Sál hittir Samúel

1 Einu sinni var auðugur maður af Benjamíns ætt. Hann hét Kís og var sonur Abíels Serórssonar, Bekóratssonar, Afíasonar af ættbálki Benjamíns. 2 Hann átti son sem hét Sál. Hann var ungur að aldri og öðrum Ísraelsmönnum glæsilegri. Hann var höfðinu hærri en þeir allir.
3 Einhverju sinni týndust ösnur Kíss, föður Sáls. Hann sagði þá við Sál, son sinn: „Taktu með þér einhvern af vinnumönnunum og búðu þig, farðu síðan og leitaðu að ösnunum.“
4 Þeir fóru um fjalllendi Efraíms og Salísaland en fundu þær ekki. Síðan fóru þeir um Saalímlandsvæðið en urðu þeirra ekki varir og loks um land Benjamíns án þess að finna þær.
5 Þegar þeir voru komnir inn í Súfhérað sagði Sál við vinnumanninn sem með honum var: „Komdu, við skulum snúa við svo að faðir minn hafi ekki meiri áhyggjur af okkur en ösnunum.“ 6 En vinnumaðurinn svaraði: „Sjá, í þessari borg býr guðsmaður. Hann er mikils virtur því að allt sem hann segir fyrir um kemur fram. Við skulum fara þangað. Ef til vill getur hann sagt okkur til vegar.“ 7 Sál sagði við vinnumanninn: „Já, við skulum fara en hvað eigum við að færa manninum? Við eigum ekkert brauð eftir í töskunum og enga gjöf til að færa guðsmanninum, eða er það?“ 8 Vinnumaðurinn svaraði Sál og sagði: „Jú, ég er með fjórðung úr silfursikli með mér. Ég skal gefa guðsmanninum hann svo að hann segi okkur til vegar.“
9 Áður fyrr, þegar einhver í Ísrael ætlaði að leita úrskurðar Drottins, sagði hann jafnan: „Komum, við skulum fara til sjáandans.“ Því að sá sem nú er nefndur spámaður var fyrrum nefndur sjáandi.
10 Sál sagði við vinnumanninn: „Þú hefur rétt að mæla. Komdu, við skulum fara þangað.“ Síðan héldu þeir til borgarinnar þar sem guðsmaðurinn bjó. 11 Á leið sinni upp brekkuna til borgarinnar mættu þeir nokkrum stúlkum, sem voru að sækja vatn, og þeir spurðu þær: „Hvar er sjáandinn?“ 12 Þær svöruðu: „Hann er þarna rétt á undan ykkur. Flýtið ykkur. Hann var að koma til borgarinnar því að í dag ætlar fólkið að færa sláturfórn á fórnarhæðinni. 13 Þið mætið honum um leið og þið komið inn í borgina áður en hann fer upp á fórnarhæðina til að taka þátt í máltíðinni. Fólkið byrjar ekki að borða fyrr en hann kemur því að hann á að blessa sláturfórnina. Að því loknu byrja gestirnir að borða. Farið þið nú upp eftir. Þá munuð þið finna hann undireins.“ 14 Þeir héldu þá áfram til borgarinnar og er þeir gengu inn í borgina mættu þeir Samúel sem var á leið upp á fórnarhæðina.
15 Daginn áður en Sál kom hafði Drottinn talað til Samúels og sagt: 16 „Um þetta leyti á morgun sendi ég til þín mann frá landi Benjamíns. Þú skalt smyrja hann til höfðingja yfir þjóð mína, Ísrael. Hann mun frelsa þjóð mína úr höndum Filistea. Ég hef séð neyð þjóðar minnar og hróp hennar á hjálp hefur borist til mín.“ 17 Um leið og Samúel kom auga á Sál sagði Drottinn við hann: „Þetta er maðurinn sem ég sagði þér frá. Hann skal stjórna þjóð minni.“
18 Sál sneri sér að Samúel mitt í borgarhliðinu og spurði hann: „Geturðu sagt mér hvar sjáandinn býr?“ 19 Samúel svaraði og sagði: „Ég er sjáandinn. Farðu á undan mér upp á fórnarhæðina. Þið skuluð borða með mér í dag. En í fyrramálið fylgi ég þér áleiðis eftir að hafa veitt þér svör við öllu sem þér býr í brjósti. 20 Hugsaðu ekki meira um ösnurnar, sem villtust frá þér fyrir þremur dögum, því að þær eru fundnar. En hverjum mun hlotnast allt hið eftirsóknarverðasta í Ísrael nema þér og fjölskyldu þinni?“ 21 Sál svaraði og sagði: „Er ég ekki aðeins Benjamíníti, af minnsta ættbálki Ísraels? Er ætt mín ekki sú lítilmótlegasta meðal allra ættanna í Benjamín? Hvernig getur þú sagt annað eins og þetta við mig?“
22 Samúel tók Sál og vinnumann hans með sér og leiddi þá inn í matsalinn. Hann skipaði þeim til sætis efst meðal gestanna sem voru um það bil þrjátíu. 23 Síðan sagði Samúel við matsveininn: „Komdu nú með lambið sem ég fékk þér og bað þig að taka frá.“ 24 Matsveinninn sótti þá lærið, lyfti því upp og setti það fyrir Sál. En Samúel sagði: „Hér er það sem þér var ætlað. Taktu nú til matar þíns og snæddu því að þetta var geymt handa þér til þessarar stundar frá því að ég sagði: Ég hef boðið gestunum.“ Þennan dag snæddi Sál með Samúel. 25 Síðan gengu þeir niður af fórnarhæðinni inn í borgina. Þegar búið hafði verið um Sál á þakinu 26 lagðist hann til svefns.
Við sólarupprás kallaði Samúel til Sáls uppi á þakinu og sagði: „Farðu á fætur. Ég ætla að fylgja þér á leið.“ Sál fór á fætur og þeir gengu saman út, hann og Samúel. 27 Þegar þeir komu að borgarmörkunum sagði Samúel við Sál: „Segðu vinnumanninum að fara á undan okkur en staldraðu við stundarkorn, ég ætla að flytja þér orð Guðs.“