Skrúði prestanna

1 Þeir gerðu glitofin klæði fyrir þjónustuna í helgidóminum úr bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnuðu, fínu líni. Þeir gerðu einnig hin heilögu klæði handa Aroni eins og Drottinn hafði boðið Móse.
2 Hann gerði hökulinn úr gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnuðu, fínu líni. 3 Þeir slógu gullþynnur og skáru þær í þræði til að vefa í bláan purpura, rauðan purpura, skarlat og tvinnað, fínt lín. 4 Þeir gerðu tvo axlahlýra á hökulinn og festu báða enda þeirra í hann. 5 Hökullindinn var af sömu gerð og fastur við hann. Hann var úr gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnuðu, fínu líni. 6 Þeir greyptu sjóamsteinana í gullumgjarðir, grófu í þá nöfn Ísraels sona eins og á innsigli. 7 Hann festi steinana á hlýra hökulsins sem steina til að minna á syni Ísraels eins og Drottinn hafði boðið Móse.
8 Hann gerði brjóstskjöldinn með glitvefnaði eins og hökulinn, úr gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og fínu, tvinnuðu líni. 9 Hann var ferhyrndur. Þeir gerðu hann tvöfaldan, spannarlangan og spannarbreiðan og brutu hann saman tvöfaldan. 10 Þeir settu hann steinum í fjórum röðum: rúbín, tópas og smaragð í fyrstu röðina, 11 granat, safír og jaspis í aðra röðina, 12 ópal, agat og ametýst í þá þriðju og 13 krýsólít, sjóam og ónyx í þá fjórðu. Þeir voru greyptir í gullumgjörð þegar þeir voru festir. 14 Steinarnir samsvöruðu nöfnum sona Ísraels og voru tólf eins og nöfn þeirra. Sitt nafnið var á hverjum þeirra, grafið eins og á innsigli, eftir tólf ættbálkum Ísraels. 15 Þeir gerðu gullfestar fyrir brjóstskjöldinn, fléttaðar eins og reipi. 16 Þeir gerðu tvær umgjarðir úr gulli og tvo hringi úr gulli og festu báða hringina í tvö horn brjóstskjaldarins. 17 Síðan festu þeir báðar gullflétturnar við þessa tvo hringi á hornum hans. 18 Hina endana á báðum fléttunum festu þeir við umgjarðirnar tvær og festu þær síðan við hlýra hökulsins framanverða. 19 Þeir gerðu aðra tvo hringi úr gulli og festu þá í hin tvö horn brjóstskjaldarins að innanverðu, í þá brún sem vissi að höklinum. 20 Þeir gerðu enn tvo hringi úr gulli og festu þá neðan á báða hlýra hökulsins að framanverðu þar sem hann var festur saman ofan við lindann. 21 Þeir bundu brjóstskjöldinn fastan með purpurablárri snúru sem lá úr hringjum hans og í hringi hökulsins. Brjóstskjöldurinn var þannig ofan við lindann og gat ekki losnað frá höklinum eins og Drottinn hafði boðið Móse.
22 Hann gerði kápuna sem fylgdi höklinum. Hún var öll ofin úr purpurabláu efni. 23 Á henni miðri var hálsmál líkt og á brynju, faldað með ofnum borða svo að ekki rifnaði út úr. 24 Þeir gerðu granatepli á slóða kápunnar úr bláum purpura, rauðum purpura og tvinnuðu hárauðu bandi 25 og þeir gerðu bjöllur úr skíru gulli og festu þær á milli granateplanna á slóða kápunnar hringinn í kring, 26 gullbjöllu og granatepli til skiptis hringinn í kring á slóða kápunnar. Þetta var ætlað til þjónustunnar eins og Drottinn hafði boðið Móse.
27 Þeir gerðu kyrtla handa Aroni og sonum hans, ofna úr fínu líni, 28 vefjarhött úr fínu líni og höfuðdúka úr fínu líni, línbuxur úr tvinnuðu, fínu líni, 29 glitofið belti úr tvinnuðu, fínu líni, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati eins og Drottinn hafði boðið Móse.
30 Þeir gerðu blóm úr skíru gulli, hið heilaga höfuðdjásn, og grófu á það eins og á innsigli: Helgaður Drottni. 31 Þeir festu það á snúru úr purpurabláu efni og komu því fyrir ofan á vefjarhettinum eins og Drottinn hafði boðið Móse.

Verklok

32 Þannig var lokið öllu verki við bústaðinn, samfundatjaldið, og Ísraelsmenn gerðu allt nákvæmlega eins og Drottinn hafði boðið Móse.
33 Síðan komu þeir með tjaldbúðina til Móse, tjaldið og öll áhöld sem fylgdu því, krókana, þiljuborðin, þverslárnar, súlurnar, sökklana, 34 þakið úr rauðlituðum hrútsskinnum, þakið úr höfrungahúðum, forhengið, 35 sáttmálsörkina, stengurnar og lok arkarinnar, 36 borðið ásamt öllum áhöldum þess, skoðunarbrauðin, 37 gullljósastikuna ásamt lömpunum, sem sátu í röð, og öllum áhöldum, sem tilheyrðu henni, olíu fyrir lampana, 38 gullaltarið, smurningarolíuna, hið ilmandi reykelsi, hengið fyrir tjalddyrnar, 39 eiraltarið ásamt grindverkinu, sem heyrði því til, og stöngunum og öllum áhöldum þess, kerið ásamt stétt þess, 40 tjöld forgarðsins, súlur hans ásamt sökklum, hengið fyrir inngang forgarðsins, stög hans ásamt tjaldhælum og öll áhöldin fyrir þjónustuna í bústaðnum, í samfundatjaldinu, 41 glitklæðin fyrir þjónustuna í helgidóminum, hin helgu klæði handa Aroni presti og klæðin handa sonum hans, ætluð til prestsþjónustunnar. 42 Ísraelsmenn höfðu unnið allt verkið nákvæmlega eins og Drottinn hafði boðið Móse. 43 Móse virti fyrir sér allt verkið og sá að þeir höfðu unnið það eins og Drottinn hafði boðið. Þannig höfðu þeir framkvæmt það og Móse blessaði þá.