Þriðji ræðukafli

Þriðja ræða Elífasar

1 Elífas frá Teman svaraði og sagði:
2Vinnur maðurinn Guði gagn?
Nei, vitur maður vinnur sjálfum sér gagn.
3Gleðst Hinn almáttki yfir réttlæti þínu?
Er honum ávinningur að lýtalausri breytni þinni?
4Ávítar hann þig fyrir guðsótta þinn
og dregur þig fyrir dóm?
5Er illska þín ekki mikil,
eru afbrot þín ekki óþrjótandi?
6Þú veðsetur landa þína að ástæðulausu,
afklæðir fólk og skilur eftir nakið.
7Örþyrstum gafstu ekki vatn að drekka,
synjaðir hungruðum brauðs.
8Sterkur maður á landið
og í því býr mikils virtur maður.
9Þú sendir ekkjur frá þér tómhentar
og braust niður mátt munaðarleysingja,
10þess vegna ertu umkringdur snörum
og óvænt skelfing hræðir þig,
11myrkur byrgir þér sýn
og vatnsflaumur færir þig í kaf.
12Er Guð ekki himinhár?
Sjá, hve fjarlægustu stjörnur eru hátt uppi.
13En þú spyrð: „Hvað veit Guð,
getur hann dæmt það sem er handan við skýsortann?
14Ský hylja hann svo að hann sér ekkert,
hann gengur á himinhvelfingunni.“
15Ætlar þú að feta hinn forna stíg
sem illmenni tróðu?
16Þeim var kippt burt fyrir aldur fram,
grundvöllur þeirra skolaðist burt.
17Þau sögðu við Guð: „Farðu frá oss,“
og: „Hvað getur Hinn almáttki gert oss?“
18Samt fyllti hann hús þeirra gæðum
en fyrirætlanir óguðlegra eru fjarri mér.
19Réttlátir sáu þetta og glöddust,
saklausir hæddu þá:
20„Andstæðingum vorum var tortímt
og eldur gleypti þá sem eftir voru.“
21Náðu sáttum við Guð og lifðu í friði.
Þá hlýturðu velgengni.
22 Þiggðu ráð úr munni hans,
leggðu þér orð hans á hjarta.
23 Snúirðu þér til Hins almáttka og auðmýkir þig,
haldir rangindum frá tjaldi þínu,
24 varpir skíragulli í duftið
og Ófírgulli í lækjarmölina,
25 verður Hinn almáttki þér skíragull
og skínandi silfur,
26 þá muntu gleðjast yfir Hinum almáttka
og hefja auglit þitt til Guðs.
27 Biðjir þú til hans bænheyrir hann þig
og þú munt standa við heit þín.
28 Áform þín munu heppnast
og birta ljóma á vegum þínum.
29 Þú kallar niðurlægða hrokagikki
en Guð hjálpar auðmjúkum.
30 Hann bjargar saklausum,
vegna hreinna handa þinna bjargast hann.