Gegn leiðtogum þjóðarinnar

1Ég sagði:
Heyrið, höfðingjar Jakobs
og leiðtogar Ísraels ættar.
Vissulega áttuð þér að vita hvað rétt er.
2En þér hatið það sem gott er
og elskið það sem illt er,
fláið af mönnum húðina,
tætið hold af beinum þeirra.
3Þeir eta hold þjóðar minnar,
flá af skinnið
og brjóta beinin,
hluta holdið niður eins og kjöt í pott
eða steik á pönnu.
4Þeir munu hrópa til Drottins
en hann mun ekki svara,
heldur byrgja auglit sitt fyrir þeim
því að verk þeirra voru ill.

Gegn spámönnum

5Svo mælir Drottinn um spámennina
sem villa um fyrir þjóð minni:
Fyrir matartuggu boða þeir frið
en stríð hverjum þeim
sem engu stingur upp í þá.
6Þess vegna mun nótt
koma yfir yður
en engar vitranir,
myrkur en engir spádómar.
Sól spámannanna mun setjast
og dagar myrkvast.
7Sjáendur verða sér til minnkunar
og spásagnamenn hafðir að spotti.
Allir munu þeir hylja andlit sitt
því að Guð veitir þeim engin svör.
8En mér hefur andi Drottins
veitt fullan þrótt,
réttsýni og hugrekki
til að átelja Jakob fyrir brot hans
og Ísrael fyrir synd hans.

Gegn mútuþægum leiðtogum og prestum

9Heyrið þetta, leiðtogar Jakobs ættar,
höfðingjar Ísraels ættar,
þér sem hafið andstyggð á réttlæti
og hallið hverju því sem rétt er,
10þér sem byggið Síon með blóði
og Jerúsalem með ódæðisverkum.
11Höfðingjar hennar þiggja mútur fyrir dóma sína,
prestar hennar fé fyrir ráð sín
og spámenn hennar spá gegn gjaldi.
Þó reiða þeir sig á Drottin og segja:
„Er Drottinn ekki með oss?
Engin ógæfa hendir oss.“
12Af yðar sökum
verður Síon plægð sem akur,
Jerúsalem verður að rúst
og musterisfjallið að kjarrivaxinni hæð.