Parþar taka Demetríus II til fanga

1 Árið eitt hundrað sjötíu og tvö[ safnaði Demetríus konungur liði sínu og hélt til Medíu til að afla sér liðstyrks til hernaðar gegn Trýfoni. 2 En þegar Arsakes, konungur Persa og Medíu, hafði spurnir af því að Demetríus væri kominn í land sitt sendi Arsakes einn hershöfðingja sinna til að ná honum lifandi á sitt vald. 3 Hershöfðinginn fór þegar og sigraði her Demetríusar, tók hann höndum og fór með hann til Arsakesar sem setti hann í fangelsi.

Lofgjörð um Símon

4Í landinu varð friður um daga Símonar.
Hann vann að heill þjóðar sinnar.
Vald hans og tign var henni til gleði
svo lengi sem hann lifði.
5 Auk allra annarra dáða vann hann Joppe
sem varð hafnarborg og opnaði leið til eyja hafsins.
6 Hann færði út landamæri þjóðar sinnar
og styrkti völd sín í landi.
7 Hann leiddi fjöld herfanga heim,
náði völdum í Geser og Bet Súr
og virkinu í Jerúsalem.
Þaðan hrakti hann allt óhreint,
enginn reis gegn honum.
8 Menn gátu ræktað land sitt í friði,
jörðin gaf af sér
og tré merkurinnar báru ávexti.
9 Öldungar sátu á strætum úti,
skeggræddu hagfelldar tíðir,
en æskumenn klæddust veglegum herskrúða.
10 Símon birgði borgirnar upp,
bjó þær máttugum vopnum til varnar
svo að orðstír hans barst til endimarka jarðar.
11 Hann kom á friði í landi
og mikill fögnuður ríkti í Ísrael.
12 Sérhver sat undir vínvið sínum eða fíkjutré
og stóð ekki beygur af neinum.
13 Enginn réðst lengur að þeim í landinu,
á þeim dögum var vald konunga brotið á bak aftur.
14 Hann var stoð bágstöddum meðal þjóðar sinnar.
Ritningarnar rannsakaði Símon
og afmáði alla sem níddu lögmálið og voru illir.
15 Hann jók vegsemd helgidómsins
og fjölgaði helgum áhöldum hans.

Bandalag við Rómverja og Spartverja endurnýjað

16 Tíðindin um dauða Jónatans bárust til Rómar og Spörtu og vöktu þau mikla hryggð. 17 Þegar Rómverjar heyrðu að Símon bróðir hans væri tekinn við æðstaprestsembættinu og hefði borgir og land á valdi sínu 18 rituðu þeir honum bréf á eirtöflur til að endurnýja þá vináttu og bandalag sem þeir áður gerðu við Júdas og Jónatan, bræður hans. 19 Var bréf þeirra lesið upp fyrir söfnuðinn í Jerúsalem. 20 Hér fer á eftir afrit af bréfinu sem Spartverjar sendu:
„Leiðtogar Spartverja og borgarbúar senda Símoni æðsta presti kveðju, sem og öldungum, prestum og allri Gyðingaþjóð sem er bræður okkar. 21 Sendimenn þeir sem þið senduð til þjóðar okkar hafa greint okkur frá vegsemd ykkar og heiðri og gladdi heimsókn þeirra okkur. 22 Erindi þeirra höfum við skráð í þjóðarsamþykktirnar sem hér segir:
Númeníus Antíokkusson og Antípater Jasonarson, fulltrúar Gyðinga, eru komnir til okkar til að endurnýja vináttu við okkur. 23 Ákvað þjóðin að taka veglega á móti þeim, skrá orð þeirra og koma afriti fyrir í ríkisskjalasafni svo að Spartverjar eigi þau til minja.
Afrit af skjalinu er hér með sent Símoni æðsta presti.“
24 Síðan sendi Símon Númeníus til Rómar með stóran gullskjöld sem vó eitt þúsund mínur til að staðfesta bandalagið við þá.

