1 Þegar Sanballat, Tobía, Arabar, Ammónítar og Asdódmenn fréttu að sár borgarmúra Jerúsalem greru, því að skörðin tóku nú að fyllast, urðu þeir afar reiðir. 2 Þeir gerðu allir samsæri um að fara og ráðast á Jerúsalem og stofna þar til óeirða.
3 Við báðum til Guðs okkar og settum vörð um borgina dag og nótt til verndar gegn þeim. 4 En í Júda var sagt:
Afl burðarmannsins þverr:
Þar sem rústirnar eru miklar
mun okkur ekki takast
að endurreisa borgarmúrana.

5 En andstæðingar okkar sögðu: „Þeir eiga hvorki að verða einhvers varir né sjá eitthvað fyrr en við erum komnir á meðal þeirra. Þá drepum við þá og stöðvum þetta verk.“
6 Gyðingar, sem bjuggu í grennd við þá, komu og sögðu okkur að minnsta kosti tíu sinnum frá öllu því illa sem þeir höfðu ætlað að gera okkur. 7 Ég setti þá varðlið á opnum svæðum bak við múrinn og fylkti fólkinu eftir ættbálkum, vopnuðu sverðum sínum, spjótum og bogum. 8 Þegar ég sá að fólkið var hrætt gekk ég fram og ávarpaði aðalsmennina, embættismennina og hitt fólkið: „Óttist þá ekki. Hafið hinn mikla og ógnvekjandi Drottin í huga og berjist fyrir bræður ykkar, syni, dætur, eiginkonur og ættir.“
9 Nú fréttu fjandmenn okkar að við vissum hvað þeir höfðu í huga. Guð hafði ónýtt ráðagerð þeirra. Við héldum því allir aftur að múrnum, hver til síns verks.
10 Frá þessum degi vann aðeins helmingur manna minna að viðgerðinni. Hinn helmingurinn hafði spjót, skildi, boga og brynjur til taks og liðsforingjarnir stóðu á bak við allan ættbálk Júda 11 þar sem hann vann að endurreisn múrsins. Burðarmennirnir voru einnig vopnaðir, þeir unnu með annarri hendi en í hinni héldu þeir á spjóti. 12 Sérhver sem vann að viðgerð múrsins var gyrtur sverði um lendar sér og vann þannig.
Ég hafði lúðurþeytarann við hlið mér 13 þegar ég ávarpaði aðalsmennina, embættismennina og hitt fólkið: „Verkið er mikið og margvíslegt. Við erum dreifðir á borgarmúrnum og langt hver frá öðrum. 14 Þið skuluð safnast saman þar sem þið heyrið lúðurinn gjalla. Guð okkar mun berjast fyrir okkur.“
15 Við unnum verkið þannig að helmingurinn hafði spjót til taks frá því roðaði af morgni og þar til stjörnurnar birtust. 16 Á sama tíma gaf ég fólkinu þessi fyrirmæli:
„Hver maður á að vera í Jerúsalem á nóttunni ásamt mönnum sínum. Þá geta þeir verið verðir okkar á nóttunni en unnið að verkinu á daginn.“ 17 Hvorki ég sjálfur, bræður mínir, menn mínir né varðmennirnir, sem fylgdu mér, afklæddumst. Hver maður hafði spjót sitt sér á hægri hönd.