Sekt Ísraels

1Svo segir Drottinn:
Hvar er skilnaðarskrá móður yðar
sem ég sendi hana burt með?
Eða hverjum lánardrottna minna
ætti ég að hafa selt yður?
Sökum synda yðar voruð þér seldir
og vegna misgjörða yðar var móðir yðar send burt.
2Hvers vegna var enginn nærri þegar ég kom?
Ég hrópaði en enginn svaraði.
Er hönd mín of stutt til að frelsa,
skortir mig mátt til að bjarga?
Með því að hasta á hafið þurrka ég það upp,
geri fljótin að eyðimörk
svo að fiskarnir í þeim úldna af vatnsleysi
og deyja úr þorsta.
3Ég klæði himininn sorta
og sveipa hann sorgarklæðum. [

Þjónn Drottins

4Drottinn Guð hefur gefið mér lærisveinatungu
svo að ég lærði að styrkja hinn þreytta með orðum.
Á hverjum morgni vekur hann eyra mitt
svo að ég hlusti eins og lærisveinn.
5Drottinn Guð opnaði eyra mitt
og ég streittist ekki á móti,
færðist ekki undan.
6Ég bauð bak mitt þeim sem börðu mig
og vanga mína þeim sem reyttu skegg mitt,
huldi ekki andlit mitt fyrir háðung og hrákum.
7En Drottinn Guð hjálpar mér,
þess vegna verð ég ekki niðurlægður.
Því gerði ég andlit mitt hart sem tinnu
og veit að ég verð ekki til skammar.
8Nærri er sá er sýknar mig,
hver getur deilt við mig?
Við skulum báðir ganga fram.
Hver ákærir mig?
Komi hann til mín.
9Drottinn, Guð minn, hjálpar mér,
hver getur sakfellt mig?
Sjá, þeir detta allir sundur eins og klæði,
mölur étur þá upp.
10Hver er sá yðar á meðal sem óttast Drottin
og hlýðir á boðskap þjóns hans?
Sá sem gengur í myrkri
og enga skímu sér,
hann treysti á nafn Drottins
og reiði sig á Guð sinn.
11En þér, sem kveikið eld
og vopnist logandi örvum,
gangið sjálfir inn í eigið bál
og eldinn sem þér kveiktuð með örvunum.
Úr minni hendi kemur þetta yfir yður,
þér munuð liggja í kvölum.