1 Davíðssálmur er hann kvað fyrir Drottni sakir Kúss Benjamíníta.
2Drottinn, Guð minn, hjá þér leita ég hælis,
hjálpa mér frá öllum ofsækjendum mínum og bjarga mér
3svo að enginn rífi mig sundur eins og ljón,
dragi mig burt, þangað sem enginn hjálpar.
4Drottinn, Guð minn, hafi ég gert þetta
loðir ranglæti við hendur mínar,
5hafi ég gert vinveittum illt
eða rúið óvin minn öllu að ástæðulausu
6þá má fjandmaður minn elta mig og ná mér,
traðka á lífi mínu og troða sæmd mína niður í svaðið. (Sela)
7Reis þig, Drottinn, í reiði þinni,
hef þig gegn ofsa fjandmanna minna.
Vakna, Guð minn, þú hefur kallað til dóms.
8Þjóðirnar safnist umhverfis þig,
sestu í hásæti ofar þeim. [
9Drottinn dæmir þjóðirnar.
Lát mig ná rétti mínum, Drottinn,
því að ég er réttlátur og saklaus.
10Stöðva illsku óguðlegra
en styrk réttláta,
þú, sem rannsakar hjörtun og nýrun, [
réttláti Guð.
11Guð er skjöldur minn,
hjálpar hjartahreinum.
12Guð er réttlátur dómari,
Guð sem reiðist hvern dag.
13Iðrist þeir ekki
hvessir hann sverð sitt.
Hann spennir boga sinn og miðar,
14beinir banvænum vopnum gegn hinum óguðlegu,
logandi örvum.
15Sá sem er þungaður af illsku
gengur með ógæfu og fæðir svik.
16Hann grefur gryfju, mokar upp úr henni
en fellur í eigin gröf.
17Ranglæti hans kemur honum í koll,
illvirki hans yfir höfuð honum.
18Ég þakka Drottni réttlæti hans,
lofsyng nafni Drottins, Hins hæsta.