Andstaða gegn Nehemía

1 Nú fréttu Sanballat, Tobía, Arabinn Gesem og aðrir fjandmenn okkar að ég hefði endurreist múrinn og að engin skörð væru lengur í honum. Þá hafði ég að vísu ekki enn komið vængjahurðum fyrir í hliðunum. 2 Sanballat og Gesem sendu þá til mín mann með þessi skilaboð: „Komdu, við skulum hittast í Kefirím í Ónódal.“
En þeir ætluðu sér að gera mér illt. 3 Ég sendi þá mann til þeirra með þessi boð: „Ég er að vinna að miklu verki og get ekki komið. Verkið stöðvast ef ég fer frá því og kem til ykkar.“
4 Þeir sendu mér sömu skilaboð fjórum sinnum og ég sendi sama svar í hvert skipti. 5 Þá sendi Sanballat enn einu sinni, í fimmta sinn, til mín og nú þjón sinn. Hann hafði meðferðis opið bréf 6 og í því stóð: „Sá orðrómur gengur meðal annarra þjóða, og Gasmú er sama sinnis, að þú og Gyðingarnir hyggið á uppreisn. Þú sért að endurreisa múrinn og ætlir að verða konungur þeirra. 7 Þú átt einnig að hafa fengið spámenn til að hrópa um þig í Jerúsalem: Það er kominn konungur í Júda. Nú berst konungi þetta til eyrna. Komdu því svo að við getum átt fund saman.“
8 Ég svaraði honum: „Ekkert af því sem þú nefnir hefur gerst heldur hefur þú spunnið þetta upp sjálfur í eigin huga.“
9 Þeir ætluðu allir að hræða okkur og hugsuðu með sér: „Þá fallast þeim hendur svo að þeir hætta við verkið og ljúka því ekki.“ En þá tók ég til hendinni svo um munaði.
10 Einhverju sinni kom ég í hús Semaja Delajasonar, Mehetabeelssonar, sem var þar í haldi. Hann sagði: „Við skulum hittast í musterissalnum í húsi Guðs. Við skulum loka dyrum musterisins því að menn koma til að drepa þig. Þeir koma að næturlagi til að drepa þig.“
11 Ég svaraði: „Heldurðu að maður eins og ég flýi? Getur nokkur á við mig komið inn í musterissalinn og haldið lífi? Ég kem ekki.“
12 Mér varð ljóst að það var ekki Guð sem hafði sent hann heldur hafði hann spáð mér þessu af því að Tobía og Sanballat höfðu keypt hann til þess. 13 Hann hafði verið keyptur til þess að ég yrði hræddur og hegðaði mér samkvæmt því og syndgaði. Með þessu átti að koma á mig illu orði og ég að verða mér til skammar. 14 Guð minn, minnstu þess sem Tobía og Sanballat hafa gert, einnig þess sem spákonan Nóadja og hinir spámennirnir gerðu til þess að hræða mig.

Lokið við múrinn

15 Lokið var við múrinn á fimmtíu og tveimur dögum, tuttugusta og fimmta dag elúlmánaðar. 16 Þegar allir fjandmenn okkar fréttu það urðu þjóðirnar, sem bjuggu umhverfis, skelfingu lostnar. Sjálfstraust þeirra minnkaði mjög þar sem þær urðu að viðurkenna að verkið hafði verið unnið með hjálp frá Guði okkar.
17 Um þessar mundir sendu ýmsir aðalsmenn í Júda mörg bréf til Tobía og þeir fengu bréf frá honum. 18 Margir í Júda voru bundnir honum eiði því að hann var tengdasonur Sekanja Arasonar og Jóhanan, sonur hans, hafði kvænst dóttur Mesúllams Berekíasonar. 19 Þeir sögðu mér frá góðum verkum hans og báru honum orð mín. Tobía sendi einnig bréf til að hræða mig.