Lofsöngur Hönnu

1 Hanna bað og sagði:
Hjarta mitt fagnar í Drottni.
Horn mitt [ er upphafið af Drottni.
Ég hlæ að fjandmönnum mínum [
því að ég gleðst yfir hjálp þinni.
2Enginn er heilagur sem Drottinn,
enginn er til nema þú,
enginn er klettur sem Guð vor.
3Hreykið yður ekki í orðum,
sleppið engum stóryrðum af vörum
því að Drottinn er vitur Guð,
hann metur verkin.
4Bogi kappanna er brotinn
en örmagna menn gyrðast styrkleika.
5Saddir selja sig fyrir brauð
en hungraðir þurfa þess ekki.
Óbyrja elur sjö börn
en barnmörg móðir visnar.
6Drottinn deyðir og lífgar,
sendir menn til heljar
og leiðir þá upp þaðan.
7Drottinn sviptir menn eigum og auðgar þá,
hann niðurlægir og upphefur.
8Hann lyftir hinum auma úr duftinu
og hefur hinn snauða úr skarninu,
leiðir hann til sætis hjá höfðingjum
og skipar honum í öndvegi.
Stoðir jarðar eru eign Drottins,
á þeim reisti hann heiminn.
9Hann ver fætur sinna réttlátu
en ranglátir þagna í myrkrinu
því að enginn er máttugur af eigin afli.
10Drottinn kremur þá sem rísa gegn honum,
Hinn hæsti sendir þrumur af himni gegn þeim.
Drottinn dæmir alla jörðina.
Hann eflir konung sinn að mætti
og hefur upp horn síns smurða.

11 Elkana sneri aftur heim til Rama en drengurinn varð eftir og þjónaði Drottni undir handleiðslu Elí prests.

Synir Elí

12 Synir Elí voru þrjótar og skeyttu ekki um Drottin.
13 Prestarnir breyttu þannig við almenning að í hvert sinn sem einhver færði sláturfórn og kjötið fór að sjóða, kom þjónn prestsins með þrítenntan gaffal í hendi. 14 Hann stakk gafflinum ofan í pottinn, ketilinn, kerið eða kirnuna og allt, sem upp kom á gafflinum, tók presturinn handa sjálfum sér. Þannig fórst þeim við alla Ísraelsmenn sem komu til Síló. 15 Jafnvel áður en fitan hafði verið brennd kom þjónn prestsins og sagði við þann sem var að færa sláturfórn: „Gefðu prestinum kjöt til að steikja. Hann vill ekki soðið kjöt heldur hrátt.“ 16 Ef maðurinn svaraði: „Fyrst verður þó að brenna fituna og síðan geturðu tekið það sem þú vilt,“ þá sagði þjónninn: „Nei, láttu mig fá það strax, annars tek ég það með valdi.“
17 Synd þessara ungu manna frammi fyrir augliti Drottins var mjög mikil því að þeir lítilsvirtu fórn Drottins.

Samúel í helgidóminum

18 Þótt Samúel væri ungur að árum þjónaði hann frammi fyrir augliti Drottins, klæddur línhökli.[ 19 Þegar móðir hans fór upp eftir með manni sínum til að færa hina árlegu sláturfórn gerði hún jafnan litla yfirhöfn og færði honum. 20 Elí blessaði þá Elkana og konu hans og sagði: „Drottinn gefi þér barn með þessari konu í stað þess sem Drottinn bað um og hún gaf honum.“
Síðan fóru þau heim 21 og Drottinn var Hönnu náðugur. Hún varð þunguð og fæddi þrjá syni og tvær dætur. En sveinninn Samúel óx upp hjá Drottni.

Dómur yfir ætt Elí

22 Elí gerðist nú mjög gamall. Þegar hann frétti hvernig synir hans breyttu við Ísraelsmenn og að þeir legðust með konunum, sem unnu við inngang samfundatjaldsins, spurði hann: 23 „Hvers vegna hegðið þið ykkur svona? Ég heyri hvarvetna talað um illvirki ykkar. 24 Látið af þessu, synir mínir. Það er ekki fallegt sem ég heyri þjóð Drottins breiða út um ykkur. 25 Brjóti maður af sér gegn öðrum manni getur Guð skorið úr en brjóti maður af sér gegn Guði, hver er þá fær um að úrskurða?“ En þeir hlustuðu ekki á föður sinn því að Drottinn vildi deyða þá.
26 En sveinninn Samúel óx og dafnaði og var þekkur bæði Guði og mönnum.
27 Þá kom guðsmaður nokkur til Elí og sagði við hann: „Svo segir Drottinn: Opinberaði ég mig ekki fyrir ættmönnum föður þíns þegar þeir voru þrælar fjölskyldu faraós í Egyptalandi? 28 Úr öllum ættbálkum Ísraels valdi ég mér ætt föður þíns að prestum til að standa við altari mitt, brenna reykelsi og bera hökul frammi fyrir augliti mínu. Ég fól einnig ætt föður þíns allar eldfórnir Ísraelsmanna. 29 Hvers vegna troðið þið fótum sláturfórnir mínar og kornfórnir sem ég hef fyrirskipað? Hvers vegna metur þú syni þína meira en mig og svo að þið fitið ykkur á því besta af fórnum þeim sem Ísrael, þjóð mín, færir? 30 Þess vegna segir Drottinn, Guð Ísraels: Ég hef áður sagt að ætt þín og föður þíns skuli ævinlega gegna þjónustu fyrir augliti mínu. En nú segir Drottinn: Það sé fjarri mér. Ég heiðra þá eina sem heiðra mig og þeir sem fyrirlíta mig munu til skammar verða. 31 Sá tími kemur að ég mun binda enda á styrkleika þinn og eyða mætti fjölskyldu þinnar svo að enginn verði gamall í ætt þinni. 32 Þú munt horfa öfundaraugum á allt hið góða sem Drottinn mun veita Ísrael en í ætt þinni skal enginn verða gamall. 33 Aðeins einum af ætt þinni mun ég ekki útrýma frá altari mínu. En ég mun blinda augu þín og svipta þig lífskrafti þínum. Allir aðrir af ætt þinni munu deyja í blóma lífs síns. 34 Það sem kemur fyrir syni þína, Hofní og Pínehas, skal verða þér tákn. Þeir munu báðir deyja sama dag. 35 En ég mun setja trúan prest í embætti. Hann mun fara að vilja mínum og óskum. Ég mun festa ætt hans í sessi og hann mun ævinlega gegna þjónustu frammi fyrir augliti míns smurða. 36 Þá munu allir, sem eftir eru af ætt þinni, koma og lúta honum, biðja um skilding eða brauðhleif og segja: Komdu mér að í einhverjum prestaflokknum svo að ég fái brauðbita að borða.“