Flokkar prestanna

1 Sonum Arons var einnig skipað í flokka. Synir Arons voru Nadab, Abíhú, Eleasar og Ítamar. 2 Nadab og Abíhú dóu á undan föður sínum. Þar sem þeir áttu enga syni tóku Eleasar og Ítamar við prestsembættinu. 3 Davíð skipaði þeim í þjónustuflokka ásamt Sadók, sem var afkomandi Eleasars, og Ahímelek sem var af Ítamar kominn. 4 Þar sem fleiri höfðingjar reyndust vera meðal niðja Eleasars en meðal niðja Ítamars var sextán ættarhöfðingjum úthlutað til niðja Eleasars en aðeins átta til niðja Ítamars. 5 Allir flokkarnir voru valdir með hlutkesti því að hinir heilögu höfðingjar og höfðingjar Guðs voru bæði niðjar Eleasars og Ítamars. 6 Semaja Netaneelsson, skrifari af ætt Leví, skrifaði þá upp í viðurvist konungs, höfðingjanna, Sadóks prests, Abjatars Ahímelekssonar og ættarhöfðingja prestanna og niðja Leví. Voru tvær fjölskyldur valdar hverju sinni af ætt Eleasars en ein af ætt Ítamars.
7 Fyrsta hlutkestið féll á Jójaríb, annað á Jejdaja, 8 þriðja á Harím, fjórða á Seórím, 9 fimmta á Malkía, sjötta á Mijamín, 10 sjöunda á Hakkos, áttunda á Abía, 11 níunda á Jesúa, tíunda á Sekanja, 12 ellefta á Eljasíb, tólfta á Jakím, 13 þrettánda á Húppa, fjórtánda á Jesebeab, 14 fimmtánda á Bilga, sextánda á Immer, 15 sautjánda á Hesír, átjánda á Happísses, 16 nítjánda á Pelashja, tuttugasta á Jeheskel, 17 tuttugasta og fyrsta á Jakín, tuttugasta og annað á Gamúl, 18 tuttugasta og þriðja á Delaja, tuttugasta og fjórða á Maasja.
19 Þetta var skipting þjónustu þeirra. Eftir henni áttu þeir að koma til húss Drottins samkvæmt boði því sem þeir höfðu fengið frá Aron, föður sínum, og Drottinn, Guð Ísraels, hafði lagt fyrir hann.

Önnur skrá yfir Levíta

20 Varðandi aðra niðja Leví, þá var Súbael einn sona Amrams. Jehdeja var einn af sonum Súbaels. 21 Jissía var elstur af sonum Rehabja. 22 Selómót var einn af niðjum Jísehars. Jahat var einn af sonum Selómóts. 23 Amarja var einn af sonum Jería, annar var Jehasíel, þriðji Jekameam. 24 Míka var sonur Ússíels, Samír var einn af sonum Míka. 25 Jissía var bróðir Míka. Sakaría var einn af sonum Jissía. 26 Mahlí og Músí voru synir Merarí. Sonur Jaasía var Baní. 27 Niðjar Merarí, komnir af Jaasía, voru Baní, Sóham, Sakkúr og Íbrí. 28 Eleasar, sem var barnlaus, var af Maklí kominn. 29 Af Kís var Jerahmeel, sonur Kíss. 30 Synir Músí voru Mahlí, Eder og Jerímót.
Þetta voru niðjar Leví, flokkaðir eftir fjölskyldum sínum. 31 Þeir vörpuðu einnig hlutkesti eins og bræður þeirra, synir Arons, í viðurvist Davíðs konungs, Sadóks og Ahímeleks og ættarhöfðingja prestanna og Levítanna, bæði fjölskyldna hins fremsta þeirra og yngsta bróðurins.