Sigur yfir Ammónítum

1 Nahas frá Ammón hélt í herför og settist um Jabes í Gíleað. Þá sögðu Jabesbúar við Nahas: „Gerðu sáttmála við okkur, þá verðum við þér undirgefnir.“ 2 Ammónítinn Nahas svaraði þeim: „Ég skal gera sáttmála við ykkur með því skilyrði að ég fái að stinga hægra augað úr ykkur öllum og hæða þannig allan Ísrael.“
3 Öldungar Jabesborgar svöruðu honum: „Gefðu okkur sjö daga frest svo að við getum sent boðbera um allt land Ísraels. Sé þar enginn sem getur bjargað okkur gefumst við upp fyrir þér.“
4 Þegar sendimennirnir komu til Gíbeu Sáls og báru upp erindi sitt við íbúana tóku allir að gráta hástöfum. 5 En rétt í því kom Sál á eftir nautum sínum úr haganum og spurði: „Hvað er að fólkinu, af hverju grætur það?“ Honum var þá sagt frá erindi mannanna frá Jabes. 6 Þegar Sál heyrði það kom andi Guðs yfir hann og reiði hans blossaði upp. 7 Hann tók tvö naut, hjó þau í smátt og sendi hlutana með sendiboðunum um allt land Ísraels og lét þessa orðsendingu fylgja: „Þannig fer fyrir nautum hvers þess manns sem ekki fylgir Samúel og Sál.“ Þá kom ótti Drottins yfir fólkið og það hélt út í stríðið sem einn maður. 8 Þegar Sál kannaði liðið í Besek reyndust Ísraelsmenn þrjú hundruð þúsund og Júdamenn þrjátíu þúsund.
9 Þá sagði hann við sendiboðana sem komnir voru: „Skilið þessu til Jabesbúa í Gíleað: Á morgun, áður en sól er hæst á lofti, berst ykkur hjálp.“
Jabesbúar glöddust er sendiboðarnir fluttu þeim þessi boð 10 og sögðu við Ammónítana: „Á morgun gefumst við upp fyrir ykkur. Þá getið þið gert við okkur það sem ykkur sýnist.“
11 Morguninn eftir skipti Sál liðinu í þrjár fylkingar. Um morgunvökuna brutust liðsmenn hans inn í herbúðir Ammóníta og er sól var hæst á lofti höfðu þeir gengið milli bols og höfuðs á þeim. Þeim sem sluppu lifandi var tvístrað svo að hvergi voru tveir saman sem komist höfðu lífs af.
12 Þá sagði fólkið við Samúel: „Hver var það sem spurði: Á Sál að ríkja yfir okkur? Leiðið mennina fram svo að við getum drepið þá.“ 13 En Sál sagði: „Í dag verður enginn tekinn af lífi því að á þessum degi hefur Drottinn bjargað Ísrael.“
14 En Samúel sagði við fólkið: „Komið, við skulum fara til Gilgal og endurnýja þar konungdóminn.“ 15 Því næst gekk allt fólkið þangað og gerði Sál að konungi fyrir augliti Drottins í Gilgal. Það slátraði heillafórnum fyrir augliti Drottins. Sál og allir Ísraelsmenn glöddust mjög.