Kveðjur

1 Ég bið ykkur fyrir hana systur okkar, Föbe, sem er djákni safnaðarins í Kenkreu. 2 Veitið henni viðtöku vegna Drottins, eins og kristnum ber, og hjálpið henni með allt sem hún þarf að fá hjá ykkur. Hún hefur verið bjargvættur margra, þar á meðal mín sjálfs.
3 Heilsið Prisku og Akvílasi, samverkamönnum mínum í Kristi Jesú. 4 Þau hafa stofnað lífi sínu í hættu fyrir mig. Fyrir það votta ég þeim þakkir, ekki ég einn heldur og allir söfnuðir meðal heiðinna þjóða. 5 Heilsið einnig söfnuðinum sem kemur saman í húsi þeirra. Heilsið Epænetusi, mínum elskaða. Hann er frumgróðinn handa Kristi í Asíu. 6 Heilsið Maríu sem mikið hefur erfiðað fyrir ykkur. 7 Heilsið Andróníkusi og Júníu, ættmennum mínum og sambandingjum. Þau skara fram úr meðal postulanna og gengu Kristi á hönd á undan mér. 8 Heilsið Amplíatusi, elskuðum vini mínum í Drottni. 9 Heilsið Úrbanusi, samverkamanni mínum í Kristi, og Stakkýsi, mínum elskaða. 10 Heilsið Apellesi sem hefur reynst traustur í trúnni á Krist. Heilsið heimilismönnum Aristóbúls. 11 Heilsið Heródíon, ættingja mínum. Heilsið þeim á heimili Narkissusar sem trúa á Drottin. 12 Heilsið Tryfænu og Tryfósu sem erfiða fyrir Drottin. Heilsið Persis, hinni elskuðu, sem hefur starfað svo mikið í þjónustu Drottins. 13 Heilsið Rúfusi, sem Drottinn hefur útvalið, og móður hans sem er mér einnig móðir. 14 Heilsið Asynkritusi, Flegon, Hermesi, Patrobasi, Hermasi og trúsystkinunum[ hjá þeim. 15 Heilsið Fílólogusi og Júlíu, Nerevs og systur hans og Olympasi og öllum heilögum sem með þeim eru. 16 Heilsið hvert öðru með heilögum kossi. Allir söfnuðir Krists senda ykkur kveðju.
17 Ég minni ykkur, systkin,[ á að hafa gát á þeim sem vekja sundurþykki og tæla frá þeirri kenningu sem þið hafið numið. Sneiðið hjá þeim. 18 Slíkir menn þjóna ekki Drottni vorum Kristi heldur eigin maga, og með blíðmælum og fagurgala blekkja þeir hjörtu hrekklausra manna. 19 En hlýðni ykkar er alkunn orðin. Því er ég glaður yfir ykkur og vil að þið séuð vitur í því sem gott er en fákunnandi í því sem illt er. 20 Guð friðarins mun bráðlega sundurmola Satan undir fótum ykkar.
Náðin Drottins vors Jesú Krists sé með yður.[
21 Tímóteus, samverkamaður minn, Lúkíus, Jason og Sósípater, ættmenn mínir, biðja að heilsa ykkur. 22 Ég, Tertíus, sem hef ritað bréfið, bið að heilsa ykkur í nafni Drottins. 23 Gajus, sem hýsir mig og allan söfnuðinn, biður að heilsa ykkur. Erastus, gjaldkeri borgarinnar, og bróðir Kvartus biðja að heilsa ykkur. 24 Náðin Drottins vors Jesú Krists sé með yður. Amen.[
25 En einn hefur máttinn til þess að styrkja yður með fagnaðarerindi mínu, boðskap Jesú Krists. Þar opinberast leyndardómur sem var hulinn þögn um eilífar tíðir 26 en er nú opinber í spámannlegum ritningum og að boði hins eilífa Guðs kunngjörður öllum þjóðum að þær taki hann til sín og trúi. 27 Honum, einum alvitrum Guði, sé sakir Jesú Krists dýrðin um aldir alda. Amen.[