Grimmilegar fyrirætlanir Níkanors

1 Níkanor frétti að Júdas og menn hans hefðust við í byggðum Samaríu. Afréð hann að ráðast á þá á hvíldardegi því að það taldi hann sér hættulaust. 2 En þeir Gyðingar sem neyddir höfðu verið til að ganga í lið með honum sögðu: „Deyddu þá fyrir alla muni ekki með slíkri grimmd og villimennsku heldur skalt þú hafa þann dag í heiðri sem Hinn alskyggni hefur heiðrað og gert helgari öllum öðrum dögum.“ 3 Þá spurði varmennið: „Er sá Drottinn til á himni sem hefur boðið að halda skuli hvíldardag?“ 4 Þeir svöruðu: „Það er sjálfur lifandi Drottinn sem ríkir á himnum sem bauð að halda skyldi sjöunda daginn heilagan.“ 5 Þá sagði hann: „En ég ríki líka á jörðu og fyrirskipa að gripið skuli til vopna og farið að fyrirmælum konungs.“
Ekki tókst honum þó að framkvæma þetta svívirðilega áform sitt.

Júdas býr lið sitt til orrustu

6 Af yfirtaks drambi hafði Níkanor einsett sér að reisa sér minnismerki með því að sigra Júdas og menn hans. 7 En Júdas treysti því alltaf fullkomlega og vonardjarfur að Drottinn kæmi sér til hjálpar. 8 Hvatti hann því menn sína til að missa ekki móðinn frammi fyrir árás heiðingjanna heldur hafa hugfast hvernig himinninn hjálpaði þeim áður og vera vongóða um að Hinn almáttugi mundi einnig nú veita þeim hjálp og sigur. 9 Hann hughreysti þá með orðum úr lögmálinu og spámönnunum og minnti þá á orrustur sem þeir höfðu unnið. Þetta jók þeim dirfsku.
10 Þegar hann hafði vakið með þeim bardagamóð gaf hann þeim fyrirmæli og lýsti einnig fyrir þeim sviksemi heiðingjanna og eiðrofum. 11 Hann vígbjó hvern og einn manna sinna, ekki aðeins með skjöldum og spjótum heldur umfram allt með vel völdum hvatningarorðum. Loks sagði hann þeim draum sem var alls trausts verður og létti öllum stórlega í sinni.
12 Sýnin sem honum hafði vitrast var þessi: Ónías, sem fyrrum var æðsti prestur, göfugur maður og góður, kurteis og vinsamlegur í fasi, hógvær og einkar vel máli farinn, og hafði frá bernsku lagt rækt við fegurstu dygðir, stóð með upplyftar hendur og bað fyrir allri þjóð Gyðinga. 13 Auk hans birtist Júdasi maður, stórfenglegur ásýndum, hvítur fyrir hærum og tignarlegur og frá honum stafaði undursamlegum áhrifamætti. 14 Ónías mælti: „Maður þessi, sem ann bræðrum sínum og biður stöðugt fyrir þjóðinni og borginni helgu, er Jeremía, spámaður Guðs.“ 15 Þá hefði Jeremía rétt fram hægri höndina og fengið Júdasi sverð af gulli og sagt um leið: 16 „Taktu við þessu heilaga sverði. Það er Guðs gjöf og með því munt þú fella óvinina.“
17 Fögur orð Júdasar hresstu alla enda voru þau vel fallin til að stappa í menn stálinu og vekja karlmennskuþrótt í hjörtum ungra manna. Ákváðu þeir að setja ekki upp herbúðir heldur ganga djarflega fram og berjast til úrslita því að borgin, trúarbrögðin og musterið voru í hættu. 18 Áhyggja þeirra af konum, börnum, bræðrum og ættingjum lá þeim léttar í rúmi því að þeir óttuðust umfram allt um musterið heilaga.
19 Þeir sem skildir höfðu verið eftir í borginni voru einnig mjög kvíðnir yfir lyktum orrustunnar sem háð var utan borgarinnar.

