Ýmis ákvæði um guðsdýrkun og samfélag

1 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 „Ávarpaðu allan söfnuð Ísraelsmanna og segðu: Verið heilagir því að ég, Drottinn, Guð ykkar, er heilagur.
3 Sérhver skal virða móður sína og föður og halda hvíldardaga mína. Ég er Drottinn, Guð ykkar.
4 Snúið ykkur ekki að hjáguðum og gerið ykkur ekki steyptar guðamyndir. Ég er Drottinn, Guð ykkar.
5 Þegar þið slátrið dýri í lokasláturfórn handa Drottni skuluð þið slátra því þannig að þið hljótið velþóknun hans. 6 Þið skuluð neyta þess sama dag og þið slátrið því eða daginn eftir. Á þriðja degi skal það sem þá er eftir brennt í eldi. 7 Sé einhvers af því neytt á þriðja degi er það orðið óhreint: fórnin er ekki velþóknanleg. 8 Sá sem neytir þess skal bera sekt sína því að hann hefur vanhelgað helgigjöf Drottins. Sá maður skal upprættur úr þjóð sinni.
9 Þegar þið skerið upp kornið í landi ykkar skaltu hvorki hirða af ysta útjaðri akurs þíns né dreifarnar á akri þínum. 10 Þú skalt hvorki tína allt í víngarði þínum né hirða ber sem falla í víngarði þínum. Þú skalt skilja þetta eftir handa hinum fátæka og aðkomumanninum. Ég er Drottinn, Guð ykkar.
11 Þið megið hvorki stela né svíkja og ekki hlekkja hver annan. 12 Þið skuluð ekki sverja meinsæri við nafn mitt svo að þú vanhelgir ekki nafn mitt. Ég er Drottinn.
13 Þú skalt hvorki féfletta náunga þinn né ræna hann. Laun daglaunamanns skulu ekki vera í þinni vörslu næturlangt til næsta morguns.
14 Þú mátt hvorki formæla heyrnarlausum manni né setja hindrun í veg fyrir blindan. Þú skalt bera lotningu fyrir Guði þínum. Ég er Drottinn.
15 Þið megið ekki fremja ranglæti í réttinum. Þú mátt hvorki draga taum hins valdalausa né vera hinum valdamikla undirgefinn. Þú skalt dæma skyldmenni þín af réttlæti. 16 Þú mátt hvorki bera róg á meðal landa þinna né krefjast blóðs náunga þíns. Ég er Drottinn.
17 Þú skalt ekki bera hatur í brjósti til bróður þíns heldur átelja hann einarðlega svo að þú berir ekki sekt hans vegna. 18 Þú skalt ekki hefna þín á löndum þínum. Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Drottinn.
19 Þið skuluð fara að fyrirmælum mínum:
Þú skalt ekki láta tvær tegundir fénaðar para sig. Þú skalt ekki sá tvenns konar korni í akur þinn. Þú skalt ekki bera klæði sem ofin eru úr tvenns konar bandi.
20 Leggist maður með konu, sem er ambátt og heitbundin öðrum manni en hefur ekki enn verið keypt frjáls eða gefið frelsi, liggur refsing við. Þau skulu þó ekki líflátin af því að hún hafði ekki fengið frelsi. 21 Maðurinn skal færa Drottni sektarfórn sína og leiða hrút, sem ætlaður er í sektarfórn, að dyrum samfundatjaldsins. 22 Með hrútnum, sem ætlaður er í sektarfórn, skal presturinn friðþægja fyrir hann frammi fyrir augliti Drottins vegna þeirrar syndar sem hann hefur drýgt. Þá verður syndin fyrirgefin sem hann hefur drýgt.
23 Þegar þið komið inn í landið og gróðursetjið alls konar tré, sem bera æta ávexti, skuluð þið líta á ávextina sem forhúð þeirra. Í þrjú ár skuluð þið líta á þau sem óumskorin og ekki neyta ávaxta þeirra. 24 Á fjórða ári skal helga Drottni alla ávexti þeirra á gleðihátíð.
25 En á fimmta ári megið þið neyta ávaxta þeirra og hirða það sem trén gefa af sér. Ég er Drottinn.
26 Þið skuluð ekki neyta neins sem blóð er í. Þið skuluð hvorki stunda spásagnir eftir fyrirboðum né galdur. 27 Þið skuluð ekki krúnuraka höfuð ykkar. Þú skalt ekki snyrta skegg þitt. 28 Þið skuluð hvorki rista sár í húð ykkar vegna látins manns né láta húðflúra tákn á ykkur. Ég er Drottinn.
29 Smánaðu ekki dóttur þína með því að láta hana stunda hórdóm svo að landið hórist ekki og fyllist ólifnaði.
30 Þið skuluð halda hvíldardaga mína og bera lotningu fyrir helgidómi mínum.
31 Snúið ykkur hvorki til miðla né þeirra sem flytja spámæli frá öndum. Ef þið leitið til þeirra óhreinkist þið. Ég er Drottinn, Guð ykkar.
32 Þú skalt standa upp fyrir hinum gráhærða og virða öldunga. Þú skalt sýna Guði þínum lotningu. Ég er Drottinn.
33 Þegar aðkomumaður dvelur hjá ykkur skuluð þið ekki sýna ójöfnuð. 34 Aðkomumaður, sem dvelur hjá ykkur, skal njóta sama réttar og innborinn maður. Þú skalt elska hann eins og sjálfan þig því að þið voruð aðkomumenn í Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð ykkar.
35 Þið skuluð ekki hafa rangt við fyrir rétti hvað varðar stiku, vigt og mæli. 36 Þið skuluð nota rétta vigt, rétta vigtarsteina, rétta efu og rétta hín. Ég er Drottinn, Guð ykkar, sem leiddi ykkur út úr Egyptalandi. 37 Haldið öll lög mín og reglur og farið að þeim. Ég er Drottinn.“