Ljóð um spekina

1Silfur er að finna í námum
og gull á sér hreinsunarstað.
2Járn er grafið úr jörðu
og eir er bræddur úr grjóti.
3Menn héldu myrkrinu í skefjum
þegar þeir könnuðu grjót í dimmu og niðamyrkri.
4Þeir grafa göng fjarri mannabyggð,
gleymdir, án fótfestu,
hanga þeir mönnum fjarri,
sveiflast fram og aftur.
5Úr jörðu kemur korn í brauð
en iðrum hennar er umbylt eins og af eldi,
6í grjóti hennar er safír að finna
og í því eru gullkorn.
7Veginn þangað þekkir ránfuglinn ekki
og valsaugað hefur hann aldrei litið,
8stolt rándýr feta hann ekki
og ljónið gengur hann ekki.
9Á tinnusteina leggur maðurinn hönd sína,
umturnar fjöllunum frá rótum,
10heggur göng gegnum björg
og kemur auga á alls kyns gersemar.
11Hann lokar seytlandi vatnsæðum
og ber hið hulda út í birtuna.
12En spekin, hvar er hana að finna
og hvar á skilningurinn heima?
13Enginn ratar til hennar,
á landi lifenda er hana hvergi að finna.
14Frumdjúpið segir: „Í mér er hún ekki,“
og hafið segir: „Ekki er hún hjá mér.“
15Fyrir skíragull fæst hún ekki
og silfur verður ekki fyrir hana vegið.
16Ófírgull nær ekki andvirði hennar,
ekki heldur dýrindis karneól eða safír.
17Hvorki gull né gler jafnast á við hana,
í skiptum fyrir gullker fæst hún ekki
18svo að ekki sé minnst á kóral eða kristal.
Að eiga spekina er dýrmætara en perlur.
19Tópas frá Kús jafnast ekki á við hana
og skírasta gull nægir ekki sem borgun.
20Já, spekin, hvaðan kemur hún,
hvar á skilningurinn heima?
21Hún er hulin augum allra sem lifa,
falin fuglum himinsins.
22 Undirheimar og dauði segja:
„Aðeins orðspor hennar hefur borist oss til eyrna.“
23 Guð þekkir leiðina til hennar,
veit hvar hana er að finna
24 því að hann sér til ystu marka jarðar,
lítur allt undir himninum.
25 Þegar hann gaf vindinum styrk
og ákvað umfang hafsins,
26 setti regninu reglur
og markaði þrumuskýjunum braut,
27 þá sá hann spekina og sagði frá henni,
rannsakaði hana og staðfesti.
28 En við manninn sagði hann:
„Það er speki að óttast Drottin,
viska að forðast illt.“