Vígsla musterisins: Fórnir og lok athafnarinnar

1 Þegar Salómon hafði lokið bæn sinni kom eldur af himni ofan, eyddi brennifórninni og sláturfórnunum og dýrð Drottins fyllti húsið. 2 Prestarnir gátu ekki gengið inn í hús Drottins því að dýrð Drottins fyllti hús Drottins. 3 Þegar allir Ísraelsmenn sáu eldinn koma ofan og dýrð Drottins yfir húsinu vörpuðu þeir sér á steinstéttina og hneigðu ásjónu sína til jarðar, sýndu Drottni lotningu og lofuðu hann: „Því að hann er góður, miskunn hans varir að eilífu.“
4 Síðan færði konungurinn og allt fólkið sláturfórnir fyrir augliti Drottins. 5 Salómon konungur færði tuttugu og tvö þúsund naut og hundrað og tuttugu þúsund sauði í sláturfórn. Þannig vígði konungurinn og allt fólkið hús Guðs.
6 Prestarnir stóðu á sínum stað og einnig Levítarnir sem léku á hljóðfæri Drottins. Davíð konungur hafði látið gera þessi hljóðfæri til þess að lofa Drottin með orðunum: „Því að miskunn hans varir að eilífu.“ Þegar Levítarnir fluttu lofgjörð Davíðs með þeim stóðu prestarnir andspænis þeim og þeyttu lúðra en allur Ísrael stóð á meðan.
7 Salómon helgaði miðhluta forgarðsins fyrir framan hús Drottins. Hann fórnaði þar brennifórnunum og feiti heillafórnarinnar því að eiraltarið, sem Salómon hafði látið gera, rúmaði ekki brennifórnina, kornfórnina og feiti heillafórnarinnar.
8 Að þessu sinni hélt Salómon hátíðina í sjö daga ásamt öllum Ísrael sem var mjög mikill söfnuður frá svæðinu frá Lebó Hamat að landamæralæk Egyptalands. 9 Á áttunda degi héldu þeir lokahátíð því að þeir höfðu haldið vígsluhátíð altarisins í sjö daga og hátíðina í sjö daga. 10 Á tuttugasta og þriðja degi sjöunda mánaðarins sendi konungur fólkið til tjalda sinna glatt og ánægt vegna allra velgjörða Drottins við Davíð og Salómon og eignarlýð sinn, Ísrael.

Önnur opinberun Drottins

11 Þegar Salómon hafði reist hús Drottins og hús konungs og komið í verk öllum áætlunum sínum um hús Drottins og hús sitt, 12 birtist Drottinn Salómon nótt eina og sagði við hann: „Ég hef heyrt bæn þína og valið þennan stað sem fórnarstað minn. 13 Byrgi ég himininn svo að ekki rigni eða skipi engisprettum að rótnaga landið eða sendi drepsótt til þjóðar minnar 14 og þjóð mín, sem nafn mitt hefur verið hrópað yfir,[ auðmýkir sig, biður, leitar auglits míns og lætur af illri breytni sinni, mun ég heyra á himninum, fyrirgefa synd hennar og græða upp land hennar. 15 Héðan í frá munu augu mín vera opin og eyru mín munu hlusta á bænir á þessum stað. 16 Hér með hef ég valið þetta hús og helgað það til þess að nafn mitt búi þar ævinlega. Augu mín og hjarta munu ætíð dvelja þar. 17 Ef þú gengur frammi fyrir augliti mínu eins og Davíð, faðir þinn, og ef þú gerir allt sem ég hef boðið þér, heldur ákvæði mín og lög, 18 mun ég styðja hásæti konungdóms þíns eins og ég hef heitið Davíð, föður þínum, með sáttmála: Niðjar þínir munu ætíð sitja í hásæti Ísraels. 19 En ef þið snúið ykkur frá mér og haldið ekki lög þau og reglur sem ég hef sett ykkur en farið og þjónið öðrum guðum og sýnið þeim lotningu, 20 mun ég uppræta ykkur úr landinu sem ég hef gefið ykkur. Húsið, sem ég hef helgað nafni mínu, mun ég fjarlægja frá augliti mínu og ég mun láta það verða að háði og spotti meðal allra þjóða. 21 Hverjum þeim sem gengur fram hjá þessu háreista húsi mun blöskra og hann mun spyrja: Hvers vegna hefur Drottinn farið svona með þetta land og þetta hús? 22 Og svarið verður: Af því að íbúarnir yfirgáfu Drottin, Guð feðra sinna, sem leiddi þá út úr Egyptalandi. Þeir bundust öðrum guðum, sýndu þeim lotningu og þjónuðu þeim. Þess vegna hefur hann sent allt þetta böl yfir þá.“