Tjaldbúðin

1 Tjaldbúðina skaltu gera úr tíu tjalddúkum úr tvinnuðu, fínu líni, bláum og rauðum purpura og skarlati. Þú skalt vefa kerúba með myndvefnaði í dúkana. 2 Hver dúkur á að vera tuttugu og átta álna langur og fjögurra álna breiður. Allir dúkarnir eiga að vera jafnstórir. 3 Fimm tjalddúkanna skaltu tengja hvern við annan og hina fimm skaltu einnig tengja hvern við annan. 4 Þú skalt gera lykkjur úr bláum purpura á jaðri annarrar samfellunnar og eins skaltu gera á jaðri endadúksins í hinni samfellunni. 5 Þú skalt gera fimmtíu lykkjur á annan tjalddúkinn og fimmtíu lykkjur á jaðar endadúksins í hinni samfellunni og skulu lykkjurnar standast á. 6 Þú skalt einnig gera fimmtíu króka úr gulli og festa dúkana saman með krókunum svo að tjaldbúðin verði ein og óskipt.
7 Þú skalt gera tjalddúka úr geitahári til að tjalda með yfir búðina, ellefu tjalddúka. 8 Hver dúkur á að vera þrjátíu álna langur og fjögurra álna breiður. Þessir ellefu tjalddúkar skulu vera jafnstórir. 9 Þú skalt tengja fimm dúka sér og sex dúka sér en sjötta dúkinn, á framhlið tjaldsins, skaltu leggja tvöfaldan. 10 Þú skalt gera fimmtíu lykkjur á jaðar endadúksins í samfellunni og fimmtíu lykkjur á jaðar endadúksins í hinni samfellunni. 11 Þú skalt einnig gera fimmtíu króka úr eir og krækja krókunum í lykkjurnar og krækja síðan saman svo að allt verði eitt. 12 En það af tjalddúknum, sem út af stendur, helming þess sem út af hangir, skaltu láta hanga niður af bakhlið tjaldbúðarinnar. 13 En sú alin, sem nær út fyrir hvorum megin á tjalddúknum endilöngum, á að hanga yfir báðar hliðar tjaldbúðarinnar og hylja þær. 14 Þú skalt gera þak yfir tjaldið úr rauðlituðum hrútsskinnum og annað þak úr höfrungahúðum yfir hana.
15 Þú skalt gera þiljuborð í tjaldbúðina, borð úr akasíuviði, sem eiga að standa upp á endann. 16 Hvert borð á að vera tíu álnir á lengd og hálf önnur alin á breidd. 17 Á hverju borði eiga að vera tveir tappar til að tengja þau saman. Þannig skal farið með öll borðin í tjaldbúðina. 18 Þannig skaltu gera borðin í tjaldbúðina: tuttugu borð fyrir suðurhliðina 19 og þú skalt gera fjörutíu sökkla úr silfri undir þessi tuttugu borð, tvo sökkla undir hvert borð, sinn fyrir hvorn tappa. 20 Fyrir hina hlið tjaldbúðarinnar, norðurhliðina, skaltu gera tuttugu borð 21 og fjörutíu sökkla úr silfri, tvo sökkla fyrir hvert borð. 22 Þú skalt gera sex borð fyrir afturgafl tjaldbúðarinnar sem snýr í vestur 23 og þú skalt gera tvö borð fyrir horn tjaldbúðarinnar á bakhliðinni. 24 Þau skulu vera tvöföld að neðan og eins að ofan til fyrsta hrings. Þannig skulu þau bæði vera, þau eiga að vera í báðum hornunum. 25 Þetta eiga að vera átta borð ásamt sökklum úr silfri, sextán sökklum, tveimur undir hverju borði.
26 Þú skalt gera þverslár úr akasíuviði, fimm fyrir þiljuborðin á annarri hlið tjaldbúðarinnar 27 og fimm fyrir þiljuborðin á hinni hlið hennar og fimm þverslár fyrir þiljuborðin á bakhliðinni gegnt vestri. 28 Miðsláin á að vera á miðjum borðunum endanna á milli. 29 Þú skalt leggja borðin gulli og gera hringi úr gulli á þau til að halda þverslánum uppi. Þú skalt einnig leggja slárnar gulli. 30 Síðan skaltu reisa tjaldbúðina á þann hátt sem þér var sýnt á fjallinu.
31 Þú skalt gera fortjald úr bláum purpura, rauðum purpura og skarlati ásamt tvinnuðu, fínu líni. Þú skalt vefa kerúba með myndvefnaði í tjaldið 32 og hengja það með gullnöglum á fjórar súlur úr akasíuviði sem lagðar eru gulli og standa á fjórum sökklum úr silfri. 33 Þú skalt hengja fortjaldið á krókana. Síðan skaltu flytja örkina með sáttmálstákninu inn fyrir fortjaldið svo að fortjaldið skilji á milli hins heilaga og hins allra helgasta. 34 Því næst skaltu leggja lokið á örkina með sáttmálstákninu inni í hinu allra helgasta. 35 En þú skalt setja borðið framan við fortjaldið og ljósastikuna gegnt borðinu við suðurvegg tjaldbúðarinnar, en borðið skaltu setja við norðurvegg hennar. 36 Fyrir inngang tjaldbúðarinnar skaltu gera forhengi úr bláum purpura, rauðum purpura og skarlati ásamt tvinnuðu, fínu líni með myndvefnaði. 37 Fyrir forhengið skaltu gera fimm súlur úr akasíuviði. Þú skalt leggja þær gulli og naglarnir í þeim skulu einnig vera úr gulli. Þú skalt einnig steypa fimm sökkla úr eir undir þær.