Þjóðin launar Símoni

25 Þegar þetta barst landslýð til eyrna sagði hver við annan: „Hvernig eigum við að sýna Símoni og sonum hans þakklæti okkar? 26 Hann og bræður hans og fjölskylda föður hans hafa sýnt staðfestu og hrundið óvinum Ísraels af höndum og tryggt þjóðinni frelsi.“ Var áletrun gerð á eirskjöld sem komið var fyrir á súlum á Síonfjalli. 27 Hér fylgir afrit af því sem þar var skráð:
„Átjánda dag elúlmánaðar árið eitt hundrað sjötíu og tvö,[ það er þriðja stjórnarár Símonar æðsta prests og saramels, 28 var okkur kunngjört eftirfarandi á mikilli samkomu presta, þjóðar og leiðtoga landsins:
29 Oft hefur landið verið hrjáð af styrjöldum en Símon Mattatíasson af ætt Jójaríbs og bræður hans hafa stefnt lífi sínu í hættu með því að veita andstæðingum þjóðar sinnar mótspyrnu til að tryggja að helgidómur hennar og lögmál fengi haldist. Þeir hafa aukið hróður þjóðar sinnar stórum. 30 Jónatan sameinaði þjóð þeirra og varð æðsti prestur hennar. Þegar hann safnaðist til feðra sinna 31 ætluðu óvinir þjóðarinnar að ráðast inn í landið til að eyða því og spilla helgidóminum. 32 Þá gekk Símon fram fyrir skjöldu og barðist fyrir þjóð sína. Hann varði miklu af eigum sínum til að búa hermenn þjóðar sinnar vopnum og gjalda þeim mála. 33 Víggirti hann borgir Júdeu, einkum Bet Súr við landamæri Júdeu þar sem vopnabúr óvina var áður. Þar kom hann fyrir setuliði Gyðinga. 34 Einnig víggirti hann Joppe við hafið og Geser sem liggur að byggðum Asdód. Í þeim borgum bjuggu fyrr meir óvinir en Símon byggði þær Gyðingum og sá þeim fyrir öllu sem þeir þurftu til viðurværis. 35 Þegar þjóðin sá trúfesti Símonar og það sem hann vildi vinna henni til vegsemdar gerði þjóðin hann að leiðtoga sínum og æðsta presti í þakkar skyni fyrir allt sem hann hafði unnið henni vel og fyrir að hafa ætíð sýnt henni réttlæti og trúfesti. Í öllu hafði hann leitast við að hefja þjóð sína til vegs.
36 Á dögum hans og undir stjórn hans auðnaðist að hrekja heiðingjana úr landi, einnig þá sem héldu til í Davíðsborg í Jerúsalem. Þeir höfðu gert sér virki og gerðu iðulega úthlaup þaðan, saurguðu allt umhverfi helgidómsins og spilltu hreinleik hans mjög. 37 Kom Símon Gyðingum fyrir í virkinu, víggirti það til verndar landi og borg og hækkaði múra Jerúsalem. 38 Sökum þessa staðfesti Demetríus konungur æðstaprestdóm Símonar, 39 gerði hann að vini konungs og veitti honum mikla vegsemd. 40 Enda hafði hann líka frétt að Rómverjar veittu sendimönnum Símonar veglegar móttökur og lýstu Gyðinga vini sína, bræður og bandamenn.
41 Af þessum ástæðum hafa Gyðingar og prestarnir ákveðið að Símon skuli vera leiðtogi og æðsti prestur til frambúðar, allt þar til sannur spámaður kemur fram. 42 Skal hann og vera hershöfðingi þeirra og ala önn fyrir helgidóminum og skal hann og hafa vald til að setja menn yfir störf í almannaþágu, landið, vopnin og virkin. 43 Hann skal bera ábyrgð á helgidóminum og allir skulu hlýða honum. Allir samningar í landinu skulu miðaðir við stjórnartíð hans. Hann skal bera purpurakyrtil og gullmen. 44 Engum af landslýð, hvorki lærðum né leikum, er heimilt að fella neitt þessara ákvæða úr gildi eða mæla móti neinu sem Símon hefur sagt. Hvorki er neinum heimilt að stefna fólki saman nokkurs staðar í landinu án hans leyfis né að klæðast purpura eða bera gullsylgju. 45 Sérhverjum skal hegnt sem brýtur gegn einhverju þessara ákvæða eða fellir eitthvert þeirra úr gildi. 46 Allur landslýður hefur samþykkt að veita Símoni þau réttindi sem að ofan greinir. 47 Símon hefur fallist á ákvörðun þessa og að gegna embætti æðsta prests, hershöfðingja og þjóðhöfðingja Gyðinga og prestanna og stýra öllum málum þeirra.
48 Ákveðið var að þessi ákvæði skyldu rituð á eirspjöld og þau hengd upp á áberandi stað á musterissvæðinu. 49 Afrit skal leggja í fjárhirsluna, Símoni og sonum hans til eignar.“