Hvíldardagurinn

1 Móse stefndi saman öllum söfnuði Ísraelsmanna og sagði: „Þetta er það sem Drottinn hefur boðið ykkur að gera: 2 Sex daga skal vinna en sjöundi dagurinn skal vera ykkur heilagur hvíldardagur, algjör hvíld vegna Drottins. Hver sem vinnur verk þann dag skal tekinn af lífi. 3 Þið megið ekki kveikja eld í híbýlum ykkar á hvíldardegi.“

Gjafir til helgidómsins

4 Móse sagði við allan söfnuð Ísraelsmanna: „Þetta er það sem Drottinn hefur boðið: 5 Færið Drottni gjafir af eignum ykkar. Sérhver skal færa Drottni gjöf eftir því sem hjarta hans býður honum, gull, silfur og eir, 6 bláan purpura, rauðan purpura, skarlat, fínt lín, geitahár, 7 rauðlituð hrútsskinn og höfrungahúðir, akasíuvið, 8 olíu fyrir ljósastikuna, ilmefni fyrir smurningarolíu og ilmandi reykelsi, 9 sjóamsteina og aðra steina til að setja á hökulinn og brjóstskjöldinn. 10 Allir hagleiksmenn á meðal ykkar skulu koma og gera allt sem Drottinn hefur boðið, 11 samfundatjaldið, tjöld þess og þak, króka, þiljuborð, þverslár, súlur, sökkla, 12 örkina og stengurnar, sem henni fylgja, lokið, fortjaldið, 13 borðið og stengurnar, sem því fylgja, öll áhöld þess og skoðunarbrauðin, 14 ljósastikuna og áhöldin og lampana, sem henni fylgja, og olíu fyrir ljósastikuna, 15 reykelsisaltarið og stengurnar, sem því fylgja, smurningarolíuna, hið ilmandi reykelsi og forhengið fyrir inngang tjaldbúðarinnar, 16 brennifórnaraltarið og eirgrindurnar, stengurnar, sem þeim fylgja, og öll áhöld þess, kerið ásamt stétt þess, 17 tjöld forgarðsins, súlur hans og sökkla, forhengið fyrir hliðið inn í forgarðinn, 18 tjaldhæla tjaldbúðarinnar, tjaldhæla forgarðsins og stögin, sem þeim fylgja, 19 glitklæðin fyrir þjónustuna í helgidóminum, hinn heilaga skrúða Arons prests og prestaskrúðann fyrir syni hans.“
20 Því næst gekk allur söfnuður Ísraelsmanna burt frá Móse. 21 Þá komu þeir aftur sem gefa vildu af fúsum hug og af frjálsum vilja. Allir færðu Drottni framlag vegna vinnunnar við samfundatjaldið og þjónustunnar í því og hins helga skrúða. 22 Bæði karlar og konur komu. Allir komu með gjafir af fúsum vilja, armbönd, nefhringi, fingurgull, hálskeðjur og alls kyns gullgripi, allir þeir sem ætluðu að færa Drottni gull í helgigjöf. 23 Sérhver, sem fann hjá sér bláan purpura, rauðan purpura, skarlat, fínt lín, geitahár, rauðlituð hrútsskinn og höfrungaskinn, kom með það. 24 Sérhver, sem gat lagt fram silfur eða eir, færði Drottni það að gjöf og sérhver, sem fann hjá sér akasíuvið sem var nothæfur í eitthvað sem átti að gera, kom með hann. 25 Sérhver kona, sem var vel að sér í handavinnu, spann og kom með það sem hún hafði spunnið, purpurablátt, purpurarautt og hárautt band ásamt fínu líni. 26 Allar konur, sem fúsar voru til og höfðu til þess kunnáttu, spunnu geitahár. 27 Höfðingjarnir komu með sjóamsteina og steina til að leggja á hökulinn og brjóstskjöldinn, 28 einnig ilmefni og olíu fyrir ljósastikuna og í smurningarolíu og ilmandi reykelsi.
29 Sérhver karl eða kona, sem fús var til, kom með það af frjálsum vilja sem þurfti til verksins sem Drottinn hafði boðið fyrir munn Móse að unnið yrði. Ísraelsmenn komu með það til Drottins af frjálsum vilja.

Hagleiksmennirnir

30 Móse sagði við Ísraelsmenn: „Drottinn hefur kvatt til Besalel Úríson, Húrssonar, af ættbálki Júda. 31 Hann hefur fyllt hann anda Guðs með visku, skilningi, kunnáttu og hvers konar hagleik 32 til að hugsa upp og smíða úr gulli, silfri og eir, 33 til að grafa í steina og greypa þá, skera í tré og til að vinna hvers konar hagleiksverk. 34 Hann bjó hann þeirri gáfu að kenna öðrum, hann og Oholíab Akísamaksson af ættbálki Dans. 35 Hann bjó þá hugviti til að vinna alls konar gröft í steina, listvefnað, glitvefnað úr bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og fínu líni og dúkvefnað. Þeir geta því látið sér í hug koma hvers konar verk og unnið þau.