir þeim sem situr um þig.