Ósigur og dauði Níkanors

20 Allir biðu úrslitanna í ofvæni. Óvinirnir höfðu fylkt liði og skipað hernum til árásar með riddaraliði beggja vegna fylkinganna og var fílum komið fyrir á mikilvægum stöðum. 21 Þegar Makkabeus sá hinn mikla herafla sem stefndi að og hve vel hann var búinn alls kyns vopnum og hve ólmir fílarnir voru, hóf hann hendur sínar til himins og ákallaði Drottin sem gerir máttarverk. Hann vissi líka vel að sigur byggist ekki á vopnum heldur veitir Drottinn, samkvæmt ráðsályktun sinni, þeim sigur sem hann verðskulda. 22 Og hann bað með þessum orðum: „Þú, Drottinn, sendir engil þinn á dögum Hiskía konungs í Júdeu og hann felldi nær hundrað áttatíu og fimm þúsund í herbúðum Sanheríbs konungs. 23 Send því nú, þú sem ríkir á himni, góðan engil til að fara fyrir oss og valda ótta og ofboði. 24 Lát þú voldugan arm þinn fella þá sem sækja með guðlasti fram gegn heilögum lýð þínum!“ Þannig lauk hann bæn sinni.
25 Nú sóttu menn Níkanors fram með lúðrablæstri og herópum 26 en Júdas og menn hans héldu gegn óvinunum með ákalli og bænum.
27 Þeir börðust með höndunum en ákölluðu Guð í hjörtum sínum og felldu ekki færri en þrjátíu og fimm þúsund menn. Þeir fögnuðu stórum yfir augljósri opinberun Guðs. 28 Þegar orrustunni lauk og þeir yfirgáfu vígvöllinn fagnandi báru þeir kennsl á Níkanor þar sem hann lá fallinn í öllum herklæðum.
29 Urðu þá köll mikil og kliður og vegsömuðu þeir Drottin á móðurmáli sínu. 30 Og Júdas, sem ávallt hafði með sál og líkama barist feti framar öðrum fyrir hag landa sinna og varðveitt ást á löndum sínum frá æsku, bauð að höfuð Níkanors og armleggur með öxl skyldi afhöggvinn og fluttur til Jerúsalem.
31 Er þangað kom kallaði hann landa sína saman og lét prestana raða sér fyrir framan altarið. Hann lét og sækja setuliðið í virkið 32 og sýndi höfuð hins illa Níkanors og armlegg guðlastarans sem hann hafði rétt með gífuryrðum gegn heilögum bústað Hins almáttuga. 33 Hann lét skera tunguna úr hinum guðlausa Níkanor og bauð að kasta henni fyrir fugla í smábitum og hengja handlegginn fyrir framan musterið sem refsingu fyrir heimsku hans.
34 Allir lofuðu Drottin, sem hafði opinberað sig, beindu lofsöngvum til himins og sögðu: „Lofaður sé hann sem varðveitt hefur musteri sitt óflekkað.“ 35 Þá lét Júdas festa höfuð Níkanors á virkisvegginn sem augljóst tákn fyrir alla um hjálp Drottins.
36 Í almennum kosningum var ákveðið að láta þessa dags alls eigi óminnst heldur halda upp á þrettánda dag tólfta mánaðarins, sem heitir adar á sýrlenskri tungu, en það er dagurinn fyrir Mordekaídaginn.

Niðurlag

37 Þannig fór fyrir Níkanor. Og þar sem borgin hefur æ síðan verið á valdi Hebrea læt ég frásögninni hér lokið. 38 Hafi ég sagt vel frá og farið skipulega með efnið hefur mér orðið að ósk minni. Sé hún illa skrifuð og miður gerð gat ég ekki gert betur.
39 Óblandað vín er óhollur drykkur og sömuleiðis eintómt vatn. En vín vatni blandið er lystugasti drykkur og veldur vellíðan. Á sama hátt ræður efnisskipan því hvort sagan vekur þeim ánægju sem hana lesa. Hér skal svo staðar numið.