1 Á sjöunda árinu herti Jójada upp hugann og gerði bandalag við foringja hundrað manna sveitanna, við Asaría Jeróhamsson, Ísmael Jóhanansson, Asaría Óbeðsson, Maasja Adajason og Elísafat Síkríson. 2 Þeir fóru því næst um Júda og söfnuðu saman Levítunum úr öllum borgum Júda og ættarhöfðingjum í Ísrael. Þegar þeir komu til Jerúsalem 3 gerði allur þessi söfnuður sáttmála við konunginn í húsi Guðs. Jójada sagði við þá: „Sjáið son konungsins. Hann skal ríkja sem konungur eins og Drottinn hefur heitið niðjum Davíðs.[ 4 Gerið þetta: Þriðjungur ykkar, prestar og Levítar og hliðverðir sem koma til þjónustu á hvíldardeginum, skal standa vakt við þröskuldana, 5 þriðjungur skal halda vörð við konungshöllina og þriðjungur við hliðið Jesód. En allt fólkið skal vera kyrrt í forgörðum húss Drottins. 6 Enginn má fara inn í hús Drottins nema prestarnir og þeir Levítar sem eiga að gegna þjónustu. Þeir mega fara inn í húsið því að þeir eru helgaðir en allir aðrir skulu virða bann Drottins. 7 Levítarnir skulu fylkja sér umhverfis konunginn, hver með vopn sitt í hendi. Hver sem reynir að ryðjast inn í húsið skal drepinn. Þið skuluð vera hjá konunginum hvert sem hann fer.“
8 Levítarnir og allir Júdamenn gerðu allt sem Jójada prestur hafði skipað. Þeir sóttu menn sína, bæði þá sem komu til varðstöðu og þá sem voru leystir af á hvíldardeginum, því að Jójada prestur hafði ekki sent varðflokkana burt. 9 Jójada prestur afhenti hundraðshöfðingjunum spjót og skildi sem Davíð konungur hafði átt og voru varðveittir í húsi Guðs. 10 Þegar hann hafði fylkt öllu liðinu með vopn í höndum, frá suðurhlið hússins að norðurhlið þess, framan við altarið og húsið, umhverfis konunginn, 11 leiddu Jójada og synir hans son konungsins út. Þeir settu á hann kórónuna og fengu honum lögin. Síðan gerðu þeir hann að konungi. Jójada og synir hans smurðu hann og hrópuðu: „Lifi konungurinn!“
12 Þegar Atalía heyrði hróp mannfjöldans, sem þusti að og hyllti konunginn, gekk hún inn í mannþröngina í húsi Drottins. 13 Þá sá hún konunginn standa við súlu sína við innganginn og hirðmennina og lúðurþeytarana umhverfis hann og allan landslýðinn sem fagnaði og blés í lúðra og söngvarana sem stóðu með hljóðfæri sín, reiðubúnir að gefa merki um að hefja lofsönginn. Atalía reif klæði sín og hrópaði: „Svik. Svik.“
14 Jójada prestur skipaði þá hundraðshöfðingjunum, fyrirliðum hersins, svo fyrir: „Leiðið hana út á milli raðanna og drepið hvern þann með sverði sem fylgir henni.“ En áður hafði presturinn sagt: „Það má ekki drepa hana í húsi Drottins.“ 15 Þeir lögðu síðan hendur á hana. Þegar hún var komin að inngangi hestahliðsins við hús konungs var hún drepin.
16 Jójada gerði síðan sáttmála milli sín, allrar þjóðarinnar og konungsins um að hún skyldi vera lýður Drottins. 17 Því næst fór allt fólkið til húss Baals, reif niður ölturu þess, mölbraut líkneskin og frammi fyrir ölturunum drap það Mattan sem var prestur Baals.
18 Jójada fékk prestum og Levítum eftirlit með húsi Drottins. Davíð hafði skipað þeim í þjónustuflokka fyrir hús Drottins til þess að færa Drottni brennifórnir eins og skráð er í lögmáli Móse, með gleði og sálmasöng eftir fyrirmælum Davíðs. 19 Hann setti einnig verði við hlið húss Drottins til þess að enginn kæmist inn sem væri á einhvern hátt óhreinn.
20 Jójada safnaði saman hundraðshöfðingjunum og þeim sem voru mikils metnir og leiðtogum þjóðarinnar ásamt öllu fólkinu. Síðan leiddu þeir konunginn niður úr húsi Drottins og komu gegnum efra hliðið til konungshallarinnar. Þar settu þeir konunginn í hið konunglega hásæti. 21 Landslýðurinn gladdist og ró færðist yfir borgina. En Atalía var drepin með sverði.