Fæðing Móse og æska

1 Maður nokkur af ætt Leví fór og tók sér eiginkonu af sömu ætt. 2 Konan varð þunguð og eignaðist son. Þegar hún sá hve efnilegur hann var faldi hún hann í þrjá mánuði. 3 Þegar hún gat ekki leynt honum lengur fékk hún sér körfu úr sefi handa honum. Hún þétti hana með biki og tjöru, lagði drenginn í hana og setti körfuna út í sefið við árbakkann. 4 En systir hans stóð þar álengdar til að fylgjast með hvað um hann yrði.
5 Þá gekk dóttir faraós niður að ánni til að baða sig en þjónustustúlkur hennar gengu eftir árbakkanum. Hún kom auga á körfuna í sefinu og sendi þjónustustúlku sína eftir henni. 6 Þegar hún opnaði körfuna sá hún grátandi dreng í henni. Hún vorkenndi honum og sagði: „Þetta er einn af hebresku drengjunum.“ 7 Þá spurði systir hans dóttur faraós: „Á ég að fara og kalla á hebreska brjóstmóður fyrir þig?“ 8 Dóttir faraós svaraði: „Já, gerðu það.“ Stúlkan fór og kallaði á móður drengsins. 9 Dóttir faraós sagði við hana: „Farðu með þennan dreng og hafðu hann á brjósti fyrir mig og ég skal launa þér það.“ Konan fór með drenginn og hafði hann á brjósti. 10 Þegar drengurinn stálpaðist fór hún með hann til dóttur faraós sem tók hann í sonar stað. Hún gaf honum nafnið Móse og sagði: „Því að ég dró hann upp úr vatninu.“ [

Móse í Midían

11 Einhverju sinni þegar Móse var orðinn fulltíða gekk hann út til ættbræðra sinna og horfði á þá við kvaðavinnuna. Þá sá hann Egypta slá hebreskan mann, einn ættbræðra sinna. 12 Móse leit í allar áttir og þegar hann sá að enginn var nærri sló hann Egyptann banahögg og gróf hann í sandinn.
13 Daginn eftir gekk hann aftur út og sá þá tvo hebreska menn takast á. Þá spurði hann þann seka: „Hvers vegna slærðu félaga þinn?“ 14 Hann svaraði: „Hver setti þig höfðingja og dómara yfir okkur? Ætlarðu ef til vill að drepa mig eins og þú drapst Egyptann?“ Móse varð hræddur og hugsaði: „Þetta hefur þá komist upp.“
15 Þegar faraó frétti þetta vildi hann láta drepa Móse. En Móse flýði undan faraó og kom sér fyrir í Midíanslandi þar sem hann settist að við brunn einn.
16 Presturinn í Midían átti sjö dætur. Þær komu til að sækja vatn og fylla þrærnar til að brynna fé föður síns. 17 Þá komu nokkrir hjarðmenn og vildu reka þær burt. En Móse stóð upp og hjálpaði þeim og brynnti fénaði þeirra. 18 Þegar þær komu heim til Regúels, föður síns, spurði hann: „Hvers vegna komið þið svona snemma heim í dag?“ 19 Þær svöruðu: „Egypskur maður varði okkur fyrir hjarðmönnunum og jós meira að segja upp vatni fyrir okkur og brynnti fénu.“ 20 Þá sagði hann við dætur sínar: „Hvar er hann? Hvers vegna skilduð þið manninn eftir? Bjóðið honum inn svo að hann fái eitthvað að eta.“ 21 Móse ákvað að vera um kyrrt hjá þessum manni. Hann gaf Móse Sippóru, dóttur sína, fyrir konu 22 og hún ól son. Móse gaf honum nafnið Gersóm því að hann sagði: „Ég er aðkomumaður í ókunnu landi.“
23 Mörgum árum síðar dó Egyptalandskonungur. Ísraelsmenn stundu undan þrældómnum og kveinuðu og neyðaróp þeirra steig upp til Guðs. 24 Þegar Guð heyrði kveinstafi þeirra minntist hann sáttmála síns við feður þeirra, Abraham, Ísak og Jakob. 25 Guð leit til sona Ísraels og birtist þeim.